Bandaríski fréttamiðillinn The New York Post heldur því fram að þrjátíu og eins árs gamla ofurfyrirsætan Emily Ratajkowski sé að skilja við kvikmyndagerðarmanninn Sebastian Bear-McClard, eftir þrálátar sögusagnir af framhjáhaldi hans.

Þá segir jafnframt að hann hafi þrábeðið hana um fyrirgefningu og sættir. Heimildarmaður bandaríska blaðsins telur það þó ekki líklegt þar sem sífellt fleiri sögur séu nú að koma upp á yfirborðið eftir að málið komst í fjölmiðla fyrir mánuði síðan.

Tíu ára aldursmunur er á parinu sem gifti sig við fábrotna borgaralega athöfn árið 2018 tveimur vikum eftir fyrsta stefnumótið, en þó höfðu þau þekkst lengi fyrir þann tíma. Þau eignuðust soninn Sylvester í fyrra.

Fyrir þremur vikum birtu fjölmiðlar vestanhafs myndir af Ratajkowski án giftingarhringsins. Þá notaði hún Twitter-reikning sinn til að líka við færslur annarra notenda, þar sem sagt var að skilnaðurinn væri það besta sem gæti komið fyrir hana.

Eiginmaðurinn, eða hugsanlega verðandi fyrrverandi eiginmaðurinn, ber þó ennþá sinn hring og þykir það renna stoðum undir sögur af yfirvofandi skilnaði.

Ratajkowski hefur getið sér gott orð fyrir ritstörf samhliða fyrirsætustörfunum og fyrsta bók hennar, greinasafnið My Body, komst á topp metsölulista í Bandaríkjunum. Þar rekur fyrirsætan ferilinn og kryfur á einlægan máta vægi fegurðar og frægðar í nútímasamfélagi.