„Ég hef verið að lesa svolítið fyrir Storytel og svo kom þetta bara upp. Ég held ég hafi hent þessari hugmynd inn og það var bara stokkið á þetta,“ segir Örn Árnason sem lék Afa fyrst á Stöð 2 þegar hann var 28 ára og hefur nú, 35 árum síðar, fundið þeim gamla nýjan vettvang með Sögustund með Afa á Storytel.

Örn, sem skrifar sjálfur allan textann ofan í Afa, segir hugmyndina að baki Sögustundinni vera að segja krökkum stuttar sögur sem hægt sé að hlusta á í heilu lagi fyrir svefninn.

„Annaðhvort eru þetta tvær litlar sögur eða ein saga í tveimur hlutum. Á milli þessara tveggja sagna og á undan og eftir er alltaf fróðleiksmoli,“ segir Örn og bætir við að sem fyrr sæki Afi fróðleik sinn úr öllum áttum og kemur með dæmi.

„Fyrir hvað stendur M og M í nafni sælgætisins? Veistu það? Þetta stendur fyrir Mars og Murrie sem fundu upp nammið,“ segir Örn og hlær.

Minningar úr Hrísey

Tíu Sögustundir eru nú þegar komnar á Storytel og Örn er byrjaður að taka næstu syrpu upp og segir lagt upp með að gera fjórar þáttaraðir og þá 40 þætti í það heila.

„Fyrsta þáttaröðin er að stórum hluta íslenskar þjóðsögur sem ég hef endurskrifað svolítið og svo hef ég skrifað svona sögur frá því ég var að alast upp í Hrísey. Ég sný því svolítið upp á kallinn, eins og þetta hafi kannski gerst fyrir 70–80 árum en það eru nú samt reyndar ekki nema kannski 50, en samt nógu langt,“ segir Örn og hlær. „Þannig að þetta eru svona minningarsögur, þjóðsögur og svo einstaka ævintýri sem ég hef bara fundið hist og her.“

Örn segist jafnvel finna ævintýri á netinu sem hann þýði, endursegi og lagi að íslenskum hlustendum. „Næsta sería snýst um það sem ég kalla samskipti manna og dýra. Þar sem dýrin hjálpa mannfólkinu á einn eða annan hátt og þær sögur eru allar sannar.“

Pási litli

Örn birtist sjónvarpsáhorfendum fyrst sem Afi 1987, þegar hann var 28 ára, ári eftir að Stöð 2 hóf útsendingar. „Þetta er hressilegt,“ segir Örn, sem hefur elst með Afa síðustu 35 ár. „Þegar Afi byrjaði ´86 þá var hann með lítinn páfagauk sem hét Pási sem var feikivinsæll hjá krökkunum en honum entist nú ekki aldur til þess að fylgja mér alla leið.“

En Afi er enn að og Örn segir viðbrögðin við sögum hans á nýjum vettvangi góð. „Ég hef bara fengið jákvæð viðbrögð, sem betur fer, alveg 7-9-13. Fólk er að taka mjög vel í þetta,“ segir Örn en hann og Afi eiga óhjákvæmilega stórt og gott bakland eftir að hafa stytt börnum stundir í tæpa fjóra áratugi.

„Ég er með svolitla forgjöf og ég er svo sáttur við að ég er sko að fá áheyrendur á öllum aldri og það finnst mér gaman.“

Mun yngri Örn Árnason í hlutverki Afa á meðan hann hafið hinn dáða Pása sér til halds og trausts.
Mynd/Aðsend

Kafteinn kengúra

Þegar Örn er spurður hvort honum hafi ekkert þótt galin pæling, ekki eldri en hann var, að leika Afa á sínum tíma svarar hann ákveðið: „Nei. Alls ekki. Alls ekki,“ og upplýsir í framhaldinu að hann hafi horft til ákveðinnar fyrirmyndar úr Kanasjónvarpinu.

„Ég ólst mikið upp við það og þar var karakter sem hét Captain Kangaroo, Kafteinn kengúra, og þetta voru bara þættir sem ég var límdur yfir þannig að eðlilega kannski var ég svolítið smitaður af honum.

Gervið og tilfinningin eru kannski ekkert ósvipuð með því að hafa einhvern svona eldri en samt sem áður er þetta ekki alveg það sama og efnistökin önnur. Svo langaði mig bara að búa til svona afa. Einn sem vissi allt og þú gast leitað skjóls hjá, menningar- og tilfinningalega.“

Og þú ert væntanlega ekki í vandræðum með að detta í karakter eftir að hafa verið samferða Afa í allan þennan tíma?

„Nei, og ég hafði svo gaman af því að þegar ég var í upptökunum fyrir Afa-þættina að hann tók bara yfir, kallinn. Ég skrifaði alla þessa þætti og allt sem þar kemur fram og lét mér yfirleitt nægja að gera svona beinagrind að þættinum og ákveða svona nokkurn veginn hvað ég ætlaði að segja og svo bara þegar ég var búinn að líma á mig skeggið og kominn í gallann þá bara tók hann yfir með sínu orðalagi, nærgætni við áhorfandann og öllu saman.

Ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur og zónaði bara næstum því út á meðan hann var að vinna,“ segir Örn og hlær.