Rithöfundurinn og leiðsögumaðurinn Þórarinn Leifsson, eða Tóti Leifs, segist vera í geggjuðu stuði nú þegar jólabókaflóðið nálgast hámarkið og alls ekki á bömmer í miðjum desember eins og hann hafði sjálfur spáð í nóvemberbyrjun.

Bókin hans, Út að drepa túrista, gengur vel og hann er á leið í túr um Suðvesturland með mexíkósku pari.

Þann 3. nóvember hafði Tóti, sem þá var í óðaönn að kynna Út að drepa túrista, þetta að segja við Fréttablaðið: „Æ, þú veist hvernig þetta er, þetta er upp og niður, upp og niður. Hringdu í mig í desember, þá vill enginn tala við mig. Þú getur sett upp svona dálk, fyrir og eftir, ógeðslega glaður 1. nóvember og á algjörum bömmer 15. desember! Það væri brilljant.“

Nú er svo komið að því og þegar Tóti er spurður hvernig hann sé núna svarar hann: „Nei, ég er svo reyndar alls ekki á neinum bömmer,“ segir rithöfundurinn sem var nýkominn úr ræktinni og sjóbaði.

„Ég kláraði jólabókaflóðið fyrir mánuði síðan held ég. Núna er ég alltaf að gæda og þegar ég gæda þá gleymi ég þessu og einbeiti mér bara að hverjum hóp. Allan desember tek ég til dæmis á spænsku.“

Hann segir að þetta sé töluvert betra en hefðbundinn kvíði rithöfunda í desember. „Þetta er betra því hitt er sálfræðilega erfitt og þá upplifa 99 prósent af höfundunum sig sem lúsera, þótt þeir séu það ekki og búnir að gefa út flottar bækur og svo eru bara svona fjórir sem Jakob Bjarnar skrifar um og öllum hinum líður illa,“ segir Tóti hlæjandi.

Út að drepa túrista hlaut nýlega tilnefningu til Blóðdropans, verðlauna Hins íslenska glæpafélags. „Það var sálfræðilegt búst og mér fannst ég vera alveg on it, svo það er næsta missjón, að reyna að selja til útlanda. Næsta gulrót!“