Joseph Cosmo er 32 ára framleiðandi og söngvari sem býr í Breiðholti. Joseph hefur verið lagahöfundur í næstum tvo áratugi, en hann byrjaði að gera raftónlist í byrjun ársins 2009 og hefur komið að alls kyns verkefnum.

„Nýjasta útgáfan mín var stuttskífa sem ég gaf út á Spotify undir mínu eigin nafni í byrjun maí síðastliðins og kallast „Self Love“,“ segir Joseph. „Svo má búast við annarri smáskífu frá hljómsveit minni, Seint, en það verður fimmta útgáfan frá því verkefni.“

Joseph segist ekki eiga neinar sérstakar tískufyrirmyndir, en að sterkustu áhrifin á fatastílinn hans komi frá kvikmyndum. Hann horfir aðallega eftir tískunni með því að fylgjast með öðrum tónlistarmönnum.

Áhrif frá kvikmyndum

Joseph segist vera frekar stílhreinn í klæðnaði og að hversdagslega gangi hann í heimilislegum fatnaði. „Maður skreytir sig nú ekki mikið nema þegar maður fer í bæinn, hvort sem það er þegar ég kem fram eða fer út að skemmta mér,“ segir hann.

„Ég get ekki sagt að ég eigi einhverjar sérstakar tískufyrirmyndir en ég horfi mikið á bíómyndir og ég myndi segja að sterkustu áhrifin á fatastílinn minn komi þaðan. Annars hef ég oftast bara augun opin fyrir flíkum sem fara mér vel. Þegar ég prófa föt sé ég strax hvort þau passi við mig.“

Joseph segir að hann hafi verið eitt gangandi tískuslys sem unglingur, en að það hafi að vísu verið viljandi. Síðan hafi tískuáhugi hans þroskast í gegnum árin. „Ég fór allavega mun meira að spá í fatnað eftir að ég byrjaði að taka upp tónlistarmyndbönd,“ segir hann. „Það er eins og að leika í mörgum stuttmyndum. Hvert myndband verður að spegla ákveðinn, sérstakan karakter og hver flík skiptir máli í því samhengi.“

Joseph segist aðallega horfa eftir tískunni með því að fylgjast með öðrum tónlistarmönnum. „Mér finnst það nóg til að vita hvað er í tísku,“ segir hann. „En annars er ég með mjög ákveðinn stíl, þó að ég sé alltaf opinn fyrir nýjungum ef þær passa við það sem ég er að gera hverju sinni.“

Joseph segir að hip hop-tíska virðist almennt hafa mikil áhrif á klæðnað ungra karlmanna á Íslandi. „Allir vilja vera fly, sem er gott,“ segir hann. „Það leiðir til þess að það er meira hreinlæti á mönnum.

En það er mikilvægt að dæma fólk alls ekki bara af útlitinu,“ segir Joseph. „Það er engin tíska til fyrir fallegar sálir. Auðmýkt er lykillinn. Restin er bara til gamans.“

Joseph segist hafa augun opin fyrir flíkum sem fara sér vel og að hann sjái strax hvort föt fari sér vel. Hann segir líka að það sé mikilvægt að dæma fólk alls ekki bara eftir útlitinu og það sé engin tíska til fyrir fallegar sálir. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Notaði aldrei fokdýr sólgleraugu

Joseph segist ekki eyða miklu í föt og að hann kaupi þau mjög víða. „H&M er gott fyrir ferskar buxur og boli, en jakka og annað kaupi ég bara út um allar trissur. Svo finn ég vintage-föt oftast á flóamörkuðum,“ segir hann.

„Ég myndi segja að bestu fatakaupin mín hafi verið þegar ég keypti virkilega flotta og þægilega skó sem passa við flestallt fyrir slikk, árið 2017. Verstu kaupin sem ég hef gert voru svo þegar ég keypti fokdýr sólgleraugu sem ég endaði svo með að nota aldrei,“ segir hann og hlær.

Sú flík sem Joseph hefur átt lengst er grá hettupeysa úr Dogma. „Ætli það séu ekki komin átta ár síðan ég keypti hana. En ég nota hana eingöngu á veturna þegar það er sem kaldast því hún er ekki með rennilás að framan.“

Hann á samt enga sérstaka uppáhaldsflík. „Ég get varla gert upp á milli. Það fer aðallega eftir því í hvaða skapi ég er,“ segir Joseph.