„Ég sé ekki rökin í því að leyfa á­fengi en vera síðan í harðri bar­áttu gegn kanna­bis­efnum, til dæmis. I don´t get it,” segir tón­listar­maðurinn Emm­sjé Gauti í við­tali í nýjum pod­cast-þætti Sölva Tryggva­sonar.

Tölu­verð um­ræða hefur verið um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta fíkni­efna upp á síð­kastið, en frum­varp Pírata um þetta var fellt á Al­þingi í vikunni. Snerist frum­varpið í grófum dráttum um að á­fram verði refsað fyrir inn­flutning, sölu og fram­leiðslu fíkni­efna en þeim sem nota efnin verði ekki refsað.

Í við­talinu við Sölva fer Emm­sjé Gauti um víðan völl og ræðir meðal annars um af­glæpa­fæðingu neyslu­skammta. Hann segir fá­rán­legt að enn sé horft á fíkni­efna­neyt­endur sem glæpa­menn en ekki veikt fólk. Þá segir hann löngu úr­elt að glíma við hlutina með þessum hætti og að á­stæðan fyrir því að svo mikill greinar­munur sé gerður á á­fengi og öðrum efnum sé fyrst og fremst vegna þess að á­fengi sé sam­fé­lags­lega viður­kennt.

Gauti bætir við að hann taki hvorugt efnið í dag og þessi skoðun hans hafi ekkert með hann sjálfan að gera. Varðandi á­fengið og á­stæðu þess að það sé ekki sett undir sama hatt og fíkni­efni segir hann:

„Við erum meira og minna öll háð þessu efni á ein­hvern átt og viljum þess vegna ekki að þetta sé tekið af okkur.”

Þá tekur hann skýrt fram að hann sé alls ekki hrifinn af fíkni­efnum, en kveðst þó al­gjör­lega sann­færður um að glæpa­væðing efnanna sé löngu úr­elt leið til þess að eiga við vandann.

„Ég vildi óska þess að það þyrfti enginn að nota fíkni­efni…en ég held til dæmis að það sé aug­ljóst að þú lagir ekki sprautu­fíkil með því að hand­taka hann og færa hann í fanga­geymslu,” segir Gauti í við­talinu við Sölva.

Í við­talinu ræða Sölvi og Gauti meðal annars um tón­listina, kvíða­tíma­bilið sem hann gekk í gegnum, trúar­brögð, guð og skoðana­kúgun. Út­gáfu­tón­leikar Gauta eru 18. júlí.

Hér má hlusta á viðtal Sölva við Gauta á Spotify.