Zsóka hefur starfað við Listasafn Árnesinga síðastliðin tvö ár. Spurð um aðdraganda sýningarinnar segir hún:

„Ísland hafði lengi verið draumalandið mitt, jafnvel áður en ég flutti hingað. Ég er ungverskur listfræðingur og árið 2018 vann ég Erasmus-styrk og starfaði hjá Listasafni Reykjavíkur í tvo mánuði. Þegar ég var að skila listaverkabókum á bókasafn safnsins fann ég bæklinginn SÚM á Listahátíð í Reykjavík 1972 og varð undrandi að sjá ungverska listamenn í bland við efnilegustu íslensku listamennina sýna saman á sýningu. Ég fann að ég vildi kafa dýpra og rannsaka þetta frekar.

Ég fór heim til Ungverjalands en flutti til Íslands ári síðar og hóf þá rannsóknir af fullum krafti, ég ræddi við íslensku listamennina og fór í Nýlistasafnið til að grafa upp frekari upplýsingar. Ég á tveimur manneskjum mikið að þakka: Hlynur Helgason dósent hjálpaði mér í rannsóknum mínum og Kristín Scheving, forstöðumaður Listasafns Árnesinga, gaf mér frábært tækifæri til að gera þessa sýningu að raunveruleika.“

Mikilvæg bréf

Um viðfangsefni sýningarinnar segir Zsóka: „Sýningin fjallar um það hvernig hægt var tengjast og setja upp sýningar á tímum kalda stríðsins þegar fólk í Austurblokkinni gat ekki ferðast til Vesturlanda. Þótt listamenn í Austantjaldslöndum vildu tengjast listamönnum í vestri voru íslenskir listamenn líka einangraðir, þótt það væri á annan hátt. Sýningar að austan gátu í gegnum bréfaskriftir orðið að veruleika í galleríum sem íslenskir listamenn ráku, því öll verkin og leiðbeiningarnar höfðu verið sendar með pósti. Bréfin eru geymd í Nýlistasafninu og í Listasafni Ungverjalands og þannig var hægt að endurgera öll tengslanetin og sýningarnar frá áttunda áratugnum. Áberandi einkenni er síðan að erlendu listamennirnir notuðu húmor og kaldhæðni í verkum sínum og skemmtu sér vel við að skiptast á hugmyndum við íslensku listamennina.

Sýningarstjórinn Zsóka Leposa og aðstoðarsýningarstjórinn László Százados halda á SÚM-katalóg frá árinu 1972.
Mynd/Aðsend

Á sýningunni tengjum við einnig fortíð og nútíð. Við sýnum nýleg listaverk sömu listamanna og tóku þátt í þessu neti á áttunda áratugnum. Þeir eru nú meðal þekktustu listamanna á Íslandi og í Hollandi og Ungverjalandi. Það er mjög áhugavert að sjá hvernig þeir hafa þróast sem listamenn.“

Sagan endurtekur sig

Af hverju er sýning eins og þessi mikilvæg? spyr blaðamaður og Zsóka svarar: „Það sem skiptir mestu máli er hvernig sagan endurtekur sig. Ég hef verið að rannsaka áttunda áratuginn og nú, árið 2022, erum við aftur að tala um pólun Evrópu, um austur og vestur, og vaxandi pólitísk áhrif Rússlands í fyrrum austurblokkinni. Ég, eins og við öll, átti ekki von á þessu hrikalegu stríði í Úkraínu. Það var ófyrirsjáanlegt fyrir flesta og ég er enn í algjöru áfalli yfir því sem er að gerast í nágrannalandi Ungverjalands.

Það er mikið talað um einangrun. Ég gæti alltaf tengt við þá tilfinningu í kalda stríðinu hinum megin við járntjaldið og ný reynsla mín er þessi: Ég skil betur tilfinninguna að vera einangraður hér á Íslandi, sérstaklega eftir þessi tvö ár af heimsfaraldri, og ég er viss um að þetta er reynsla okkar allra.“

Sýningin í Listasafni Árnesinga stendur til 4. september og verður frekari dagskrá í tengslum við hana tilkynnt á heimasíðu safnsins sem og á samfélagsmiðlum.