Tón­listar­maðurinn ást­sæli Sir Elton John hefur neyðst til að fresta tón­leika­ferða­lagi sem til stóð að hæfist síðar á árinu. Á­stæðan er meiðsli sem hann hlaut á mjöðm er hann „féll klaufa­lega“ í sumar að því er fram kemur í yfir­lýsingu frá Sir Elton.

„Ég neyðist til að fresta með sorg í hjarta,“ sagði Sir Elton en til stóð að tón­leika­ferða­lagið The Farewell Yellow Brick Road færi af stað innan skamms með tón­leikum í London. Þaðan ætlaði hann að ferðast um Bret­land, Skot­land og Norður-Ír­land. Tónleikaferðalaginu hefur verið frestað til ársins 2023.

Á­stæða frestunarinnar er „klaufa­legt fall“ Sir Elton.

„Við lok sumar­frís míns féll ég klaufa­lega á hart yfir­borð og hef þjáðst tals­vert og kennt mér meins í mjöðminni síðan. Þrátt fyrir að undir­gangast með­ferð hjá sjúkra­þjálfurum og sér­fræðingum hefur sárs­aukinn versnað og leitt til vaxandi vanda­mála við hreyfingu. Mér hefur verið ráð­lagt að fara í að­gerð eins fljótt og auðið er til að koma mér aftur til fullrar heilsu og tryggja að það verði engar lang­tíma­af­leiðingar,“ segir í yfir­lýsingunni.