Ég man hvað mér þótti Brussel, og Belgía almennt, undarlegt menningarsamfélag þegar ég var þar fyrst á ferð snemma á níunda áratugnum. Með því fyrsta sem ég skynjaði var innbyrðis ósamkomulag íbúanna í þessu tiltölulega litla landi. Héruð voru (og eru) ýmist frönskumælandi/kaþólsk eða flæmskumælandi/mótmælendatrúar, og í sjálfri höfuðborginni voru hverfi jafn kirfilega aðgreind og í Belfast, nánast ófær um að vinna saman. Og nú hafa hverfi múslima bæst í þennan suðupott. Í einu hverfi gat að líta eins konar minnismerki um belgíska sundurlyndisfjandann, endanlega ókláraða hraðbraut í lausu lofti; þar höfðu annaðhvort kaþólikkar eða mótmælendur neitað að samþykkja áframhald hennar. Gestur frá Íslandi hafði sterklega á tilfinningunni að hann væri staddur í langvarandi samfélagslegri og menningarlegri óvissu, þar sem öll viðmið væru í lausu lofti.

Eitt var þó jákvætt við þennan innbyrðis núning mótsagna og óvissuþátta í landinu, nefnilega sú frjóa listsköpun sem hann virtist geta af sér. Á 19. og 20. öld er belgísk myndlist óvenjuleg í evrópsku samhengi. Myndlistarmennirnir virðast aldrei sætta sig við það sem við þeim blasir, heldur finni þeir sífellt hjá sér hvöt til að brjóta það til mergjar, skyggnast á bak við það, grafa undan því eða afbyggja það. Raunar á þetta ekki einvörðugu við belgíska myndlist á síðari tímum; stundum gleymist að sjálfur Bosch var Belgíumaður. Ekki að furða þótt súrrealisminn hafi átt sér sterkt bakland í Belgíu, sjá arfleifð þeirra Delvaux, Magritte og Mesens. Það er við hæfi að helsta listasafn Brussel skuli vera byggt eins og sex hæða strompur, ekki upp á við heldur niður í jörðina.

Helsta framlag myndlistarmanna Belga til framsækinnar myndlistar á þessari öld, allt frá Magritte til Broodthaers og Vercrysse, er sennilega atlaga þeirra að meingölluðu sambandi tungumáls, hluta og myndlistar. Við það er eins og þetta þrennt brotni niður í frumeiningar sínar og myndlistarvæðist á eigin forsendum. Sérstaklega á þetta við um innviði tungumálsins, þar sem bæði ásýnd og margræði orðanna öðlast ámóta mikilvægi í myndlistarsamhenginu eins og form, litir og bygging. Og pappírinn, hinn upprunalegi vettvangur orðsins, tekur við af striganum sem kjörlendi myndlistarmannsins.

Eitthvað er líka eitthvað annað

Hér er leitast við að draga upp lýsingu á baksviði Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur myndlistarmanns, hverra verk eru nú til sýningar og umfjöllunar að Kjarvalsstöðum fram yfir næstu áramót. Þótt Guðný hafi verið hér oft á ferðinni á liðnum árum, fer ekki á milli mála að myndlistarmenningin í Belgíu, þar sem hún hefur verið búsett frá 1994, hefur sett sterkara mark á listsköpun hennar en flest annað. Og raunar er fátt sem tengir Guðnýju beinlínis við hérlendan sjónmenntavettvang, nema ef nefna skyldi saumaskapinn í verkum hennar og ísmeygilega kaldhæðnina, sem stöku sinnum brýst fram í íslenskuskotum hennar.

Yfirbragð sýningarinnar á Kjarvalsstöðum gefur okkur vísbendingu um hvernig við eigum að nálgast verk listakonunnar. Sýningarsalurinn er útlits eins og hvítmáluð og dauðhreinsuð rannsóknarstofa, með „gröf“, „greinargerðir“ og “áfangaskýrslur“ á veggjum allt um kring, og „niðurstöður“ endanlega ólokinna rannsókna í glerskápum (vitrines) úti á miðju gólfi. Með því fyrsta sem áhorfandinn tekur eftir er að þótt þessar rannsóknir spanni heillangt tímabil, er ekki neins konar „þróun“ í venjulegum skilningi að finna í verkunum á sýningunni; nánast eins og listakonan hafi stokkið alsköpuð úr höfði Seifs, eins og gyðjan forðum daga. Frá upphafi eru öll verk hennar samtengd, hluti af sömu samfellunni, sem liðast áfram í tímans rás,bæði eins og síbreytileg. Eitthvað getur alltaf snúist upp í eitthvað annað, eins og er áréttað í manífesti Bretons um súrrealíska myndlist frá 1924.

Nánast allt þetta rannsóknarferli Guðnýjar á sér stað á eða í kringum pappír af einhverju tagi: teiknipappír, kalkipappír, smjörpappír, pappa, veggfóður, dagblaðapappír, rifrildi úr tímaritum, umbúðapappír, post-it nótur, jafnvel gömul sendibréf, efni sem listakonan tínir upp af förnum vegi eins og sannur „hirðingi“ (bricolagiste). Ekkert pappírssnifsi er svo ómerkilegt að ekki megi tengja á milli þess og annarra smámuna úr nærumhverfi listakonunnar. Þótt pappírinn sé vettvangurinn, er hann einnig hluti af heildarmerkingu verkanna. Listakonan leikur sér með ýmsa eiginleika hans, til dæmis þykkt, áferð og gegnsæi, þau ummerki tímans sem hann ber með sér, jafnvel fjarveru hans.

Á sýningu Guðnýjar er okkur boðið til stefnumóts, segir Aðalsteinn.

Í hlutverki græðarans

Pappírinn kallar á línuspil, eins konar teikniferðalög án fyrirheits. Línan, eitt helsta verkfæri Guðnýjar Rósu, er óendanlega þjál, ýmist umlykjandi eða aðgreinandi, ruglingsleg eða bjöguð, þaulskipulega rúðustrikuð eða lífræn eins og taugavefur mannsins. Og þessi lína tekur stakkaskiptum, breytist í þræði og yfirvegaðan saumaskap, sem í sameiningu mynda orð –textíll verður texti – og orðin veita okkur innsýn í tilfinningalíf listakonunnar. Hún kveður hvergi fast að, heldur hefur uppi hálfkveðnar vísur á þremur tungumálum, opinberar okkur hik, óvissu og ákveðið varnarleysi gagnvart umhverfi sínu, býður okkur jafnvel að eiga við sig orðastað, skrifa svör okkar inn í tómar talbúbblur í myndunum.

Rannsóknir Guðnýjar Rósu fara fram á vettvangi sem er umfram allt lífrænn. Þar vinnur hún innan um form sem kalla upp í hugann frumur, vefi, æxli, þarmaflóru, líffæri og lífheim plantna, lagfærir það sem hefur „aflagast“, flysjar það sem vaxið hefur úr sér, ýmist með skurðhnífi, blýanti, saumi, heftara eða tippexi. Öðrum þræði er hún því í hlutverki græðarans. Og ef grannt er skoðað felur þetta myndmál allt einnig í sér vísan í makró-heiminn, himinvíddirnar og útbrunnar stjörnur í ógnvekjandi tímaleysi.

Þótt stuttir textar Guðnýjar Rósu séu iðulega á mörkum hins persónulega, er erfitt að segja nákvæmlega til um hvaða erindi hún á við okkur. Kannski er hún fyrst og fremst að bjóða okkur til þátttöku í yfirgengilega frjóu sköpunarferli. Í vandaðri sýningarskrá er vitnað í bandaríska rithöfundinn Siri Hustvedt, sem segir að vel heppnað listaverk virki stefnumót verks og áhorfanda, og að listaverkið spretti einungis fram á svæðinu milli þeirra. Á sýningu Guðnýjar er okkur boðið til stefnumóts sem við ættum ekki að láta fram hjá okkur fara.