Eyþór Ingólfsson Melsteð byrjaði að lyfta lóðum þegar hann var bara lítill polli á Breiðdalsvík og fann sig svo í aflraunum. Hann hefur ekki keppt lengi en á nú þegar eitt heimsmet og síðasta sumar lenti hann í 10. sæti á mótinu Sterkasti maður heims, svo hann hefur náð miklum og góðum árangri á stuttum tíma. Eyþór ætlar að keppa á mótinu Sterkasti maður Evrópu í byrjun apríl og er mjög spenntur fyrir árinu sem er fram undan.

„Ég byrjaði að lyfta þegar ég var tólf ára á Breiðdalsvík. Mig langaði að æfa eitthvað en það var ekkert í boði, við vorum bara tíu krakkar í grunnskólanum, þannig að ég fór að gera eitthvað sjálfur,“ segir Eyþór. „Það var svo eiginlega fyrir slysni sem ég leiddist út í aflraunir. Ég byrjaði í fitness og keppti þar en fann mig ekki almennilega. Svo frétti ég af því að Austfjarðatröllið væri að fara gegnum Breiðdalsvík árið 2015 og ég var heitur fyrir því að prófa, svo ég hringdi í Magnús Ver og spurði hvort ég mætti keppa. Þannig að þetta var eiginlega bara fyrir algjöra slysni og ég þekkti engan í sportinu. En ég prófaði að keppa og elskaði þetta, svo ég hélt bara áfram.“

Erfiðast að borða

Eyþór segir að það sem sé skemmtilegast við aflraunir sé að vera í sífelldri baráttu við sjálfan sig.

„Mér finnst það svo gaman, ekki endilega að keppa við aðra, heldur bara þessi endalausa barátta við að bæta sjálfan mig,“ segir hann. „Maður er alltaf að reyna að finna leiðir til að verða betri á einhvern hátt, hvort sem það er með betri næringu, æfingum eða svefni.

Það erfiðasta er að borða. Maður þarf að borða alveg svakalega mikið. Núna er ég að borða í kringum 5-6.000 hitaeiningar á dag, sem er ekki svo mikið, en það eykst þegar nær dregur móti,“ segir Eyþór. „Í styrktaríþróttum er maður að alveg frá því að maður fer á fætur og borðar fyrstu máltíð dagsins þar til kemur að síðustu máltíðinni og maður fer að sofa. Það er aldrei frí ef maður er að reyna að verða bestur.“

Spenntur fyrir mótinu

Eyþór, sem verður 28 ára gamall á morgun, hefur ekki keppt í aflraunum lengi. Hann byrjaði að keppa af krafti árið 2018 og hefur unnið Austfjarðatröllið einu sinni og á heimsmet í náttúrusteinapressu, en hann lyfti 137 kílóa steini yfir höfuð sér og sló þar með heimsmet Magnúsar Vers Magnússonar. Hann keppti svo á mótinu Sterkasti maður heims í fyrra og náði 10. sæti, svo hann er strax orðinn 10. sterkasti maður heims. Hann er ánægður með árangurinn hingað til.

„Já, heilt yfir er ég mjög ánægður. Ég hef verið stutt í þessu en náð langt og í raun er ég kominn miklu lengra en ég þorði að vona þegar ég byrjaði,“ segir hann. Eyþór vonast svo til að byrja að safna titlum í ár, en fyrsta mótið á dagskrá er Sterkasti maður Evrópu í Leeds 2. apríl.

„Mótshaldarar voru að bjóða mér að koma og taka þátt og ég er mjög spenntur fyrir mótinu. Ég hefði að vísu verið til í lengri undirbúning, boðið kemur bara með átta vikna fyrirvara,“ segir hann. „En það er bara eins og það er og maður verður bara að spila úr þeim spilum sem maður hefur. Greinarnar á mótinu eru fínar fyrir mig og ég fer alltaf í öll mót með það markmið að vinna og að sjálfsögðu er það markmiðið hér.“

Venjulegar græjur duga ekki

Það er mikil vinna að undirbúa sig fyrir svona mót.

„Æfingaálagið eykst jafnt og þétt frá því sem er venjubundið og ég keyri næringuna líka upp markvisst, þannig að æfingar þyngjast og næring eykst í takt við þær fram að móti. Ég reyni líka að eyða meiri tíma í endurheimt,“ segir hann.

„Ég lyfti þungu fjórum sinnum í viku á 2-3 tíma löngum æfingum. Það er feikinóg, líkaminn myndi ekki þola mikið meira en það. Ég æfi bara í Jakabóli eða Thor’s Power Gym því það eru einu sérhæfðu aflraunastöðvarnar og þær hafa langbesta búnaðinn. Þær hafa líka báðar hluti sem hinn staðurinn hefur ekki, svo það er gott að vera á báðum stöðum,“ segir Eyþór. „Venjulegar líkamsræktarstöðvar eru ekki með nógu góðar stangir og bekki til að þola þyngdirnar sem ég nota og 20-25 kílóa plöturnar sem eru þar eru of þykkar til að það sé hægt að setja nógu margar á stöngina.

Eyþór lyftir þungu fjórum sinnum í viku í 2-3 tíma í senn en æfingaálagið og hitaeininganeyslan eykst jafnt og þétt eftir því sem nær dregur móti. Hann er mjög spenntur fyrir því að keppa á mótinu Sterkasti maður Evrópu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ég fer líka stundum í ræktina á hvíldardögum og tek hnéæfingar því ég hef lent í smá tjóni með það og svo reyni ég að fara í 2-3 göngutúra alla daga, þannig að það eru einhvers konar æfingar nokkrum sinnum á dag og ég reyni að vera virkur í hvíld. En ég er auðvitað með fulla vinnu svo það er misjafnt eftir dögum hversu fullkomið þetta er hjá mér. Maður reynir eins og maður getur,“ segir Eyþór. „Endurheimt er mjög stór hluti af þessu, en það sem skiptir mestu er svefninn. Ég reyni að sofa helst átta tíma á nóttu. Svefn og næring er stærsti hlutinn af endurheimt. Svo reynir maður að beita öllum brögðum, eins og að fara í nudd og í heita og kalda potta alla hvíldardaga.“

Eyþór segist ekki fylgjast mikið með því sem aðrir eru að gera, en samt eitthvað.

„Í þessu sporti veit maður stundum ekki alveg í hverju maður er að fara að keppa, þannig að maður reynir stundum að finna út hvort aðrir hafi komist að því. En ég reyni meira að horfa inn á við og á það sem ég get gert. En ég þarf að passa mig að verða ekki of heltekinn af þessu. Það sem er eiginlega erfiðast fyrir mig er að slaka á,“ segir Eyþór og hlær.

Stefnir á stóra titla

Þegar mótið Sterkasti maður Evrópu er búið fer Eyþór að huga að því að vinna Sterkasta mann Íslands og Sterkasta mann heims.

„Ég geri ráð fyrir því að keppa aftur í Sterkasta manni heims í lok maí í Sacramento, en það er ekki búið að senda út boð fyrir það mót enn þá. Að sjálfsögðu fer ég þangað til að vinna, ég fer ekki alla þessa leið að ástæðulausu,“ segir Eyþór kíminn.

En af hverju er Eyþór ekki búinn að vinna keppnina Sterkasti maður Íslands?

„Hafþór Júlíus Björnsson er náttúrulega búinn að vera að keppa þar síðan 2010 og var yfirburða bestur í heiminum á þessum árum. En hann var ekki með í fyrra og þá vann Stefán Karel Torfason, sem er nýbyrjaður en á hraðri uppleið. Hann átti frábært mót. En það var margt sem var ekki mér í hag á þessu móti, ég hafði farið í hnéaðgerð bara fimm vikum áður, svo ég átti í rauninni ekkert að vera þarna,“ segir Eyþór og hlær. „Svo voru líka tvær greinar á mótinu sem hentuðu mér ekki vel. Stundum fer maður fram úr sér.“

Eyþór vonast til að klófesta titilinn í sumar.

„Ég stefni að því. Ég ætla að keppa hérna heima eins og ég get, en erlendu mótin verða samt í forgangi. Ef ég er í formi og líkaminn í standi keppi ég hér heima í sumar,“ segir hann.

Aflraunir efst í huga

Eyþór starfaði áður sem slökkviliðsmaður, en í dag vinnur hann fyrir Klettabæ.

„Klettabær býður upp á búsetuúrræði fyrir börn með alls kyns flókin vandamál. Þetta er frábært og gefandi starf, en getur líka verið erfitt. Yfirleitt er þetta bara mjög þægileg vinna. En þess á milli eru aflraunir alltaf efst í huganum, sérstaklega á keppnistímabilum, þá snýst allt um það,“ segir hann.

Að lokum er Eyþór með góð ráð fyrir þau sem vilja feta í fótspor hans og verða sterk.

„Já,“ segir hann og hlær. „Bara að byrja. Það er um að gera að finna sér góðan þjálfara eða fjarþjálfara ef fólk hefur tök á því og koma sér af stað. Það verður enginn óbarinn biskup, það byrjuðu allir einhvers staðar og þetta er langhlaup, en ekki spretthlaup,“ segir hann. ■


Þeir sem vilja fylgjast með Eyþóri geta gert það í gegnum Instagram-síðu hans, instagram.com/eythormelsted/