„Það er nýmæli að gallerí séu með kynningar á verkum sinna myndlistarmanna á öðrum stað en i galleríinu sjálfu,“ segir myndlistarmaðurinn Gunnella hjá Galleríinu Skólavörðustíg 20. Galleríið stendur fyrir myndlistarsýningu sem verður opnuð í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku næstkomandi laugardag 23. október klukkan 14.00.

„Markmið Gallerísins með Sýningunni er að útvíkka sýnileik Gallerísins og gefa þeim myndlistarmönnum sem eru í samstarfi við það eftirtektarvert tækifæri til aukinnar kynningar með ferskum stórviðburði í sögufrægu húsnæði.“

Sýningin ber einfaldlega heitið Sýningin, og samanstendur af verkum frá tuttugu myndlistarmönnum Gallerísins. Þetta verður fyrsta myndlistarsýningin sem haldin er í nýjum sýningarsal gömlu kartöflugeymslnanna.

„Þetta er einstaklega áhugaverður sýningarsalur og það er frábært tækifæri að fá að vera fyrstu sýnendur í salnum,“ segir Gunnella. „Þessi bygging er auðvitað sögufræg og á sér skemmtilega sögu.“

Flest verk Sýningarinnar voru unnin sérstaklega í tilefni hennar og segir Gunnella að sum þeirra hafi beina skírskotun í sögu byggingarinnar sem kartöflugeymslna.

„Sýnd verða til dæmis olíumálverk, vatnslitaverk, hönnun, skúlptúrar og grafík,“ segir hún. „Það verður fjölbreytileiki sem einkennir sýninguna.“

Uppgerð sprengjugeymsla

Byggingarnar sem flestir þekkja sem gömlu kartöflugeymslurnar voru upprunalega reistar í Hvalfirði af bandarískum hermönnum og nýttar sem sprengjugeymslur fyrir herskip í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið voru byggingarnar fluttar í Ártúnsbrekkuna þar sem þær standa enn og voru lengi notaðar til að geyma kartöflur.

Á undanförnum árum hefur svo verið unnið að því að umturna stríðsminjunum í hönnunar- og listamiðstöð.„Þetta eru rosalega merkilegar byggingar, ekki bara á íslenskan mælikvarða,“ segir Kristinn Brynjólfsson, hönnuður og maðurinn á bak við endurreisn kartöflugeymslnanna.

„Ég held það sé hvergi hægt að finna sprengjugeymslur í miðri höfuðborg annars staðar í Evrópu.“Sú hugsjón sem Kristinn hefur borið í brjósti fyrir svæðið kviknaði árið 1996 og við tók langt og strangt verk. „Það þurfti að endurbyggja þetta allt,“ segir hann. „Margir héldu að byggingarnar væru hreinlega ónýtar þegar ég tók við þeim.“

Aðspurður hvenær megi vænta þess að miðstöðin verði opnuð segir Kristinn að þetta sé verk í vinnslu. „Byggingin þar sem Sýningin verður er í raun nýbygging sem var byggð aftan við geymslurnar,“ segir hann.

„Húsnæðið er svo hugsað þannig að í öllum byggingum verði starfsemi sem tengist skapandi greinum, eins og deiliskipulag Reykjavíkurborgar fyrir lóðina gerir ráð fyrir, en hún er í jaðri útivistarsvæðis Elliðaárdalsins.“