Fréttakonan Sunna Karen Sigurþórsdóttir hefur sjálf dregið í efa að hún verðskuldi nafnbótina Sakamála-Sunna en hverfandi líkur eru þó á því að hún losni við hana í bráð, þar sem hún fylgir nú þáttunum Ummerki eftir með nýrri sex þátta röð sem nefnist Ofsóknir og þar beinir hún sjónum sínum að eltihrellum.

Sunna Karen hefur á áralöngum blaðamannsferli fjallað heilmikið um dóms- og lögreglumál en segir aðspurð að þrátt fyrir það hafi komið henni á óvart hversu algengt vandamál eltihrellar eru. „Ekki síst með sívaxandi notkun á samfélagsmiðlum, þar sem fólk getur auðveldlega hrellt aðra til dæmis í skjóli nafnleyndar.

Ummerki um ofsóknir

Það kom líka á óvart að sjá hversu algengar ofsóknir eru í nánum samböndum, að einstaklingar séu að ofsækja og hrella eigin maka. Sá hópur, auk fyrrverandi maka, er stærsti og hættulegasti hópur eltihrella,“ segir Sunna og bætir við að þessir rati þó síður upp á yfirborðið. „Því fólk veigrar sér við því að segja frá, líkt og með annað heimilisofbeldi, sem þó hefur hægt og rólega verið að breytast.“

Sunna fjallaði um raunveruleg íslensk sakamál í Ummerkjum í vetur og hún er tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir handrit þeirra auk þess sem þættirnir fengu tilnefningu sem frétta- og viðtalsþáttur síðasta árs. „Það var heldur betur ánægjulegt. Og óvænt,“ segir Sunna um tilnefningarnar tvær.

„Við lögðum gríðarlega vinnu í að gera þættina áhugaverða en fyrst og fremst vandaða, enda um afar viðkvæm málefni að ræða, og þess vegna gleðilegt að sjá að það hefur komist til skila,“ segir Sunna, en það var einmitt síðla sumars við gerð Ummerkja sem Lúðvík Páll, framleiðandi þáttanna, bar hugmyndina að Ofsóknum undir Sunnu.

Gríðarlegt áreiti

„Hann gerði það þegar hann tók eftir því að ég var að verða fyrir gríðarlegu áreiti af hálfu ókunnugs manns, sem hringdi viðstöðulaust á nær öllum tímum sólarhrings,“ segir Sunna, sem spurðist fyrir um eltihrelli sinn og komst að því að hann glímdi við veikindi en væri meinlaus.

„Ég hafði þess vegna engar sérstakar áhyggjur af þessu. Þótt maður þurfi vissulega að hafa varann á. Þetta var fyrst og fremst pirrandi og farið að trufla okkur í vinnunni, en þegar ég leitaði ráða um hvernig ég ætti að bregðast við þessu var fátt um svör.“

Sunna segir að þau hafi að vissu leyti mótað hugmyndina að þáttunum út frá þessu. „Því fólk sem verður fyrir ofsóknum getur illa brugðist við þeim, enda hafa engin lög verið til í kringum ofbeldi af þessum toga.

Ekki eins og í bíó

Eltihrellar eru oft bara venjulegt fólk sem mætir í vinnu á morgnana og eldar mat ofan í börnin á kvöldin. Það er engin sérstök staðalímynd af eltihrellum og þetta eru ekkert endilega vinalausir „lónerar“ eins og við sjáum í bíómyndunum.“

Talandi um bíómyndir þá segir Sunna sumt sem fram kemur í þáttunum eiginlega vera lyginni líkast. „Við heyrum ótrúlegar og sláandi sögur af einhverju sem maður sér almennt bara í bíómyndum.

Til dæmis er rætt við prest í þjóðkirkjunni sem hefur þurft að þola gríðarlegar ofsóknir af hendi fyrrverandi maka. Hann fór til dæmis með hana til útlanda, tók af henni síma og kort og læsti hana inni í íbúðinni, svo aðeins fáein atriði séu nefnd.“

Aldrei aftur

Sunna Karen segir þennan viðmælanda sinn ekki hafa getað lifað venjulegu lífi árum saman. „Og þótt hún sé laus í dag, fimmtán árum eftir að hún kynntist honum, fylgist hann alltaf með lífi hennar.

Þessi kona er algjörlega mögnuð og það er ótrúlegt að heyra hvernig hún hefur náð að koma lífi sínu á strik, að upplifa jákvæðni hennar og bjartsýni og hvernig hún ætlar aldrei aftur að leyfa manninum að ná yfirhöndinni yfir sér. Hún hefur loks náð að taka völdin og ætlar aldrei að missa þau aftur.“

Fyrsti þáttur Ofsókna er sýndur á Stöð 2 klukkan 20.00 að kvöldi annars dags páska.