Tilnefningar til Eddunnar 2020 voru gerðar opinberar fyrr í dag en athygli vekur að Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir var ekki tilnefnd.
Líkt og áður hefur verið greint frá hefur Hildur unnið til fjölmargra verðlauna bæði fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og sjónvarpsþáttunum Chernobyl.
Í reglum íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna kemur fram að hægt sé að tilnefna Íslendinga sem unnið hafa í erlendum kvikmyndum til fagverðlauna Eddunnar. Svo fór þó ekki fyrir Hildi en mögulegt er að ekki hafi verið send inn tilnefning til verðlaunanna.
Fimm einstaklingar eru tilnefndir fyrir tónlist ársins en það eru þau Davíð Berndsen, fyrir Þorsta, Edmund Finnis, fyrir Hvítan, hvítan dag, Gísli Galdur Þorgeirsson, fyrir Pabbahelgar, Jófríður Ákadóttir, fyrir Agnesi Joy, og að lokum Kira Kira, fyrir Tryggð.
Allar tilnefningar má nálgast á vef Eddunnar en úrslitin verða kynnt á Edduhátíðinni 2020 sem fer fram í Origohöllinni föstudagskvöldið 20. mars.