Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles aðfararnótt mánudagsins og bíóspekingum Fréttablaðsins ber saman um að stríðsmyndin 1917 verði frek til fjörsins þegar gullstyttunum verður útdeilt. „Við erum náttúrlega vandræðalega sammála að þessu sinni,“ segir Þórarinn Þórarinsson, kvikmyndagagnrýnandi, um óskarsspá þeirra Kolbrúnar Bergþórsdóttur, menningarritstjóra. „Það er ekki skrýtið að við skulum vera sammála. Við höfum svo góðan smekk!“ segir Kolbrún um niðurstöður þeirra í spánni sem þau gera nú þriðja árið í röð.

Besta myndin

Ford v Ferrari

The Irishman

Jojo Rabbit

Joker

Little Women

Marriage Story

1917

Once upon a Time...in Hollywood

Parasite

Kolbrún: Ég á afar erfitt með að gera upp á milli 1917 og Once Upon a Time in Hollywood. Ég er eins langt frá því að vera Tarantino aðdáandi og hægt er að vera, en ég kolféll fyrir þessari mynd. Hún er óskaplega skemmtileg, hugmyndarík, fyndin og full af óvæntum atvikum – og endar á nánast snilldarlegan hátt. Gef henni atkvæði mitt en held að 1917 vinni, enda mögnuð mynd sem gleymist ekki svo glatt.

Þórarinn: Ég er eins mikill Tarantino-aðdáandi og hugsast getur en held ekki að Once Upon a Time in Hollywood verði sá Trjóuhestur sem skili honum æðstu viðurkenningum akademíunnar. Eins frábær og þessi dásamlegi óður hans til Hollywood er þá er hún ekki hans besta verk og hann er þar fyrir utan slíkt undrabarn að við sem erum í hans liði gefum ekkert fyrir viðurkenningu úr þessari átt. 1917 er ekki endilega heldur besta myndin í þessu úrtaki en hún er ekta óskarsverðalunamynd af gamla skólanum og ég geng út frá þeirri kenningu minni að hún muni falla í Ben Húr-flokkinn og hirða öll helstu verðlaunin sem hún er tilnefnd til. Gangi þetta eftir verðum við Íslendingar að taka með í reikninginn og búa okkur undir að 1917 hirði tónlistarverðlaunin með í þeirri kippu þótt Hildur sé auðvitað í raun og veru með bestu tónlistina þetta árið.

Besti leikstjórinn

Martin Scorsese The Irishman

Todd Phillips Joker

Sam Mendes 1917

Quentin Tarantino Once Upon a Time… in Hollywood

Bong Joon Ho Parasite

Kolbrún: Þarna held ég að Sam Mendes muni vinna – og hann á að vinna.

Þórarinn: Þótt The Irishman sé helvíti góð þá jafnast hún ekki á við það allra besta sem Scorsese hefur gert á ferlinum og rugluð akademían kaus að sniðganga þannig að það væri alveg dæmigert fyrir hallærislegheitin í kringum þessi verðlaun að þeim verði skutlað í þann gamla fyrir The Irishman, Annars er ég sammála Kollu og held að Mendes fái þetta. Óhjákvæmilega og verðskuldað.

Ef að líkum lætur verður Sam Mendes sigursæll á óskarsverðlaunahátíðinni og hætt við að Tarantino gangi skúffaður af velli.

Besti leikari í aðalhlutverki

Antonio Banderas Pain and Glory

Leonardo DiCaprio Once Upon a Time… in Hollywood

Adam Driver Marriage Story

Joaquin Phoenix Joker

Jonathan Pryce The Two Popes

Kolbrún: Joaquin Phoenix á að vera öruggur með Óskarinn. Leikur hans og tónlist Hildar Guðnadóttur er það langbesta í einstaklega slæmri mynd. Jonathan Pryce fær þó mitt atkvæði, hin næma túlkun hans á Frans páfa hlýtur að snerta alla sem sjá The Two Popes.

Það er eitthvað mikið að í Hollywood ef Joaquin Phoenix dansar ekki af sviðinu á sunnudagskvöld við tónlist Hildar Guðnadóttur með gyllta styttu í fanginu .

Þórarinn: Kvikmyndaheimspressanvirðist gegnumsneitt telja Antonio Banderas aldrei hafa verið betri og sýna lang mestu og bestu tilþrifin í þessari deild með Pain and Glory. Ólíklegt en ekki alveg útilokað að akademíman taki undir með gagnrýnendaskrílnum en Phoenix hlýtur að taka þetta ef hann er ekki búinn að trampa á of mörgum viðkæmum tásum með aktíveganisma sínum. Joker er kannski ekki slæm mynd, Kolla, en vissulega ofmetin og hefði ekki náð þessu háflugi ef hún væri ekki knúinn kjarnorkunni sem myndaðist við samruna Phoenix og tónlistar Hildar sem á auðvitað að fá styttuna líka fyrir sinn þátt í persónusköpun leikarans.

Besta leikkona í aðalhlutverki

Cynthia Erivo Harriet

Scarlett Johansson Marriage Story

Saoirse Ronan Little Women

Charlize Theron Bombshell

Renée Zellweger Judy

Kolbrún: Renée Zellweger hlýtur að vinna. Það að horfa á Judy er eins og að sjá Judy Garland rísa upp úr gröf sinni. Zellweger verður beinlínis að henni. Algjörlega mögnuð túlkun. Saoirse Ronan er mitt annað val, hún er dásamleg Jo March í Little Women.

Þórarinn: Charlize Theron er ferlega góð í Bombshell en samt einhvern veginn dálítið á skjön í þessum flokki að þessu sinni og á ekki séns, frekar en hinar, í Zellweger sem tikkar í öll boxin á klisjueyðublaði Akademíunnar. Judy Garland er Hollywood-gyða sem holdgerist í Zellweger með förðunargöldrum og stórleik. Þar að auki hefur lítið farið fyrir Zellweger á síðustu árum og Hollywood elskar „kommbakk“.

Kolbrún sættir sig við að Renée Zellweger hafi betur en Saoirse Ronan sem henni finnst dásamleg Jo March í Little Women.

Besta leikkona í aukahlutverki

Kathy Bates Richard Jewell

Laura Dern Marriage Story

Scarlett Johansson Jojo Rabbit

Florence Pugh Little Women

Margot Robbie Bombshell

Kolbrún: Laura Dern er einstaklega góð í Marriage Story. Í hvert sinn sem hún birtist tekst manni næstum því að gleyma hversu tilgerðarleg og leiðinleg þessi mynd annars er. Eitursnjöll einræða hennar um Maríu mey mun tryggja henni Óskarinn.

Þórarinn: Ætli ég sé ekki jafn hrifinn af Scarlett og Kollu er í nöp við hana en neyðist samt enn og aftur að vera sammála minni góðu vinkonu. Þótt Scarlett sér alveg sérstaklega góð í áhugaverðu hlutverki í sennilega bestu mynd síðasta árs þá trompar Laura Dern þennan flokk mjög sannfærandi.

Þótt Scarlett Johansson hafi sjaldan verið betri en í hlutverki móður Jojo Rabbit játar Þórarinn sig sigraðan og lýsir ásamt Kolbrúnu Lauru Dern sigurvegara í flokki bestu aukaleikkonunnar.

Besti leikari í aukahlutverki

Tom Hanks A Beautiful Day in the Neighbourhood

Anthony Hopkins The Two Popes

Al Pacino The Irishman

Joe Pesci The Irishman

Brad Pitt Once Upon a Time… in Hollywood

Kolbrún: Brad Pitt stelur senunni á einstaklega sjarmerandi hátt í Once Upon a Time... og á skilið að vinna.

Þórarinn: Æ, andskotinn hafi það. Ætli ég neyðist ekki til þess að vera sammála þér hérna líka um leið og ég viðurkenni að sennilega er Pitt bara bestur af þessum tilnefndu. Mér er þetta þvert um geð. Ást mín á Angelinu og ýmsilegt annað hefur nefnilega orðið til þess að ég þoli ekki og hef aldrei þolað manninn. En hann er ofboðslega kúl og góður í þessari mynd.

Martin Scorsese gerir út hvorki meira né minna en tvo roskna mafíósa á eftir óskarsverðlaununum fyrir besta aukaleikarann en þótt Joe Pesci hafi flest með sér að þessu sinni er tími Brad Pitt kominn.