Cassandra Peterson, sem er heimsfræg fyrir persónu sína myrkvadrottninguna Elvíru, kemur út sem hinsegin í nýrri ævisögu sem heitir Yours Cruelly, Elvira: Memories of the Mistress of the Dark.

Þar greinir Cassandra frá því að hún hafi verið í sambandi við fyrrverandi aðstoðarkonu sína, Teresu Wierson, í nær 19 ár. Leikkonan skildi við tónlistarmanninn Mark Pierson árið 2003 og byrjaði þá með Teresu en hún féll fyrir henni eftir bíóferð. Segist hún hafa flýtt sér heim og ekki getað hætt að hugsa um hana: „Ég bauð henni góða nótt og fann allt í einu fyrir einhverri þörf til að kyssa hana á munninn,“ lýsir Cassandra í bók sinni.

Leikkonan segist hafa haldið sambandinu leyndu vegna þess að hún var kyntákn og hafði áhyggjur af því að stór hluti aðdáenda hennar myndu missa áhugann á henni. Þótt hún sé nú þegar ákveðið íkon í hinsegin menningu þá sé stærsti hluti aðdáenda hennar gagnkynhneigðir karlmenn.

„Ég hafði áhyggjur af ferli mínum og var hrædd um að aðdáendur mínir myndu yfirgefa mig ef ég væri ekki lengur að lifa „gagnkynhneigða lífinu“,“ skrifaði hún.

Cassandra Peterson hefur leikið Elvíru frá árinu 1981.

Cassandra sló fyrst í gegn sem hryllingsmynda kynnirinn Elvíra í bandarísku sjónvarpi þar sem hún lá eða sat á rauðum flauel sófa í ögrandi svörtum kjól og kynnti áhorfendum fyrir B-myndum í þáttaröðinni Elvira's Movie Macabre.

Elvíra fór úr því að vera þekkt sjónvarpspersóna yfir í nokkurs konar goðsögn og hefur verið gert mikið grín að henni meðal annars í The Simpsons. Hún hefur gefið út bækur, kvikmyndir, tölvuleiki og túrað um allan heim með burlesque sýningu.

Booberella í Simpsons er byggð á Elvíru.