Elton John opnar sig í ævisögu sinni um vikurnar sem leiddu til þess að hann ákvað að leita sér hjálpar við fíkn sinni. Hann segir frá tveggja vikna tímabili þar sem hann dvaldi einn í leiguhúsnæði og tók gríðarlegt magn af kókaíni og drakk viskí.

„Í þau örfáu skipti sem ég borðaði eitthvað á meðan þessu stóð fór ég og kastaði upp á eftir. Ég svaraði ekki í síma. Ég svaraði ekki ef einhver bankaði á dyrnar hjá mér. Ég fór ekki í sturtu og klæddi mig ekki í föt. Þetta var ógeðslegt," lýsir poppstjarnan í ævisögunni sem ber titilinn, Me.

Hann segist hafa verið svo hræddur um að taka of stóran skammt eða fá hjartaáfall að hann fór í áfengis- og vímuefnameðferð að fylleríinu loknu. „Ég uppgötvaði að ef ég myndi halda áfram, myndi ég annað hvort taka of stóran skammt og deyja eða fá hjartaáfall og deyja. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að lifa lífinu, en ég vissi það að ég vildi ekki deyja."

Vímuefnavandi Eltons var gerður að umfjöllunarefni í kvikmyndinni Rocket Man sem fjallar um ævi poppstjörnunnar. Í ævisögunni er neyslu Eltons gerð frekari skil.

Hann segist hafa prófað kókaín í fyrsta skipti árið 1974, en hefur nú verið edrú í rúmlega 29 ár líkt og hann deildi með fylgjendum sínum á Instagram á dögunum.