Nýjasta þáttinn af banda­rísku raun­veru­leika­þátta­seríunni Bachelor er hvergi að finna í Sjón­varpi Símans. Þær skýringar gefnar á skjám lands­manna að tafir hafi orðið á þættinum. Allajafna dettur inn nýr þáttur á þriðjudögum, sama dag og þátturinn er sýndur í línulegri dagskrá.

Þættirnir hafa um ára­bil verið meðal vin­sælustu þátta í sjón­varpi Símans, sem áður hét Skjár-einn. Þar kynnist eld­heitur pipar­sveinn fram­bæri­legum gyðjum og þátta­röðin löngu orðin heims­fræg fyrir sér­staka rósa­af­hendingar­at­höfn sem fram fer í lok hvers þáttar.

Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans, segir í samtali við Fréttablaðið að þátturinn sé væntanlegur í loftið í dag. Símanum bárust upp­lýsingar frá fram­leiðslu­fyrir­tækinu Warner um að það væri vegna tækni­legra örðug­leika við vinnslu þáttarins. Um er að ræða sérstakan tvöfaldan þátt.

Þá kemur fram á Face­book síðu Símans að enginn þurfi að örvænta, það sé væntan­legur auka­þáttur síðar í vikunni en von er á honum í Sjón­varp Símans Premium á morgun.