Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Útsendingu eftir Lee Hall á morgun, föstudaginn 21. febrúar. Leikritið, sem er byggt á frægri kvikmynd, er í leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar, en einvalalið leikara fer með helstu hlutverk og má þar nefna Pálma Gestsson, Þröst Leó Gunnarsson, Birgittu Birgisdóttur, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Atla Rafn Sigurðsson, Arnar Jónsson og Sigurð Sigurjónsson.

Egill Eðvarðsson, einn reyndasti sjónvarpsmaður landsins, er leikmyndahönnuður verksins, en Egill er ekki alls ókunnur leikhúsinu þótt þetta sé fyrsta leikmyndaverkefni hans fyrir Þjóðleikhúsið. Árið 1990 leikstýrði hann vinsælli sýningu, Örfá sæti laus, fyrir leikhúsið og hefur í gegnum starf sitt hjá RÚV tekið upp fjölda leiksýninga fyrir sjónvarp, meðal annars stjórnaði hann fyrstu beinu sjónvarpsútsendingunni af leiksviði árið 1997, leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar ,Þrek og tár, og síðar Englum alheimsins.

„Þetta er búinn að vera ótrúlega skemmtilegur tími og verkefnið krefjandi. Starfsmenn leikhússins eru klassafólk, sem undir handleiðslu frábærs leikstjóra lætur manni finnast að það sem maður hefur fram að færa sé á stundum bara ágætlega heppnað,“ segir hann.

Frábær túlkun Pálma

Útsending byggir á kvikmyndinni Network frá árinu 1976. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá, að Howard Beale, fréttalesara hjá bandarískri sjónvarpskeðju, er sagt upp störfum eftir 25 ára starf vegna lélegs áhorfs. Í framhaldi af því tilkynnir hann áhorfendum sínum að eftir viku muni hann svipta sig lífi í beinni útsendingu, en um leið rjúka áhorfstölur upp. Beale er beðinn um að vera áfram á skjánum og fer þá að tjá sig um alls kyns þjóðfélagsmál, hræsni og blekkingar yfirvalda og hvetur um leið almenning til að rísa upp og mótmæla öllu óréttlæti. Paddy Chayefsky skrifaði handritið að myndinni og Sidney Lumet leikstýrði. Í aðalhlutverkum voru Peter Finch, Fay Dunaway og William Holden. Myndin vann til fernra Óskarsverðlauna, þar á meðal fyrir handrit, og Finch og Dunaway voru svo verðlaunuð fyrir bestan leik í karl- og kvenhlutverkum. „Þetta er klassamynd,“ segir Egill. „Það að verkið hafi á sínum tíma verið skrifað sem ýkt satíra en sé nú tæpum 50 árum síðar raunveruleikinn sjálfur, er nánast óraunverulegt.“

Sýning Breska þjóðleikhússins á verkinu, sem var á fjölunum í London 2017-2018 og í New York 2018-2019, var tilnefnd til fjölda verðlauna og leikarinn góðkunni Bryan Cranston hlaut alls fimm virt leiklistarverðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu. „Ég rétt missti af því að sjá þessa sýningu þegar við hjónin vorum á ferð í New York síðastliðið vor. Tveimur dögum eftir heimkomu hringdi Ari Matt, þáverandi leikhússtjóri, í mig og bað mig um að taka að mér leikmyndahönnun í sýningunni, en stuttu síðar lauk sýningum verksins fyrir vestan. Ég hefði gefið mikið fyrir að sjá Cranston í þessu hlutverki, en læt mér duga Pálma, sem ég held reyndar að vinni verðskuldaðan leiksigur með frábærri túlkun sinni á Howard. Já, Pálmi verður eftirminnilegur öllum þeim sem sjá hann í þessu brjálaða hlutverki.“

Útsending gerist að stórum hluta í upptökuveri sjónvarpsstöðvar, en þar ætti Egill að vera öllum hnútum kunnur eftir nær 50 ár í starfi upptökustjóra í sjónvarpi, en auk þess koma við sögu ýmis leikrými sem hann leysir á haganlegan hátt. „Við Gói ákváðum strax að láta tímabilið ekki takmarka okkur, það er að segja árin 1975-1976, heldur tileinka okkur það sem þar á við, einmitt af því að verkið höfðar sömuleiðis til okkar tíma. Við leyfum frjálslegri útlitstúlkun að ráða ferð. Við erum engan veginn að búa hér heimildarmynd eða heimildarsýningu,“ segir Egill.

Þjóðskáldið frá Fagraskógi

En aftur að leikhúsinu. Og er þar eitthvað, sem Egill minnist umfram annað í áranna rás.

„Já, heldur betur, ein fyrsta minning mín úr leikhúsi og hvað eftirminnilegust, er þegar ég líklega níu eða tíu ára gamall fór með pabba niður í Samkomuhús á Akureyri, en pabbi var nokkurs konar hirðljósmyndari Leikfélags Akureyrar í áratugi og tók ljósmyndir af öllum sýningum félagsins. Á meðan ljósmyndataka fór fram á sviði var ég eitthvað að sniglast baka til, þegar ég rataði allt í einu inn á förðunaraðstöðu leikara, þar sem mér brá heldur betur í brún við að sjá feita og slímuga rottu skjótast hjá og augnabliki síðar sjálfan andskotann stökkva fram úr fylgsni í áttina að mér, ógnandi með grettum, geiflum og tilheyrandi fnæsi. Ég hljóp lafhræddur inn í sal, reyndar óvart inn á svið og lenti þá skemmtilega inn á mynd pabba af Lykla-Pétri og öllu hans heilaga slekti fyrir framan aðganginn að himnaríki. Þarna var sem sagt verið að æfa Gullna hliðið eftir Davíð og „óvinurinn“, sem Árni Jónsson, síðar amtsbókavörður á Akureyri, lék, var sá hinn ógnvekjandi baksviðs. Engin feit rotta var þarna á ferðinni heldur hafði Árni leikið sér að því að hræða mig með því að sveifla loðnu skotti djöfulsins við fætur mér.

Ég átti mörgum sinnum eftir að upplifa þessa hræðslustund þegar góður vinur pabba kom í heimsókn heim í Möðruvallastrætið og þá alltaf góðglaður. Þar sem þetta var stakt bindindisheimili, nema á miðvikudögum, hleypti mamma þessum allt of stóra og mikilúðlega manni á þykkum svörtum frakka ekki lengra inn en í forstofuna þar sem þeir pabbi töluðust við. Gesturinn fór með alls kyns stóryrði í bundnu máli um illfygli, vætti, vofur og drauga og talaði hátt og hrópaði: „Draugar og vofur dönsuðu um pallinn og drápu þar hesta við stallinn.“

Já, sjálft þjóðskáldið frá Fagraskógi fór þar með heilu prólógana á litlum snjáðum eldhúskolli og fékk í mesta lagi eitt eða tvö staup af Grahams-sherry fyrir gjörninginn af áfengisbirgðum sem tilheyrðu vikulegum bridgeklúbbi mömmu á miðvikudögum.“

En nú er það sem sagt Útsending á föstudaginn og Egill ábyrgur fyrir útliti sýningarinnar.

„Eins og í vel flestum skapandi verkefnum er þetta sem fyrr sannarlega ekki neinn sólódans,“ segir Egill. „Ég er í góðum hópi fyrsta flokks fagfólks. Auk smiða og málara er förðunardeildin í essinu sínu, Halli á ljósum, Helga Stefáns með búninga, Bjössi vinur minn Helga ábyrgur fyrir allri tæknihönnun, Stulli tæknistjóri og Ólöf Erla með grafíkina. Þetta er mikið ball og vonandi hefur okkur tekist að búa til kröftuga sýningu undir dyggri stjórn þess hressandi góða drengs, Góa.“