Erna Björg nýtur sín best á hestbaki og undir berum himni. „Ég er 30 ára hagfræðingur, Árbæingur, hestakona og áhugamanneskja um útivist. Ég og kærastinn minn búum saman í lítilli íbúð í Árbænum, barnlaus og gæludýralaus, en höfum fjóra hesta til skiptanna á milli þess sem við förum í fjallgöngur og útilegur.“

Praktíkin réði fyrst för

Erna Björg segir það hafa verið hálfgerða tilviljun að hún hafi ákveðið að leggja stund á hagfræði. „Það gerðist alveg óvart. Í menntaskóla skráði ég mig upphaflega í náttúrufræði en eftir samskiptaörðugleika milli mín og eðlisfræði skipti ég yfir í viðskiptafræði. Þegar kom að háskólanámi varð síðan hagfræði fyrir valinu, ekki vegna brennandi áhuga – þvert á móti – heldur vegna þess að námið var praktískt, bauð upp á ýmsa möguleika og opnaði dyr inn í aðrar greinar. Þrátt fyrir að grunnnámið í Háskóla Íslands hafi verið allt í senn frábær, krefjandi og lærdómsríkur tími, kviknaði hagfræðiáhuginn ekki fyrr en ég tók til starfa í greiningardeild Arion banka. Eftir hálft ár hjá deildinni var ég loksins komin með smávægis hugmynd um hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór.“

Eftir að hafa lokið grunnnámi hérlendis var förinni heitið á meginlandið. „Ég var alla tíð ákveðin í að halda utan í framhaldsnám. Erasmusháskólinn í Rotterdam varð fyrir valinu þar sem uppbygging námsins hentaði mér vel, valmöguleikarnir margir og áhugaverðir og skólinn með góðan orðstír á alþjóðavettvangi. Námið var krefjandi og það varð minna um helgarferðir á meginlandinu en upphaflega stóð til. Lífsreynslan og lærdómurinn voru hins vegar ómetanleg og eitthvað sem ég á eftir að búa að alla ævi.“

Erna Björg var ráðin inn sem yfirhagfræðingur hjá Arion Banka á síðasta ári, þá ekki nema 29 ára gömul. Hún segir ráðninguna fyrst hafa komið sér á óvart en svo hafi hún fundið fyrir miklu þakklæti. „Í fullri hreinskilni, þá var það dálítið sjokk til að byrja með. Eftir að hafa meðtekið fréttirnar var ég hins vegar upp með mér að bankinn væri reiðubúinn að veita mér þetta tækifæri og treysti mér fyrir starfinu, það var mikill heiður.“

Mikilvægt að vera víðsýnn

Erna Björg segir hægara sagt en gert að lýsa starfi hagfræðings. „Það er ómögulegt að lýsa starfi hagfræðings, einfaldlega vegna þess að hagfræðingar vinna við svo fjölbreytt störf – sem er ein stærsta ástæðan fyrir því að ég valdi námið. Það opnar svo margar dyr. Líklega er hægt að finna hagfræðinga í flestum fyrirtækjum, bæði opinberum og einkareknum, í háskólum, stofnunum, samtökum og svo framvegis.“

Hvaða eiginleikar eru eftirsóknarverðir í fari hagfræðings?

„Sem hagfræðingur er gott að vera talnaglöggur, skilja hvernig litlir hlutir koma saman og mynda stór, flókin fyrirbæri, fróðleiksfús, hafa áhuga á efninu og geta komið því frá sér á skiljanlegan hátt. Ekki skemmir fyrir að sætta sig við óvissu, vera víðsýnn og meðvitaður um að einhverjir verði alltaf ósammála þér, enda hagfræðin sem fræðigrein í stöðugri mótun.“

Flókið en áhugavert

Erna Björg segir óneitanlega sérstakt að starfa sem hagfræðingur á umbrotatímum sem þessum. Atburðarás undanfarinna mánaða hafi vissulega sett sinn svip á hennar starf. „Hún hefur gert það mun meira krefjandi, enda flóknara að spá fyrir um efnahagsframvinduna en áður, en á sama tíma er þetta ótrúlega áhugaverður tími til að starfa sem hagfræðingur.“

Mikil óvissa fylgi ástandinu, bæði hér á landi og á heimsvísu. „Öll hagkerfi heimsins eru að ganga í gegnum miklar efnahagsþrengingar um þessar mundir af völdum faraldursins, þar sem búið er að raska bæði framboðs- og eftirspurnarkröftum. Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun og er fyrirséð að efnahagssamdrátturinn verði mikill með tilheyrandi áhrifum á heimili, fyrirtæki og ríkisfjármál.“

Erna Björg segist binda vonir við að áhrifanna gæti ekki of lengi en þó sé útilokað að segja til um þau að svo stöddu. „Vonandi verða áhrifin skammvinn en eins og staðan er í dag ræðst efnahagsþróun af framvindu faraldursins og því ómögulegt að leggja mat á tímalengdina eins og sakir standa.“

Blaðamaður spyr Ernu Björg hvort hún hafi lært eitthvað í náminu um hugsanleg áhrif farsótta á hagkerfi. „Nei, ekki svo ég muni, ekki nema í sögulegu samhengi, til dæmis í kringum spænsku veikina. Þá var örlítið dreypt á svona svörtum svönum í tölfræði, það er að segja ófyrirsjáanlegum, sjaldgæfum viðburðum sem hafa alvarlegar afleiðingar.“

Erna Björg mælir hiklaust með hagfræðináminu og hvetur þau sem hafi áhuga á henni að gefast ekki upp. „Ekki gefast upp þótt fögin séu misskemmtileg, lestu hagfræðigreinar, lærðu að tengja námið inn í raunveruleikann og góðir lærdómsfélagar eru gulls ígildi.“