„Ákveðið var að leggja áherslu á að dagskráin á þjóðhátíðardaginn yrði fyrst og fremst fjölskylduskemmtun frá klukkan 13.00 til klukkan 18.00,“ svarar Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs Reykjavíkurborgar, spurð hvers vegna borgin bjóði ekki lengur upp á kvölddagskrá á sautjánda júní.
Að sögn Evu Bergþóru var síðast kvölddagskrá sautjánda júní 2015. Aðspurð segir hún engar breytingar á núverandi fyrirkomulagi hafa verið ræddar. „Á Menningarnótt er hins vegar boðið upp á veglega kvölddagskrá,“ bendir teymisstjórinn á.

„Að sjálfsögðu er Menningarnótt fjölskylduhátíð en hún er með öðrum blæ en þjóðhátíðardagskráin og hefur nokkra sérstöðu þar sem hún hófst sem kvöldskemmtun,“ svarar Eva Bergþóra þeirri spurningu hvort borgin líti þá ekki á Menningarhátíð sem fjölskylduhátíð fyrst þar er kvölddagskrá.
„Reykjavíkurborg er hátíðaborg sem býður upp á fjölbreytta dagskrá allt árið og fjölbreytni er einmitt lykilorðið – alls konar hátíðir sem allar hafa skapað sér sérstöðu,“ undirstrikar hún. „Þessi tímarammi er talinn henta vel fyrir skemmtidagskrá sem tekur mið af fjölskyldum á öllum aldri og hafa önnur sveitarfélög verið að feta svipaða leið á þjóðhátíðardaginn.“ Kópavogur hefur ekki verið með kvölddagskrá síðustu ár og lagt áherslu á dagskrá að degi til úti í hverfunum.