Ég er engin tískuprinsessa. Mamma var norskur kjólameistari og gætti þess að við systurnar værum ávallt fínar til fara. Ég elska þó að klæða mig upp á, en fer líka alveg ómáluð á joggingbuxunum í Hagkaup,“ segir Kristín sem var sautján ára skrifstofumær þegar flugfreyjan Brynja Nordquist bauð henni að vera forsíðustúlka Nýs Lífs árið 1978.

Við tók ævintýralegur tími hjá umboðsskrifstofunni Módel ’79.

„Í þá tíð voru tískusýningar um hverja helgi í Hollywood og maður gerði í raun ekkert annað. Við æfðum á fimmtudögum, mátuðum föt á föstudögum, sýndum á laugardögum og sunnudögum og skiluðum fötunum sjálf á mánudagsmorgni. Helstu tískuverslanir kepptust við að sýna nýjustu tískuna í Hollywood og var bið í að komast þar að með tískuvarninginn hjá Módel ’79,“ segir Kristín um stórskemmtilega tíma enda voru tískusýningar hennar uppáhald.

„Íslenski lopinn var óhemju vinsæll og mikið um myndatökur og tískusýningar heima og í útlöndum. Ég sat meðal annars fyrir hjá bandarískum aðila sem seldi íslenskar ullarvörur með engri annarri en áströlsku ofurfyrirsætunni Elle Macpherson, sem þá var að hefja ferilinn. Við sátum fyrir þrjár; Elle, stúlka sem var andlit Ralph Lauren það árið, og svo Kristín litla frá Íslandi sem kunni ekki neitt!“ segir Kristín og brosir að minningunni.

Hún segist hafa verið gapandi fyrir fegurð Elle Macpherson, og frá henni hafi stafað fallegur persónuleiki og hlýja. „Fegurð er afstæð en mér finnst hún alltaf koma innan frá. Það dugar skammt að vera í fallegri pakkningu þegar innihald manneskjunnar er ekki eins fagurt.“

Diskótímabilið og árin með Módel ’79 hafi verið yndisleg.

„Þetta var svolítið glamúrlíf og þegar við loks gátum farið á ball í Hollywood fengum við að fara fram fyrir röðina, enda áttum við nú eiginlega heima þar. Við vorum eins og fjölskylda; æfðum, sýndum og eyddum tímunum saman á skemmtistöðunum, og ég var meira með þeim en fjölskyldu minni. Á milli okkar myndaðist sannur og góður vinskapur sem mun endast fram á grafarbakkann.“

Kristín lenti í öðru sæti í Fegurðarsamkeppni Íslands árið 1983 en þá varð Unnur Steinsson ungfrú Ísland.

„Ég tók aðallega þátt vegna þess að við fengum utanlandsferð í vinning, og þótt ég hafi lifað og hrærst í fyrirsætu- og fegurðarbransanum áttu íþróttir hug minn allan. Ég stundaði skíði út í eitt og safnaði peningum til að kaupa nýjustu skíðagræjurnar á meðan aðrir keyptu sér Levi’s-gallabuxur. Bransinn breytti mér ekkert en lífið varð ofsalega skemmtilegt. Maður skoraði á sjálfan sig, kynntist frábæru fólki og þetta var góð lífsreynsla.“

Var á sjó og ók hundasjúkrabíl

Móðir Kristínar, Liv Synnøve Eriksen Þorsteinsson, var norsk og kenndi meðal annars listdans á skautum.

„Norski hlutinn í mér er mjög sterkur. Ég hef alltaf verið tvítyngd og var öll sumur á æskuárunum í Noregi. Fjölskyldan átti stórt hús í bænum Ås við Óslóarfjörð og þar átti ég ömmu og afa og yndislega fjölskyldu,“ segir Kristín, sem vann öll sumur í Noregi þegar hún eltist.

„Ég hef alltaf verið óskaplega ævintýragjörn. Ég er góður kokkur og réð mig um tíma á togara, sem mér fannst æðislegt og hef gert oftar en einu sinni. Á sjónum fékk ég ómælda virðingu fyrir sjómönnum. Sjálf er ég sjósterk og líður aldrei betur en í mikilli brælu og veltingi. Ég prófaði líka að vinna í löndun og mætti þá á höfnina klukkan fimm að morgni en entist ekki lengi því ég var með lítið barn,“ segir Kristín sem starfaði sem bílstjóri á hundasjúkrabíl í New York þegar hún var 27 ára.

„Þá þvældist ég ein um á nóttunni og sótti veika eða dauða hunda. Það var oft mikil áskorun og þegar ég villtist í næturmyrkrinu fór stundum um mig. Það þýðir hins vegar ekkert að fara hrædd í gegnum lífið og ég er eilíflega þakklát fyrir alla reynsluna. Líf mitt hefur verið meiriháttar og boðið upp á allan skalann; gleði og ótta, og ég sit uppi með lærdóm af öllu saman.“

Lærði að elska sjálfa sig

Kristín iðkar nú og kennir Ropeyoga í Ropeyoga Setrinu.

„Ropeyoga er alhliða heilsurækt sem sinnir huga og holdi. Það kennir manni að lifa í lifandi vitund, anda með vitund og elska sjálfan sig. Að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða í stað þess að refsa sér fyrir það, eins og svo margir eru duglegir að gera,“ útskýrir Kristín.

„Jógað breytti öllum viðhorfum mínum til lífsins og líka viðhorfi mínu til sjálfrar mín. Það er tvennt ólíkt að lifa í ótta og neikvæðni og að lifa í vitund og vera til staðar fyrir sjálfan sig. Lífið fór strax að batna og blómstra þegar ég tók ábyrgð á sjálfri mér og fór að hlusta hvernig ég talaði við sjálfa mig.“

Ropeyoga byggir á styrkingu djúpkviðarins og styrkir allan líkamann. Fætur liggja slakir í reipum og öll hreyfing er unnin frá miðjunni.

„Þegar maður byrjar í Ropeyoga fær maður harðsperrur á stöðum þar sem maður vissi ekki að væru vöðvar. Þessi heilsurækt virkar ekki síður fyrir hugann, sem flestir þurfa að laga, ef þeir vilja,“ segir Kristín um jógað sem notast við sjávarfallaöndun sem kemur blóðrásinni í gang, virkjar sogæðakerfið, minnkar bólgur og veitir mikla vellíðan.

Dregur andann í hamingju

Þótt fjörutíu ár séu liðin síðan Kristín var forsíðustúlka Nýs Lífs situr hún enn fyrir og þessa dagana má sjá hana í auglýsingum fyrir tískuverslunina Cosmo.

„Úti um allan heim sitja eldri fyrirsætur fyrir og þótt þær séu komnar yfir fimmtugt eru þær ekki gerðar brottrækar,“ segir Kristín og er ánægð með þróun fyrirsætubransans. „Það er gott að finna hvernig áherslurnar breytast. Sjálf hef ég alltaf verið afar grönn og þurft að berjast fyrir því að halda á mér fitu. Þegar mér var boðinn samningur í hátískuhópi í New York var mér skipað að létta mig um fimm kíló. Ég spurði hvar í ósköpunum ég ætti að ná þeim af mér og afþakkaði samninginn. Sem betur fer er þetta að breytast og nú má sjá meiriháttar flottar fyrirsætur í yfirstærð, sem mér finnst æði. Þannig á tískuheimurinn að vera og endurspegla konur í allri sinni dýrð. Ég veit þó að fyrirsætuheimurinn er enn víða hræðilegur, en á Íslandi var hann saklausari og ég kynntist aldrei nokkurn tímann neinu misjöfnu.“

Kristín æfði lengi ballett, dansaði líka á skautum, stundaði skíði og var mikið í ræktinni.

„Ég fæddist grönn og hef aldrei þurft að spá í línurnar. Í dag nota ég hvorki áfengi né tóbak og hugsa mikið um hvað ég læt ofan í mig. Ég elda allt frá grunni og forðast sykur, ger og hvítt hveiti. Ég er þó alls ekki heilög í þessum efnum en áttatíu prósent af því sem ég næri mig með er holl fæða. Ég fæ mér sko líka ís og súkkulaði en ég geri það með mikilli umhyggju. Því ef maður reiðist yfir því sem maður borðar fer það öfugt ofan í mann. Maður á því að njóta hvers einasta bita.“

Til að halda húðinni fagurri fer Kristín stöku sinnum í húðslípun og notar íslenska Penzim-kremið sem er framleitt úr sjávarþörungum.

„Svo heldur manni ungum og hressum að vera glaður í sinni og hugsa vel og fallega um sjálfan sig. Þá geislar maður.“

Kristín er nýorðin 57 ára og segir frábært að eldast. Hún á kærasta og þrjú uppkomin börn, tvo unga menn sem eru kokkur og bifvélavirki og átján ára dóttur sem er með hár niður á rass og lærir rennismíði.

„Ef maður heldur pakkningunni heilbrigðri er dásamlegt að eldast og hreinlega ekkert að því. Mér finnst ég reyndar enn vera 25 ára og spái aldrei í það hvað ég er gömul. Ég gæti eflaust lagst í kör 65 ára en ég sé það ekki fyrir mér því mér finnst lífið of gott til að láta það gerast. Þegar maður er loks orðin fyrirmynd fyrir sjálfan sig. Maður getur nefnilega ekki verið fyrirmynd fyrir aðra ef maður er ekki fyrirmynd fyrir sjálfan sig.“

Ropeyoga hafi verið dýrmæt gjöf.

„Nú veit ég loks hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Það er að iðka og kenna jóga og vinna með fólki. Nú dreg ég andann í hamingju. Við höfum 24 þúsund tækifæri til að draga andann á sólarhring og þá er betra að draga andann glaður og í fullri vitund en að draga andann í vanlíðan og vita ekki hvað maður á að gera við allt þetta súrefni.“