Organistinn Kristján Hrannar Pálsson spilar plötuna Discovery eftir Daft Punk á tónleikum í Laugarneskirkju á miðvikudaginn. Hann segir franskt rafpopp og orgeltónlist eiga fleira sameiginlegt en marga grunar.

Organistinn og kórstjórinn Kristján Hrannar Pálsson heldur nú á miðvikudaginn tónleika í Laugarneskirkju þar sem hann flytur hina goðsagnakenndu plötu Discovery með Daft Punk. Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Kristján útsetti plötuna fyrir orgel og svo er auðvitað ekki algengt að tónlist franska rafpoppsdúósins hljómi í kirkju. Kristján segist í raun alltaf hafa verið í tónlist, alveg frá því í barnæsku.

„Ég var í klassísku píanónámi sem barn og fór í kór í menntaskóla og sá þar fyrst spilað á orgel. Það var samt ekki fyrr en löngu seinna að ég sótti um í Tónskóla þjóðkirkjunnar og byrjaði í orgeltímum að hljóðfærið heillaði mig upp úr skónum. Fyrir græjunörd eins og mig er þetta náttúrlega hin eina sanna græja, með flesta takka og stærstu fítusana og feitasta sándið,“ segir Kristján.

Heiðrar minningu sveitarinnar

Þótt Kristján væri góður á píanó tók það hann marga mánuði að ná einhverri færni á orgelið.

„Það er af því að stór hluti af músíkinni er leikin með fótunum. Þetta er því oft meira eins og að spila á trommur,“ útskýrir Kristján.

Um aðdraganda þess að hann ákvað að útsetja plötuna fyrir orgelið segir Kristján Hrannar að hann hafi lengi langað til að halda orgeltónleika sem myndu draga að sér fólk sem fer venjulega ekki á slíka tónleika.

„Svona til að kynna hljóðfærið, því þetta er eins og með norðurljósin, það er alveg gaman að sjá þau á myndbandi en maður fattar ekki hversu magnað það er fyrr en á staðnum. Þetta er fyrst og fremst „live“-hljóðfæri. Daft Punk lagði síðan upp laupana í fyrra og þess vegna er ég hálfpartinn að heiðra minningu sveitarinnar, spila yfir moldum þessara tveggja frumkvöðla,“ segir hann.

Óaðfinnanleg fagurfræði

Orgelið er stundum kallað amma eða afi „synthans“, að sögn Kristjáns.

„Margir „synthar“ eru byggðir upp eins og orgel, þannig að skyldleikinn er til staðar. Svo er margt í franskri orgeltónlist og franskri raftónlist sem er augljóslega eins. Sígarettureykur og ákveðinn perraskapur fyrir góðu sándi og silkimjúku yfirbragði. Ég var fjórtán ára þegar Discovery kom eins og sprengja inn í mína kynslóð. Fólk vissi einhvern veginn að þessi plata yrði sígild.“

Kristján segir andlits- og nafnleysi Daft Punk líka vera svo heillandi.

„Fólk mætir á Daft-Punk tónleika og sér tvo náunga með hjálma standa á bak við altari, með ljósasýningu og reyk. Öll upplifunin er mjög mystísk og trúarleg.

Fagurfræðin bak við hljómsveitina er óaðfinnanleg, tónlistin og estetíkin blandast fullkomlega saman. Ekki ósvipað því sem gerist á tónleikum í kirkju, þar sem tónlistin og umgjörðin mynda eina heild. Fólk mun lítið sjá mig á sjálfum tónleikunum, ég verð bara uppi á svölum bak við orgelið,“ segir Kristján.

Hann segir það ekki hafa verið jafn flókið að útsetja plötuna og hann upphaflega hélt.

„Ég er að vísu þaulvanur að pikka upp lög á ýmis hljóðfæri, þannig að það hjálpaði mikið, og hef oft áður útsett lög fyrir orgel sem hafa aldrei verið leikin á það hljóðfæri áður. En sum lögin er svo skemmtilegt að klæða í nýjan búning, vísa bara í þau undir rós, þannig að fólk sem þekkir þau skilur vísunina, en að öðru leyti nær það ekkert lengra.“

Nánast uppselt

Hann segir það í raun ekki ósvipað því sem organistar hafa gert í mörg hundruð ár.

„Sem sagt að spila forleik fyrir sálma sem eru oft svo ólíkir upprunalegu lagboðunum að bara þau sem vel þekkja, skilja tilvísunina. Þetta er mjög gömul hefð. Sum lögin tóku þó mun lengri tíma, en þetta er samt sem áður eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér.“

Fólk getur átt von á miklu stuði en aðeins öðruvísi keyrslu en á raftónleikum.

„Ég trúði því ekki hvað miðarnir seldust hratt þegar ég kynnti tónleikana í upphafi, það var miklu meiri stemning fyrir þessu en ég hafði haldið.“

Miða er hægt að fá á tix.is, það er nánast uppselt á tónleikana þannig að það fer hver að verða síðastur.