„Ég hafði enga reynslu í leik eða dansi en ég æfði alltaf handbolta. Það má segja að leiklistarbakterían hafi kviknað þegar ég lék aðalhlutverk í skólaleikriti í Danmörku,“ segir Alba og móðir hennar, Elísabet Gunnarsdóttir, bætir við að dóttirin hæfileikaríka hafði þá aðeins búið í Danmörku í þrjá mánuði.

Alba Mist hefur komið víða við á stuttri ævi og hefur alist upp víða um Evrópu, þar sem pabbi hennar, Gunnar Steinn Jónsson, var atvinnumaður í handbolta. Þannig var hún aðeins þriggja mánaða þegar fjölskyldan flutti til Svíþjóðar og hefur síðan þá einnig búið í Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku.

„Ég talaði öll tungumálin en tala núna dönsku og sænsku þar sem ég var svo lítil þegar ég bjó í Frakklandi og Þýskalandi,“ segir Alba.

Meiri töffari en mamma

Elísabet lýsir dóttur sinni sem sjálfstæðum töffara. „Hún hefur alltaf verið ófeimin og talað við alla.“

Tíðir flutningar á milli landa með tilheyrandi skólaskiptum og nýjum og nýjum vinum hafa, ef að líkum lætur, þroskað Ölbu Mist og ýtt undir sjálfstæði hennar.

„Það þarf ansi sterkan karakter til að tækla þetta svona vel,“ segir Elísabet.

Alba var stödd á Íslandi í haustfríi hjá ömmu sinni og afa þegar hún komst óvænt áfram í prufunum.

„Leikstjórinn hringdi í mig til Danmerkur og bað um leyfi fyrir því að hún yrði með í leikritinu, þar sem hann vissi að við byggjum í Danmörku. Við foreldrarnir vildum ekki taka þetta frá henni. Þetta fór svo ekki alveg eins og á horfðist þegar kórónuveiran skall á, þau máttu ekki sýna en gátu æft. Frumsýningin frestaðist og óvissan um hvenær við gætum hitt hana var mikil.“

Alba, Gunnar Manuel og Elísabet við Þjóðleikhúsið.
mynd/aðsend

Elísabet reyndi að fá Ölbu Mist til Danmerkur en öllum bókuðum flugferðum var aflýst jafnóðum. „Þetta var í fyrsta skipti í tólf ár sem við fundum mikið fyrir því að við bjuggum í útlöndum, þar sem við höfum alltaf verið dugleg að koma heim,“ upplýsir Elísabet.

„Um páskana var sett upp neyðar­flug til Stokkhólms og þá tók yndisleg fjölskylda Ölbu með sér til Suður-Svíþjóðar og við keyrðum frá Danmörku til Kristianstad í Svíþjóð, sem er gamli heimabærinn okkar. Þar náðum við loksins að fá hana til okkar. Það voru miklir fagnaðarfundir og eftirminnilegir páskar.“

Eftir það var Alba í faðmi fjölskyldunnar í Danmörku og kláraði skólann þar. Nú í vor hóf hún íslenska skólagöngu og hefur þetta verið langt og strangt ferli þar til þau fluttu öll saman heim í sumar.

Kominn tími á pabba

Fjögurra manna fjölskyldan bjó um tíma dreifð í þremur löndum, sem Elísabet segir að hafið verið orðið ansi einmanalegt. „Það var alls ekki í plönunum að flytja heim en hún náði að draga fjölskylduna með sér.“

„Það var kominn tími til að pabbi myndi elta mig,“ bætir Alba Mist við glettin, með vísan til þess að ferill pabba hennar hefur lengst af ráðið för.

Eru að venjast Íslandi

Fjölskyldan keypti nýlega hús í Skerjafirði sem þau eru hægt og rólega að gera upp. „Þetta tekur allt tíma og mér finnst mjög skrítið að segjast búa á Íslandi eftir öll þessi ár. Við ætlum allavega að reyna að prófa að búa á Íslandi en mamman er aðeins að melta þetta. Ég hefði örugglega ekkert komið heim eftir öll þess ár nema ég hefði verið dregin svona,“ segir Elísabet.

Alba Mist, sem dró fjölskylduna til Íslands, hefur sjálf í nógu að snúast þessa dagana. Líklega mun fleiru en margir jafnaldrar hennar, en á milli þess sem hún er í leikhúsinu æfir hún handbolta með Val og er í 6. bekk í Álftamýrarskóla. „Það er nóg að gera en þetta virðist virka,“ segir Elísabet.

„Hópurinn er geggjaður, allir krakkarnir eru svo góðir vinir, skemmtilegir og opnir. Við erum tólf börn, sem maður hittist oftast, í hverjum hóp í sýningunum,“ upplýsir Alba og bætir við að það séu sýningar hjá henni allar helgar en þó aðeins annan hvorn daginn.