Vel má sjá framkvæmdir á húsum hér og þar á höfuðborgarsvæðinu, bæði er fólk í innanhússframkvæmdum og viðgerðum utanhúss. Endurgreiðslan er af vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði til áramóta. Heimild til endurgreiðslu er víðtækari en áður og tekur líka til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða.

Hjónin Þorsteinn Þorsteinsson, fjármálastjóri hjá Listaháskóla Íslands, og Sigurlaug Margrét Ómarsdóttir, þroskaþjálfi hjá Víðistaðaskóla, keyptu 170 fermetra einbýlishús í Hafnarfirði árið 2012. Húsið var byggt árið 1972 og með upprunalegum innréttingum. Þorsteinn segir að það hafi verið kominn tími á endurbætur og þau hafa nýtt sér endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Allir iðnaðarmenn sem Svansverk útvegaði okkur, smiður, pípari og rafvirki, stóðu sig frábærlega og verkið tók mun styttri tíma en við bjuggumst við eða um einn og hálfan mánuð.

Tími kominn á endurnýjun

„Við tókum eldhúsið í gegn í vor en áður höfðum við tekið baðherbergi og gólfefni. Lokapunkturinn var eldhúsið en við erum búin að umbylta því,“ segir Þorsteinn. „Næstu verkefni verða utanhúss. Þá má segja að við séum búin að taka húsið í gegn frá toppi til táar enda er það að verða eins og nýtt. Við keyptum nýjar innihurðir þegar við fengum endurgreiðslu á vaskinum. Við vorum með hurð inn í þvottahús frá eldhúsi og þegar nýja innréttingin var komin upp skar gamla hurðin í augu. Við ákváðum því að endurnýja allar hurðir enda orðnar gamlar,“ útskýrir Þorsteinn. „Það var kominn tími á endurnýjun og síðan var endurgreiðslan af virðisauka bara bónus fyrir okkur.

Veggur milli eldhúss og borðstofu var brotinn niður til að opna eldhúsið.

Sumt höfum við getað gert sjálf en þegar við réðumst í að skipta út eldhúsi ákváðum við að nýta okkur fagmenn og fá það almennilegt. Gamla innréttingin var dökk með fulningahurðum og með svokölluðum tanga. Við tókum allt út, settum hita í gólfið og brutum vegg inn í borðstofuna. Færðum eldavélina frá þeim stað sem hún var áður. Við höfum lengi gengið með þann draum að skipta út eldhúsinu og létum teikna það fyrir okkur í fyrra. Leituðum til arkitekts, Ragnheiðar Sverrisdóttur sem við þekkjum, og sjáum ekki eftir því. Hún kom með mjög góðar hugmyndir sem við sáum ekki fyrir. Það borgaði sig allan daginn, eins og sagt er. Hugmynd sem arkitektinn kom með gjörbylti eldhúsinu, til dæmis að hafa frekar borðpláss á milli bakaraofna og ísskáps heldur en skápa frá gólfi upp í loft eins og við ætluðum. Það er mjög hagkvæmt þegar við erum að taka úr innkaupapokum að leggja þá á borðið, setja beint inn í ísskáp og svo fer þurrvaran beint í skúffur fyrir neðan. Þessi hugmynd kemur mjög vel út. Við erum bara með skúffur í neðri skápunum,“ segir Þorsteinn. „Það hefur margborgað sig fyrir okkur í svona mikilli framkvæmd að setja verkið í hendur fagmanna. Við keyptum innréttinguna hjá Ikea í febrúar en fengum fyrirtækið Svansverk til að setja hana upp og bæta við því sem vantaði. Við útfærðum sem sagt innréttinguna til að gera hana sem hagkvæmasta. Allir iðnaðarmenn sem Svansverk útvegaði okkur, smiður, pípari og rafvirki, stóðu sig frábærlega og verkið tók mun styttri tíma en við bjuggumst við eða um einn og hálfan mánuð. Verktakinn útvegaði okkur menn í öll verk og þeir komu hér hver á fætur öðrum. Það var frábært að hafa slíkt skipulag. Píparinn lagði rör í gólfin, tók gamla ofna og tengdi uppþvottavél, vask og blöndunartæki.“

Eldhúsið er glæsilegt eftir breytinguna. Innréttingin er úr Ikea en barborði var bætt við af smiðum frá Svansverki sem settu hana upp. FRÉTTABLAÐIÐ/aNTON

Í skýjunum með eldhúsið

Þorsteinn segir að þau hjónin séu í skýjunum með eldhúsið og miklu skemmtilegra að elda núna. „Það er frábært að vera með rúmgott eldhús og góð tæki.“ Hann viðurkennir að kostnaðurinn hafi verið meiri en þau hefðu búist við eins og gerist yfirleitt. Hins vegar munaði miklu að fá vaskinn til baka auk þess sem öll viðskiptin voru gegn nótum. Það er sniðugt að nýta síðan endurgreiðsluna í frekari framkvæmdir og skapa enn meiri vinnu,“ segir hann og bætir við að nýjar járnplötur á þakið verði næsta verkefni. „Viðhald á húsum er endalaust og ef maður vill halda í verðgildið verða alltaf til verkefni. Við erum til dæmis með malarbílaplan sem mig langar að láta steypa. Það verður þó ekki á þessu ári. Við byggðum 45 fermetra pall við húsið fyrir nokkrum árum og ég get vel mælt með fyrir þá sem eru í þeim hugleiðingum að hafa hann frekar stærri en minni.“

Margir í framkvæmdum

Þegar Þorsteinn er spurður hvort hann sjái miklar framkvæmdir í kringum sig, svarar hann því játandi. „Fólk í nágrenni við okkur er að skipta um þök, einn er að skipta um útihurðir og glugga svo ég er viss um að endurgreiðsla virðisauka hafi verið mjög hvetjandi til framkvæmda. Mér þætti réttast að halda þessum endurgreiðslum áfram á næsta ári svo vinnan haldist áfram. Ég veit að það getur verið erfitt að fá iðnaðarmenn til starfa núna vegna anna hjá þeim en svo gæti allt dottið niður þegar endurgreiðslan verður afnumin.“

Þorsteinn og Sigurlaug eiga þrjár dætur á aldrinum 11-17 ára. „Húsið er teiknað af Kjartani Sveinssyni og er mjög fjölskylduvænt. Öllu haganlega komið fyrir, ekkert of stórt og ekkert of lítið,“ segir Þorsteinn sem hvetur fólk til að huga vel að eignum sínum og semja við góða fagmenn um framkvæmdir.

Eldhúsið eins og það leit út fyrir breytingar. Nú er það mun rýmra og betra.
Iðnaðarmenn á fullu við að setja upp eldhúsinnréttinguna. Hjónin fengu iðnaðarmenn frá Svansverki í öll verkin, smiði, rafvirkja og pípara.