Tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson, greinir frá því að Emmsjé Gauti hafi orðið tuttugu ára nú á föstudaginn.

„Síðasti föstudagur var merkilegur fyrir mig en þá voru liðin tuttugu ár síðan ég kom fram í fyrsta skipti opinberlega sem MC Gauti,“ segir rapparinn í færslu sinni. „Ég er þakklátur fyrir alla þá sem hjálpuðu mér að gera þetta litla hobbý að veruleika og seinna meir að svo miklu stærri hlutum.“

Gauti hefur verið vinsæll og afkastamikill í íslensku tónlistarlífi en hann hefur alls gefið frá sér átta plötur. Sú fyrsta, Bara ég, var gefin út 2011 en sú síðasta, MOLD, kom út í fyrra.

„Jú ég held það nú,“ svarar Gauti spurður út í hvort tuttugu ár sé ekki hár starfsaldur fyrir rappara. „Ég hef verið að gera upp við mig hvort maður byrji að telja ferilinn þarna eða þegar maður fór að gefa út plötur. Þetta er svona eins og ef píanóleikari myndi byrja að telja þegar hann fór fyrst á æfingu.“

Fagnaðarhöldin yfir tímamótunum voru þó frekar lágstemmd.

„Ég spilaði tvö gigg en þess á milli er ég aðallega búinn að vera að leira með börnunum,“ segir hann og hlær. „Leira og skjótast til að sækja brauðið.“

Tuttugu árunum verður svo fagnað almennilega á næsta ári.

„Eina ástæðan fyrir því að ég sé ekki að gera það núna eru Jülevenner sýningin í desember, því ég vil ekki fara að keppa við sjálfan mig. En fyrripartinn á næsta ári stefni ég á að fagna þessu með giggi sem verður með aðeins öðru sniði en undanfarið. Mig langar að kafa aðeins dýpra og taka fyrir einhver lög sem hafa svolítið gleymst.“

Julevenner lestinni má fylgja á Facebook-síðu viðburðarins.