Þrátt fyrir heimsfaraldurinn hefur hlaupaárið hjá Arnari Péturssyni, maraþonhlaupara og fyrirlesara, gengið merkilega vel að eigin sögn.

„Hlaupin hafa gengið nokkuð vel á árinu þrátt fyrir að ég hafi ekki fengið að keppa í minni aðalgrein sem er maraþonið. Ég hef orðið sjö sinnum Íslandsmeistari á árinu og vann einnig í fyrsta skiptið 800 metra hlaupið á Reykjavík International Games. Þá er alltaf ótrúlega gaman að fylgjast með öllum bætingunum hjá þeim hlaupurum sem ég er að þjálfa.“

Utan hlaupamarkmiða er helsta markmið hans á árinu að koma nýrri hugmynd á framfæri gegnum fyrirtækið Driftline sem hann á hlut í.

„Fyrirtæki okkar hefur gert tímamótauppgötvun með því að geta í fyrsta skipti skilgreint þol með vísindalegum hætti út frá hjartsláttargögnum. Með einföldu skokki eða hjólatúr er því núna hægt að fá allar sömu heilsumælingar og þú færð á rannsóknarstofu. Þessar niðurstöður er svo hægt að nýta til að sérsníða fullkomið æfingaprógram eða einfaldlega til að meta heilsu viðkomandi. Mig langar að koma appinu sem við erum búin að þróa á markað svo að sem flestir í heiminum geti æft eins rétt og mögulegt er. Þegar kemur að markmiðum tengdum hlaupum verður markmiðið fyrir árið 2022 að komast erlendis að hlaupa og taka þá 10 km á 29 mínútum og 55 sekúndum og maraþonhlaup á undir 2 klukkustundum og 15 mínútum.“

„Hlaupin hafa gengið nokkuð vel á árinu þrátt fyrir að ég hafi ekki fengið að keppa í minni aðalgrein sem er maraþonið,“ segir Arnar Pétursson. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Spurt og svarað:

Ef þú værir ekki afreksmaður í hlaupum, hvernig hefði íþróttaferillinn þróast hjá þér?

Ég hefði líklega haldið áfram í körfuboltanum eða fært mig aftur í fótboltann. Ég var í yngri landsliðunum í körfunni og varð Íslandsmeistari í fótbolta með Breiðablik í yngri flokkum. Mig grunar samt að ég hefði ekki haldist eins heill í þessum íþróttagreinum þar sem þú stjórnar því ekki hvort einhver tækli þig eða ekki. Það var alltaf draumurinn að vera viðloðandi íþróttir eins lengi og hægt er.

Hvaða hlauparar eru í mestu uppáhaldi hjá þér og af hverju?

Ég hef haldið mikið upp á Kenenisa Bekele og Eliud Kipchoge. Eliud er einstaklega hógvær og yfirvegaður eins og ég komst í raun um þegar ég hitti hann í Kenía þar sem ég var í æfingabúðum og fékk að spjalla aðeins við hann.

Hvaða íþróttir eru í mestu uppáhaldi hjá þér og hvaða lið og leikmenn?

Ég fylgist vel með NBA deildinni í körfubolta og þar er Chris Paul minn uppáhaldsleikmaður. Hann er þvílíkur leiðtogi og gerir það besta úr sínum hæfileikum. Ég held ekki með neinu sérstöku liði þar sem það er alltof algengt að lið breyti algjörlega um stefnu eins og gerðist fyrir fyrsta liðið sem ég hélt með en það var Sacramento Kings með Peja og Webber innanborðs.

Hvernig tónlist hlustar þú á til að koma þér í rétta stemningu fyrir æfingar og hlaup?

Ég er algjör alæta á tónlist og það getur verið allt frá Enya yfir í Doctor Victor. Það eina sem skiptir máli er að ég geti hlustað á lagið 1.000 sinnum án þess að fá leið á því og þá kemst það á hlaupalagalistann.

Hvernig matur er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Ég elska góða og rólega morgunstund með ristaða brauðsneið, smjöri, sultu og avókadó og smá salti yfir. Ég hef ábyggilega borðað ómælt magn af Lemon-samlokum en ef það væri ein tegund af mat sem ég þyrfti að velja þá væri það pítsa. Þannig að kannski er kolvetnisríkur matur rétta svarið.

Hvers konar bækur lest þú helst?

Ég hlusta mun meira á bækur enda gott að nýta rólega skokkið þannig. Það eru þá eiginlega alltaf bækur sem snúa að hlaupum eða þá bækur til að fræðast. Mæli eindregið með bókinni Endure eftir Alex Hutchinson en ég hef lesið og hlustað á hana oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Hver er besti morgunmaturinn?

Það eru tvær brauðsneiðar með smjöri, sultu og avókadó og smá salti yfir. Oftast fæ ég mér te með en kaffi dettur líka stundum inn.

Hver er uppáhaldshlaupaleiðin hér á landi?

Sú sem ég nota í löngu túrana er hringur frá Kópavogi í kringum Heiðmörkina, niður Elliðaárdalinn og svo aftur inn Fossvoginn og til baka í fallega Kópavoginn. Fólk má endilega bara mæta með mér og ég sýni þeim leiðina.

Hvar er best að slaka á í fríinu?

Borgarfjörður eystri er klárlega ofarlega á listanum og vera þá í Snotrunesi með fjölskyldunni.

Hvaða leyndu hæfileika hefur þú sem fáir vita um?

Ég er frábær söngvari! Nei ókei, ég er ansi langt frá því en ætli það sé ekki gott minni.

Hvað ertu helst að horfa á þessa dagana?

Ég nota mikið YouTube enda auðvelt að nálgast fyrirlestra þar, fræðsluefni og að fylgjast með öðrum hlaupurum. Hvað varðar þætti þá kláraði ég The Truth About The Harry Quebert Affair um daginn og það var mjög góð sería.

Hvernig kokkur ert þú og hvað er skemmtilegast að elda?

Ég vinn eftir uppskriftinni "gott plús gott" er sama sem gott. Nota fá hráefni og elda eingöngu það sem tekur skamman tíma. Kjúklingapasta er líklega það sem ég hef eldað hvað oftast. Ef ég myndi endurorða þetta: ég er undir meðallagi góður kokkur.

Fylgdist þú með Ólympíuleikunum?

Já, ég er forfallinn íþróttaaðdáandi. Ég man eftir því þegar ég var krakki, þá var minn helsti draumur að hafa aðgang Eurosport svo ég gæti horft á íþróttir allan daginn og mér var alveg sama hvaða íþróttir. Á Ólympíuleikunum fylgdist ég með fimleikum, körfunni og þolíþróttunum og einnig hlaupum, hjólum og svo var þríþrautin líka mjög skemmtileg.

Hvað verður fimmtugur Arnar Pétursson helst að gera?

Mig langar að halda áfram að vera viðloðandi íþróttir og hjálpa öðrum að ná árangri á sama tíma. Ég vona að Driftline verði orðið þekkt sem fyrirtækið sem skilgreindi þol í fyrsta skipti en núna erum við að vinna að því að kynna niðurstöður okkar. Nýlega fórum við í gegnum erfiðustu hindrunina við að fá einkaleyfi sem staðfestir að þetta er ný uppgötvun. Ég er því vægast sagt spenntur fyrir framtíðinni en ég vona að ég verði líka með ágætt þol eins og foreldrar mínir þegar ég verð fimmtugur og geti þá leikið við hvern sem er. ■

Áhugasamir geta fylgst með Arnari á Instagram (@arnarpeturs) og á heimasíðunni arnarpeturs.is.