Hótelrekandi á Húsavík tók sig til og endurskapaði álfabæinn sem birtist í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga eftir að hafa kafað í álfasögur.

Örlygur Hnefill Jónsson, eigandi Cape Hotel, er ekki alls ókunnur því aðdráttarafli sem gamanmynd Will Ferrel hefur fært Húsvíkingum.

Fyrr í júlí var greint frá því að hann hafi opnað bar undir nafninu Jaja Ding Dong, með vísan til eins þekktasta lags myndarinnar, við mikla kátínu heimamanna.

„Heldurðu að maður grípi ekki svona tæki­færi þegar það kemur fljúgandi á 180 kíló­metra hraða í fangið á manni?“ sagði Örlygur við tilefnið í samtali við Fréttablaðið.

Örlygur frumsýndi álfabæinn í dag eftir að hafa nostrað við hann undanfarna viku ásamt Stefáni Jónassyni en atriði með húsinu voru tekin upp í Skotlandi.

Segir hann húsið nú vera opið öllum sem vilja þar dvelja „hvort sem þeir eru þessa heims eða annars.“