Þau Sigrún Líf og Hákon eru á öðru ári í Vefskólanum, námsbraut í vefþróun sem kennd er við Tækniskólann. Appið sem þau eru að endurhanna og forrita er unnið í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Stefnu. „Appið er gömul vara frá þeim sem við erum að endurgera. Við erum eiginlega að taka hana alveg í gegn. Búa til nýjan kóða og endurhugsa hana,“ útskýrir Sigrún.

„Þetta var upphaflega app sem var hugsað fyrir skóla. Það var hægt að búa til spurningaleiki og kennarinn gat sent á bekkinn og hann fékk svo til baka upplýsingar um hverjir svöruðu rétt og hver nemandi fékk einhvers konar einkunn.“

Markmiðið hjá Sigrúnu og Hákoni er að breyta leiknum svo hann nýtist á fleiri stöðum en í skólum. Hugsunin er að einstaklingar geti búið til leiki og spilað til dæmis við vini sína en að hann nýtist einnig innan fyrirtækja, til dæmis í starfsmannaþjálfun.

„Þetta er í grunninn bara spurningaleikur. Þetta á að vera einfalt og þægilegt. Þú býrð til spurningar og getur líka sett inn hljóð- og myndefni. Það á að vera tungumálastuðningur í þessu svo að leikurinn getir verið á íslensku, pólsku, ensku og þessum helstu tungumálum. Svo verður líka hægt að fletta leikjum upp í spurningabönkum þannig að ef einhver hefur búið til sniðuga leiki þá er hægt að endurnýta þá,“ segir Sigrún.

Leikurinn er þannig byggður upp að margir geta spilað í einu og hægt er að senda hann á stóra hópa. „Við erum að hugsa um að setja upp einhvers konar stigatöflu líka. Þá er hægt að búa til keppni úr þessu, til dæmis ef vinahópurinn er að hittast í einhverju partíi og spila leikinn.“

Sigrún segir að hugmyndin að appinu hafi komið frá Stefnu. „Við erum í starfsnámi. Kennarinn okkar hafði samband við nokkur fyrirtæki og bað þau að koma með tillögur að verkefnum sem við gætum unnið með þeirra aðstoð og Stefna kom með þessa hugmynd. Þau voru búin að vera með þetta app í einhvern tíma og vildu krydda það aðeins, gera það svolítið skemmtilegra.“

Ennþá er ekki komin nein dagsetning á hvenær appið verður tilbúið fyrir notendur að prófa.

„Þetta er lokaverkefnið okkar og það verður bara að koma í ljós á hvaða stig það verður komið í vor,“ segir Sigrún.