Engilbert Arnar stofnaði Facebook-hópinn Costco-gleði þann 7. nóvember 2017 með, eins og nafnið bendir til, gleðina að leiðarljósi og í þeim tilgangi að auðvelda fólki að rata um ranghala verslunarrisans og finna spennandi vörur og góð tilboð.

Hópurinn hefur vaxið hratt og telur nú 33.663 manns og Engilbert segir um 100 manns sækja um inngöngu á hverjum degi. Hann hefur þetta rúma ár farið ótal ferðir í Costco, tekið myndir af nýjum vörum og tilboðum og deilt með hópnum. En nú er komið að kaflaskilum og í gærkvöld tilkynnti hann hópnum í langri og nokkuð tregablandinni færslu að hann hafi ákveðið að draga sig í hlé.

Sjá einnig: Engilbert heldur Costco gleðinni gangandi af ástríðu

„Ég ætla bara ekki að pósta fleiri myndum úr Costco,“ segir Engilbert í samtali við Fréttablaðið en segir aðspurður þreytu þó ekki vera ástæðuna. „Ég held ég myndi aldrei verða þreyttur á þessu en þetta tekur mikinn tíma frá manni. Það er nú bara heiðarlega svarið í þessu og ég á eftir að sakna þess að gera þetta,“ segir Engilbert um þessa erfiðu ákvörðun sem þó muni standa.

Sjá einnig: Káta Costco-fólkið vonar að risinn fylgist með þeim

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gefandi og gaman að hjálpa öðrum og gleðja fólk,“ segir Engilbert fullviss um að aðrir í hópnum muni halda gleðinni gangandi. „Ég hef lagt mig fram um að svara öllum færslum og skilaboðum og tengst þannig fólki í hópnum og þykir vænt um marga sem eru búnir að vera lengi í honum. Það er viss söknuður sem fylgir því að hætta en tíminn er náttúrlega það mikilvægasta sem maður á og heilsan og fjölskyldan er náttúrlega númer eitt.“

Sjá einnig: Uppnám í Costco-hópnum vegna mikilla verðhækkana

„Ég veit að fólk á eftir að halda áfram þarna að hjálpa hvort öðru og að hópurinn haldi áfram að vaxa og dafna. Ég lagið hjarta mitt og sál í þetta. Það verður bara að segjast eins og er og mér finnst best við þetta að fólk geti hlegið saman og sameinast í gleðinni.“

Samstaða og jákvæðni

„Ég bjó þetta til þess að hjálpa fólki og gleðja og þetta er vettvangur fólks til þess að hjálpast að og skiptast á gagnlegum upplýsingum. Þannig að ég get ekki farið að gera fólki það að loka bara síðunni. Það yrði allt vitlaust, “ heldur Engilbert áfram og bætir við að hann sé ekki alfarinn.

Sjá einnig: Hriplekar Kirkland-rafhlöður skyggja á Costco-gleðina

„Ég verð áfram stjórnandi síðunnar og mun halda áfram að pósta þar einhverri vitleysu sem fólk getur hlegið að en þráðurinn í þessu öllu á bara að vera jákvæðni, gleði og samstaða og ég mun hafa auga með þessu þótt myndirnar úr Costco verði ekki fleiri. Vonandi mun fólk bara halda gleðinni áfram og vonandi fer Costco bara að gefa í og mér þykir vænt um Costco og allt sem þeir hafa gert. Það er alveg klárt.“

Kvíðablandin Costco-gleði

„Þetta er búið að vera ótrúlega gefandi en ég viðurkenni alveg að ég hef hugsað út í það áður að hætta en fannst það rosalega erfitt vegna þess að mér fannst ég vera að bregðast fólki. Þetta er náttúrlega svo stór hópur, þrjátíu og eitthvað þúsund manns, og þetta var farið að valda mér kvíða sem mér fannst rosalega skrítið.

En þegar ég fór að hugsa þetta betur með sjálfum mér varð ég þakklátur fyrir að þessi kvíðahugsun hafi komið vegna þess að þá sá ég að ég er búinn að gera rosalega mikið fyrir fólkið þarna. Mér þykir vænt um að hafa gert þetta og finnst það skipta miklu máli.“

Sjá einnig: Costco-fólkið engin peð í verð­stríði Atlantsolíu

Engilbert segist vera búinn að fara tvisvar eða þrisvar í Costco það sem af er ári og óneitanlega hafi verið freistandi að halda uppteknum hætti. „Ég hef alveg séð nýjar vörur, risarúm á einhvern 90 þúsund kall og litla dós af kavíar á 8000 krónur. Mig langaði alveg rosalega mikið að taka myndir af þessu og setja inn en sagði bara við sjálfan mig að ég væri búinn að taka ákvörðun og þetta væri orðið gott,“ segir Engilbert sem þurfti ekki síst að standast kavíarinn.

Sjá einnig: Ókunnugur færði Skagakonu WC-pappír úr Costco

„Það hefði samt verið gaman að setja inn mynd af þessum kavíar vegna þess að þetta er eitthvað svo mikið 2007. Þetta er á stærð við tóbaksdollu og kostar 8000 kall. Það er magnað að sjá þetta.“

Fólk vill meira frá Ameríku

Þótt Engilbert beri enn hlýjan hug til Costco segir hann heildsölurisann geta gert mun betur við íslenska viðskiptavini sína. „Costco kom á markaðinn með látum og hafði jákvæð áhrif og aðrir lækkuðu vöruverð og svona en hins vegar finnst mér að Costco úti gæti hlustað miklu, miklu betur á viðskiptavini sína og gert Costco miklu betra í leiðinni,“ segir Engilbert og bætir við að hann hafi ítrekað fundið fyrir því að fólk vilji sjá miklu meira af vörum frá Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Óvænt Costco-gleði vegna vatnsósa nautahakks

„Þeir gera margt gott og eiga hrós skilið fyrir það, en eins og ég skil þetta ráða þeir úti hvernig þetta er gert hérna og ég held þeir skilji ekki alveg íslenska markaðinn. Kannski þurfa þeir lengri tíma til að læra inn á okkur og fólk vill amerískar vörur. Ég verð mjög mikið var við það.“