Allt stefnir í að engin bein út­sending verði frá af­hendingu Óskars­verð­launanna hér á landi en verð­launin verða veitt í 93. skipti í Los Angeles næst­komandi sunnu­dag. RÚV hefur haldið úti beinni út­sendingu frá Óskars­verð­laununum undan­farin ár en samningur þeirra um sýningar­rétt rann út ný­verið og hefur ekki verið endur­nýjaður. Skarp­héðinn Guð­munds­son, dag­skrár­stjóri RÚV, stað­festi þetta í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það er ekki samningur í gildi, þannig að eins og út­litið er núna þá stefnir í að það verði ekki sýnt frá Óskarnum. Við erum að skoða mögu­leikann á því en erum ekkert sér­stak­lega von­góð vegna þess að það þarf að gera samning til margra ára og þetta er kostnaðar­samt,“ segir Skarp­héðinn.

Nokkrar tilnefningar með Íslenska tengingu

Lík­legt er að margir Ís­lendingar muni verða fyrir von­brigðum með þessa stöðu enda er Ís­lands­tengingin við Óskars­verð­launin sér­stak­lega sterk þetta árið. Ís­lendingurinn Gísli Darri Halldórsson er til­nefndur til Óskars­verð­launa fyrir stutt­myndina Já-fólkið og lagið Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga er til­nefnt sem besta kvik­mynda­lagið. Þá verður mynd­band sem tekið var upp á Húsa­vík í vikunni þar sem sænska söng­konan Molly Sandén flytur lagið verða sýnt sem skemmti­at­riði á verð­launa­af­hendingunni.

Skarp­héðinn segir RÚV hafa verið með samning um sýningar­rétt til þriggja ára. Samningurinn rann út í ár en var ekki endur­nýjaður vegna kostnaðar.

„Það er dýrt að sýna frá Óskarnum og við vorum búin að komast að þeirri niður­stöðu að við hefðum ekki ráð á því að sýna frá Óskarnum, það væri of kostnaðar­samt. En svo náttúr­lega kemur upp þessi staða að ís­lenska tengingin er ó­venju mikil að þessu sinni þannig auð­vitað náttúr­lega er það ó­heppi­legt og við erum að skoða hvort það sé ein­hver leið að nálgast sam­komu­lag með öðrum hætti en áður. En við erum ekkert sér­stak­lega von­góð því það eru gerðar miklar kröfur,“ segir Skarp­héðinn og bætir við að samninga­nefnd Óskarsins sé hörð í horn að taka og flestar aðrar ríkis­stöðvar á Norður­löndum muni heldur ekki sýna beint frá verð­launa­af­hendingunni. Hann segir RÚV hafa fyrst og fremst farið út í að leita annarra leiða vegna Ís­lands­tengingarinnar.

„Nánast al­farið þess vegna erum við að skoða þetta, það hefur nú ekki verið mikið á­horf á Óskarinn síðustu árin og svona helstu há­punktarnir þar að auki hafa verið komnir á vef­miðla nánast morguninn eftir, eftir alls konar leiðum,“ segir Skarp­héðinn og tekur fram að jafn­vel í fyrra þegar Hildur Guðna­dóttir hlaut Óskars­verð­laun fyrst Ís­lendinga hafi á­horfið hér á landi ekki verið mikið. Hann segir RÚV vera að leita allra leiða til að reyna að koma á samningi um út­sendingu frá verð­launa­af­hendingunni og segir frétta vera að vænta frá því á næstu dögum.

Leiðrétting 22.04.2021 kl. 16:14: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að Gísli Darri væri Brynjólfsson en hann heitir réttu nafni Gísli Darri Halldórsson.