Helgi Steinar Gunn­laugs­son, grín­isti og kín­versku-túlkur, gaf í dag út nýtt lag og tón­listar­mynd­band með söng­konunni Silju Rós. Lagið heitir „Sjalli“ og er á­deila á þau sem kjósa Sjálf­stæðis­flokkinn, alltaf, í blindni, að sögn Helga Steinars. Hann segir að lagið sé satíra og að hann hafi lengi langað að búa til pólitískan grínskets.

Margir munu þekkja stefið úr laginu en það er úr laginu „Stan“ eftir Emi­nem og Dido sem vin­sælt var fyrir um 21 ári.

„Ég ólst mikið upp við að hlusta á Emi­nem og ég hlustaði á lagið aftur ný­lega og hann er auð­vitað í laginu alveg hel­tekinn af Stan og hann minnti mig á fólkið sem kýs Sjálf­stæðis­flokkinn, alveg sama hvað. Þetta er smá eins og trúar­brögð, “ segir Helgi Steinar. Hann segir að ekki eigi að taka laginu of al­var­lega en að hann sé mjög á­nægður með við­tökurnar sem að lagið hefur fengið í dag.

„Ég byrjaði að vinna í þessu í ágúst og svo fórum við nokkur í það saman að gera þetta af al­vöru. Ég hafði sam­band við stúdíó og hér erum við,“ segir Helgi.

En ertu búinn að heyra í Bjarna?

„Nei, ég held að ég sé núna búinn að úti­loka alla mína at­vinnu­mögu­leika hjá honum,“ segir Helgi Steinar og hlær og bætir við: „Ég vona að hann hafi alla­vega húmor fyrir þessu.“

Spurður hvort að hann ætlar að taka fleiri flokka fyrir segir hann ó­lík­legt að hann nái því fyrir kosningar en sjái fyrir sér að gera meira af þessu í haust.

Hægt er að horfa á mynd­bandið við lagið hér að neðan.

Helgi Steinar tilkynnti um útgáfuna í dag.

Hér að neðan er svo einnig hægt að hlusta á upprunalega lagið með Eminem og Dido.