Ég er upphaflega grunnskólakennari með áherslu á stærðfræði og starfaði sem slíkur á Akureyri þegar ég fann löngun til að bæta við mig þekkingu í viðskiptafræði, sem ég og gerði í Háskólanum á Akureyri. Ég fann að viðskiptageirinn átti vel við mig og fékk fljótlega vinnu innan hans sem jók enn á áhuga minn og úr varð að ég fór í meistaranámið og þaðan í löggildingarprófin,“ segir Björn Óli Guðmundsson, löggiltur endurskoðandi og stjórnandi hjá endurskoðendafyrirtækinu Enor.

Björn Óli fékk löggildingu sem endurskoðandi árið 2014 eftir að hafa útskrifast úr meistaranámi sem þykir eitt hið mest krefjandi við Háskóla Íslands.

„Nám hefur alltaf legið vel fyrir mér og ég hafði auðvitað tekið marga stærðfræðiáfanga í gegnum tíðina, en þetta tók alveg á og maður þurfti að leggja sig fram. Ég bjó vel að því að vinna í faginu á sama tíma, að hafa aðgang að starfsfólki og þekkingu, og sjá hvernig námið nýttist í starfi,“ segir Björn Óli.

Erfiðast í náminu þóttu honum áfangar sem reyna hvað mest á þekkingu í tengslum við starfið, til dæmis tengda reikningsskilum og endurskoðun.

„Það gat einnig verið strembið að fara í gegnum flókna fjármála- og skattatengda kúrsa en það er auðvitað mikill kostur ef manni þykir þetta allt áhugavert og líka að hafa þessa sýn hinum megin frá, úr starfinu. Námið er líka góður undirbúningur fyrir viðskiptalífið almennt, það er afar fjölbreytt og gagnlegt.“

Björn Óli fékk sérstaka viðurkenningu fyrir námsárangur og varð efstur í meistaranáminu.

„Ég sinnti náminu að jafnaði vel en hafði þá líka í huga að ætla í löggildingarprófin strax eftir meistaranámið og leit á námið sem undirbúning fyrir þau. Ég hafði því ekki bara metnað til að fá sem hæstar einkunnir, þótt það væri vissulega skemmtilegt. Ég var líka heppinn að lenda í góðum hópi nemenda sem var duglegur að hittast og læra saman og allt var það til góðs í náminu.“

Kennaranámið gagnast vel

Enor sérhæfir sig á sviði endurskoðunar, reikningshalds og skatta og vinnur fyrir einstaklinga jafnt sem minni og stærri fyrirtæki.

„Sem löggiltur endurskoðandi stýri ég verkefnum og hópi fólks og stór hluti starfsins felst í mannlegum samskiptum, bæði gagnvart þeim sem maður vinnur með en líka tengslum við viðskiptavini. Þar er maður í miklum samskiptum við stjórnendur og ekki síst starfsmenn fjármáladeilda fyrirtækja. Starfið er fjölbreytt og krefst yfirgripsmikillar þekkingar á öllum sviðum fyrirtækjareksturs, maður þarf að átta sig á hvernig rekstur tengist tölunum og hvaða hlutverki fólk gegnir í tengslum við það,“ upplýsir Björn Óli.

Hann segir kennaramenntunina gagnast sér vel í vinnunni sem endurskoðanda.

„Í kennaranáminu er lögð áhersla á samskipti og að koma fram fyrir framan fólk, að einstaklingar eru mismunandi og því mikilvægt að læra ólíkar aðferðir við að koma efni á framfæri með þeim hætti að fólk skilji það. Sú þekking gagnast vel, bæði í vinnu með samstarfsfólki sem og viðskiptavinum á fundum þar sem fara þarf yfir skjöl eða niðurstöður verkefna, en í grunninn þarf maður að hafa trausta og yfirgripsmikla þekkingu á faginu og eftir því sem maður stýrir stærri einingum og verkefnum þarf enn meiri þekkingu.“

Björn Óli bætir við að á öllum sviðum mannlífsins gildi að eiga í góðum samskiptum.

„Margir leita til endurskoðenda þegar þeir glíma við vandamál tengd rekstri en aðstæður og erfiðleikar eru þó oft ólík. Þá hjálpar að geta brugðist við með mismunandi aðferðum og lausnum sem henta hverju máli fyrir sig og getur það stundum létt á áhyggjum fólks þegar farið er yfir málin með því og það sér betur hvað þarf að gera til að leysa úr þeim. Það finnst mér mjög ánægjulegt og eitt það skemmtilegasta við starfið, það snýst ekki endilega um að gera hlutina fyrir fólk heldur líka að hjálpa því að vinna úr hlutunum sjálft.“

Með fram störfum sínum hjá Enor heldur Björn Óli fyrirlestra fyrir meistaranema í endurskoðun og reikningshaldi við HÍ.

„Ég hef tekið hluta úr námskeiðum í endurskoðendatengdum fögum og komið inn með fyrirlestra og verkefni. Ég hef gaman af því og það er ekki ónýtt að geta nýtt sér sína fyrri menntun sem kennari við þau tækifæri. Vonandi hafa nemendur gagn af því.“

Litríkir einstaklingar

Í hugum margra er erkitýpan af endurskoðendum litlausir einstaklingar sem vinna með tölur á bak við tölvuskjái.

„Það er mikill misskilningur og pínu þekkingarleysi á starfinu þegar menn hafa af því ákveðna forskrift. Endurskoðendur eru upp til hópa hið hressasta fólk og starfið mun mannlegra en margir halda. Vissulega eiga endurskoðendur sameiginlegt að hafa áhuga, hæfni og þekkingu á að vinna með tölur. Því sækja þeir í fagið umfram aðra, hvort sem það er vegna þess að aðrir vanmeta eigin getu eða telja sér trú um að ná ekki tökum á stærðfræði, sem er algengt. Fyrir mitt leyti er best að fá sem fjölbreyttasta flóru fólks í endurskoðun, þannig einstaklingar bæta hverjir aðra upp, en inni á milli finnum við líka þennan dæmigerða endurskoðanda sem líður best fyrir framan tölvuna og er eldklár í Excel.“

Björn Óli segir alltaf þörf á góðu fólki í hóp endurskoðenda.

„Nú þarf meistaranám til að fá að þreyta löggildingarprófin og þau eru vissulega mikil áskorun, en fyrir mitt leyti tel ég að fólk sem einsetur sér að klára þau geti það. Allt snýst það um tíma og vinnu en eins og með alla erfiðu hjallana getur dagsform og fleira sett strik í reikninginn frekar en að menn geti þetta ekki. Námið er á pari við margt annað nám en löggildingarprófin, sem haldin eru af ráðuneytinu, eru þekkt fyrir að vera krefjandi og snúin. Því er maður auðvitað gríðarlega ánægður og heppinn að hafa komist í gegn um þau í fyrstu atrennu og náð löggildingu, það á við um alla umbun eftir erfiðisvinnu. Hins vegar er ekkert að því að reyna aftur, eins og margir gera. Undirbúningurinn er þó langur og strangur og ég get skilið að það sé ákvörðun út af fyrir sig.“

Ánægður á nýjum vettvangi

Björn Óli er uppalinn í Kópavogi þar sem hann spilaði handbolta og fótbolta frá unga aldri.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og var lengst af í handbolta, spilaði meðal annars með Breiðabliki, Val, Stjörnunni og á Akureyri. Nú er það golfið sem heillar mest, fyrir utan að vera með vinum og fjölskyldu. Maður er í þessu fyrir þau, konuna og strákana okkar þrjá, að byggja traustar stoðir undir fjölskylduna og gott líf.“

Hann segist ánægður með að hafa söðlað um úr kennarastarfinu yfir í endurskoðun.

„En ég sakna margra hluta kennarastarfsins og finnst gott að mega stundum grípa í það en það eru líka margar hliðar þess í starfi endurskoðandans, sérstaklega að fást við fólk. Því tel ég að þetta tvennt fari einkar vel saman.“