Frá því í fyrstu bylgju Covid hefur Reykjalundur tekið á móti fólki í endurhæfingu sem setið hefur eftir með veikindi í kjölfar Covid-sýkingar. Fólkið hefur fengið þverfaglega endurhæfingu, en Hlín hefur sinnt líkamlegri þjálfun og annarri meðferð sem sjúkraþjálfari.

„Við skiptum skjólstæðingum í tvo meginhópa eftir einkennum. Þá sem eru með einkenni frá lungum eða hjarta og þá sem glíma við þreytu, verki, slappleika, andlega vanlíðan og hugrænar truflanir. Í fyrstu bylgjunum þjáðist fólk einnig oft af depurð, kvíða, skömm eða ótta yfir að hafa fengið þessa nýju sýkingu. Ég hef mest sinnt þessum hópi,“ segir Hlín.

„Þetta er fólk sem var jafnvel í toppformi fyrir veikindin og fólk sem var fyrir Covid-veikindin með undirliggjandi stoðkerfisvanda. Stundum mjög ungt fólk, aldursbilið var frá 25 ára upp í 75 ára. Áhersla sjúkraþjálfara með þennan hóp fólks, hvort sem við störfum á endurhæfingarstöðvum eða á stofum sjúkraþjálfara, er að miklu leyti fræðsla og stuðningur. Við fræðum fólk um sjúkdóminn, áhrif einkenna og viðeigandi meðferðar, eins vel og við getum. Fræðum það um núverandi stöðu og það sem koma skal til að ná bata eins og hægt er.“

Hlín segir algengt að fólk sem komi til hennar kvarti undan þrekleysi, mæði, þreytu, verkjum, vöðvaslappleika, minnkuðum vöðvastyrk og einbeitingarskorti.

„Við reynum að setja upp þjálfunar- og æfingaáætlun við hæfi einstaklingsins. Í upphafi gerum við ítarlegt mat á heilsufari, færni og líðan með spurningalistum og líkamlegri árangursmælingu sem er gerð í upphafi og við lok meðferðar. Við gerum meðal annars hámarksáreynslupróf á þoli, öndunarmælingar, úthalds-, styrktar- liðleika- og jafnvægisprófanir, til að meta líkamlegt ástand og setja fram áherslur í þjálfun. Út frá því er búin til einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun þar sem viðeigandi líkamsþjálfun er stór hluti.“

Álagsstjórnun mikilvæg

Hlín segir að fólk æfi meðal annars á þrekhjólum og geri styrktaræfingar undir litlu álagi, til að ýfa ekki upp yfirgengilega þreytu eða örmögnun eftir álag, sem eru eitt einkennið sem fólk glímir við.

„Þegar fólk er að koma upp úr löngum veikindum og langri rúmlegu er mikil áhersla í þjálfun á liðleika-, jafnvægis- og öndunaræfingar. Fólk þarf oft að vinna upp góða snerpu í hreyfingum og ná upp samhæfingu hreyfinga. En það er svolítið misjafnt á hvaða líffærakerfi fyrir utan öndunarkefið Covid-sýking leggst. Það getur verið hjartað, taugakerfið eða ónæmiskerfið. Sýkingin getur einnig haft áhrif á ýmis efnaskipti hormóna og boðefna, sem veldur einkennum eins og þreytu, verkjum og andlegri vanlíðan. Það fer eftir einkennum hvernig við þjálfum,“ segir hún.

Hlín segir skipta miklu máli í endurhæfingu Covid-sjúklinga að ná upp starfsþreki og betri almennri líðan.

„Sjúkraþjálfarar vinna með álagsstjórnun, í daglegu lífi, vinnu, skóla og í þjálfuninni. Við spyrjum fólk um einkenni í daglegu lífi og í þjálfun til að fá fólk til að meta áhrif álags á líkamann í þjálfun og eftir þjálfun. Margir sem glíma við einkenni eftir Covid finna ekki fyrir þreytu og slappleika fyrr en allt að sólarhring eftir ákveðið álag hvort sem það er í þjálfun eða í daglegu lífi,“ segir hún.

„Álagsstjórnun er mikilvæg fyrir líðan og starfsorku. Það er þarf að fara mjög hægt í stignun. Við kennum fólki að taka fyrstu skref þjálfunar í litlum skrefum. Að þjálfa minna og styttra í einu, en oftar. Fólk þarf að hlusta á líðanina í gegnum þjálfunina og nema hvað það þolir. Svo þarf líka að hlusta á líðanina eftir þjálfunina.“

Mikilvægt að byrja rólega

Hlín segir að þverfagleg endurhæfing á Reykjalundi taki oftast um 4-6 vikur í senn, en þegar fólk kemur ekki inn á endurhæfingarstofnanir er lagt upp með að það mæti um það bil tvisvar í viku til sjúkraþjálfara þar sem það fær ráðleggingar og þjálfunaráætlun með sér heim.

„Við sjúkraþjálfarar ráðleggjum þeim sem eru með meðal til alvarlegra einkenna og eru heima, að þjálfa líkamann eitthvað á hverjum degi, eða annan hvern dag ef mikil þreyta er í kjölfar álags, því það þarf að taka hvíldardag inn á milli. Það ber að varast að fara of geyst af stað,“ segir Hlín.

„Þó að Covid sé nýr sjúkdómur og lítið vitað um langtímaáhrifin þá hafa aðrir vírussýkingafaraldrar geisað í heiminum og reynslan af veikindum í kjölfar þeirra er þetta mikla þrekleysi, þreyta, verkjaástand og slappleiki. Þetta eru einkenni sem fólk getur glímt við í hálft til tvö ár. Fólk þarf að halda dampi í endurhæfingu og fara ekki of geyst svo það sé ekki alltaf að kýla sig til baka í verri einkenni.“

Eftir sýkingar er hægt að lenda í vítahring þreytu, magnleysis og verkja og Hlín segir að sjúkraþjálfarar reyni að vinda ofan af þessum vítahring með fólki á skynsamlegan hátt.

„Fólk þarf að setja sér ný viðmið og raunhæf markmið. Ef þrekið er minna en áður getur það ekki gengið jafn mikið, lagt eins mikið á sig í tækjasalnum eða lagt sig eins mikið fram í vinnunni, það er kominn nýr núllpunktur. Við hjálpum fólki að setja sér markmið og að meta hverju það vill ná á næstu vikum og mánuðum. Við þurfum alltaf að horfa á þetta sem langhlaup. Þessi uppbygging getur tekið eitt til tvö ár. Það tekur langan tíma fyrir líkamann að leiðrétta ferli eins og yfirgengilega þreytu, verki og streitu með þjálfun og æfingum eins og hægt,“ segir Hlín.

Flóknara en önnur veikindi

„Það sem gerir Covid-veikindi flóknari en önnur veikindi er að sjúkdómurinn hefur áhrif á svo mörg önnur líffærakerfi en lungun. Fólk fer þess vegna á ólíka staði í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum svolítið að hjálpa fólki að finna réttan stað. Það er athyglisvert að sjá að fólk sem var að glíma við væga eða meðal alvarlega sýkingu þegar það var veikt, er oft að glíma við einkenni eins og þreytu, verki, og skyntruflanir lengur en búist var við,“ segir hún.

„En svo er það fólkið sem lagðist inn á spítala, jafnvel á gjörgæslu. Það fólk þarf annars konar meðferð. Það er að koma úr langvarandi hreyfingarleysi og rúmlegu. Það er oft lengur að ná sér og þarf meira inngrip í meðferð sjúkraþjálfara. Það þarf að fara mjög rólega af stað með þennan hóp. Þetta er sá hópur sem þarf að hluta til að fara inn á endurhæfingarstöðvar og fá þverfaglega endurhæfingu og svo í áframhaldandi þjálfun á stofu sjúkraþjálfara með þau einkenni sem sitja eftir.

Hlín nefnir að andlegur stuðningur sé líka mikilvægur. Fólk geti verið hrætt við að hefja þjálfun eftir veikindi. Það óttist að einkenni versni og verður hreyfifælið.

„Starf okkar sjúkraþjálfara felst að miklu leyti í því að hjálpa fólki af þessu óttastigi og styðja þegar það tekur sín fyrstu skref í hreyfingu eftir veikindi. Fólk er stundum með svo kallaða með Covid-skömm. Það er mjög leitt yfir því að hafa smitast og þykir óþægilegt hafa smitað aðra. Það er því mikilvægt að sjúkraþjálfarar og aðrir fagaðilar taki á þessum andlega þætti frá upphafi ásamt því að setja fram faglega og uppbyggjandi meðferðaráætlun með sínum skjólstæðingum.