Ingibjörg, sem er stjórnandi heimildamyndahátíðarinnar IceDocs, var stödd í Zagreb til að taka þátt í námskeiði um kvikmyndahátíðir þegar hún fór á safn sem hún gleymir ekki. Það heitir Museum of Broken Relationships, eða Safn brostinna sambanda.

„Mig minnir að þetta hafi verið árið 2017. Ég hafði mælt mér mót við stelpur frá Póllandi sem voru með mér á námskeiðinu,“ útskýrir Ingibjörg um aðdraganda þess að hún fór inn á þetta áhugaverða safn.

„Vanalega fer ég á listasöfn eða eitthvað svoleiðis svo ég var ekkert rosalega spennt fyrir þessu safni. En þær drógu mig með sér þangað. En svo var eitthvert símavesen á milli okkar. Það gleymdist að slá inn landskóða eða eitthvað þannig þegar við reyndum að hringja í hver aðra þannig að ég fann þær aldrei. Ég endaði þess vegna á að vera ein inni á þessu safni sem mig langaði ekkert mikið að fara á.“

Ingibjörg segir að safnið sé mjög íburðarlítið. Allir veggir eru hvítir, á gólfinu eru stöplar með munum sem fólk hefur sent safninu og við hvern mun var skrifuð sagan sem fylgdi honum. Saga um samband sem entist ekki.

„Safnið var stofnað af pari sem hafði nýlega hætt saman og hugmyndin var að stofna safn um það sem gerist þegar sambönd slitna. Ef ég skil það rétt,“ segir Ingibjörg.

„Það á að snúast um þessa hugmynd um hversu erfitt það er þegar leiðir skilja. En það er algjör tilfinningarússíbani að fara í gegnum þetta safn,“ bætir hún við.

Ingibjörg Halldórsdóttir sér ekki eftir að hafa verið dregin inn á safnið um brostin sambönd. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Kveikir sterkar tilfinningar

Ingibjörg segir að safnið sé sett upp þannig að fyrst eru skoðaðir munir sem tengjast tengslum barna við foreldra. Svo koma munir og sögur tengd æskuástum og unglingsárunum og svo færast sögurnar lengra inn í fullorðinsárin.

„Fólk sendir safninu muni með stuttum sögum. Það er oftast einn munur og þú getur lesið söguna sem fylgir honum. Það borgar sig að taka sér góðan tíma á safninu því mann langar að lesa allar sögurnar þegar maður sér munina,“ segir hún.

„Sögurnar verða erfiðari og erfiðari eftir því sem þær færast lengra inn í fullorðinsárin og fólk er kannski að deyja eða það eru komin flókin fjölskyldusamskipti og annað slíkt. Í lokin er svo bók þar sem fólk getur skrifað sínar eigin sögur. Það gera það flest allir því maður opnast svo tilfinningalega af að vera þarna inni. Þetta er svo látlaust og fallegt safn sem kveikir hjá manni mikla tilfinningu þegar maður er þar inni.“

MYND/MARE MILIN, MUSEUM OF BROKEN RELATIONSHIPS

Fyndnar og tilfinningaþrungnar

Munirnir á safninu eru alls konar. Allt frá barnaleikföngum upp í hælaskó frá vændiskonum. Alls kyns litlir hlutir sem höfðu einhverja merkingu í tengslum sendandans við annað fólk, ekki bara ástarsamband heldur líka annars konar tengsl og sambönd sem höfðu rofnað. Ingibjörg minnist á eina sérstaklega eftirminnilega sögu sem hún las á safninu.

„Sagan var frá konu sem hafði átt í ástarsambandi við yngri mann. Hann hafði sent henni brennda geisladiska, svona eins og fólk gerði í gamla daga, þegar ég var ung,“ segir hún og hlær.

„Konan sendi safninu geisladiskana því hún ákvað að slíta sambandinu svo maðurinn gæti eignast fjölskyldu, en hún gat ekki veitt honum það. Börnin hennar vissu ekki af þessu sambandi og hún vildi ekki að þau vissu af því. Þess vegna sendi hún safninu geisladiskana,“ heldur hún áfram.

„Sumar sögurnar voru svona eins og þessi, mjög tilfinningaþrungnar, en svo voru aðrar bara fyndnar, eins og körfuboltabúningur og við hann stóð: He was a player.“ (Sem má þýða sem: Hann var leikmaður, eða einhver sem spilar með tilfinningar). Ingibjörg segir að safnið flakki einnig á milli landa með gestasýningar þar sem þau fá send ógrynni af munum sem ná aldrei inn á sjálft safnið í Zagreb.

„Ég sé ekki eftir að hafa látið draga mig inn á þetta safn. Þetta var óvæntasta uppgötvunin mín í þessari ferð og klárlega það sem ég man best eftir. Ég mæli með að fólk kíki á það ef það á ferð um Zagreb. En Zagreb er líka alveg dásamleg borg á hvaða árstíma sem er og alveg heimsóknarinnar virði.“

MYND/MARE MILIN, MUSEUM OF BROKEN RELATIONSHIPS
MYND/NATAŠA NJEGOVANOVIC, MUSEUM OF BROKEN RELATIONSHIPS