Kulnun er raunverulegt vandamál í nútímanum og sífellt fleiri hverfa af vinnumarkaði vegna þess að þeir brenna út. „Nútímalíferni krefst mikils af fólki. Hraðinn í þjóðfélaginu og kröfurnar sem við gerum til okkar eru svo miklar að hætt er við að eitthvað láti undan, sér í lagi ef við hlúum ekki meðvitað að okkur,“ segir sjúkraþjálfarinn Linda Gunnarsdóttir. Hún segir þá sem finna fyrir orkuleysi, endurteknum verkjum og erfiðleikum með svefn sýna skýr merki um að þeir séu að ganga of nærri sjálfum sér og þurfi þá að bregðast við. Hún segir úrræði til staðar og býður sjálf upp á sérsniðin námskeið fyrir fólk með vefjagigt, síþreytu og þá sem finna fyrir einkennum kulnunar undir yfirskriftinni Endurheimtu orkuna.

Skref í átt að betri líðan

Linda býður upp á meðhöndlun í formi námskeiða sem eru sérstaklega þróuð fyrir fólk með vefjagigt og kulnun en þau henta líka þeim sem eru að vinna sig út úr veikindum og vilja byggja sig upp undir leiðsögn sjúkraþjálfara. Hún segir allt of algengt að fólk sé búið að sætta sig við að vera orkulítið og með verki. „Það er hins vegar ótalmargt hægt að gera til að láta sér líða betur og öðlast meiri orku til þess að geta notið lífsins til fulls. Unnið er með líkama og sál í heild og saman finnum við rót vandans.“

Persónulegur stuðningur

Þátttakendur hittast tvisvar í viku í sex vikur. „Það getur verið átak fyrir marga að hefja líkamsrækt og því mikilvægt að námskeiðið sé ekki of erfitt. Við byrjum alla tíma á góðri fræðslu um verkefni vikunnar. Síðan kenni ég æfingar sem henta hverjum og einum. Við endum svo tímana á teygjum og slökun þar sem ég leiði hugleiðslu. Reynslan hefur sýnt að hún gefur þátttakendum jafn mikið og æfingarnar,“ segir Linda. Í hverjum tíma er fræðsla og er henni fylgt eftir með daglegum upplýsingum og stuðningi í lokuðum hópi á Facebook. Linda segir þann stuðning og aðhald skipta sköpum og að fólk deili reynslusögum og árangri. Hún segir árangurinn ekki láta á sér standa og að þátttakendur öðlist bæði aukna orku og styrk.

Finnum rót vandans

Linda leggur mikla áherslu á að finna rót vandans hjá hverjum og einum og gerir áætlun út frá því.

Linda segir nauðsynlegt að leiðrétta bólguástand sem hefur myndast í líkamanum með breyttu mataræði. 70-80% af ónæmiskerfinu liggi í meltingarveginum og því mikilvægt að stuðla að heilbrigðri þarmaflóru þegar tekin séu skref í átt að bættri heilsu. Þarmaflóran sé í rauninni forsenda heilbrigðrar starfsemi meltingafæranna, en einnig hafi hún áhrif á taugakerfið og hormónakerfið. „Við förum svo vel yfir hvaða fleiri umhverfisþættir geta haft skaðleg áhrif á okkur ásamt því hvaða líkamsstaða og æfingar henta hverjum og einum. Þá er ég með fræðslu um svefnvenjur og mikilvægi þeirra ásamt hugleiðslu.“

Notaleg og róleg æfingastöð í G-fit í Garðabænum

Námskeiðin eru kennd í líkamsræktarstöðinni G-fit að Kirkjulundi 19 í Garðabæ. „Andrúmsloftið er afslappað og heimilislegt og aðstaðan öll hin glæsilegasta,“ segir Linda. Næsta námskeið hefst 14. janúar. Allar nánari upplýsingar er að finna á lindagunn.is.