Auður er búsett í Bandaríkjunum og hefur starfað við húsgagnamálun í rúmlega sex ár.

„Ég byrjaði að setja myndir af því sem ég hef verið að gera inn á Skreytum hús fyrir tveimur árum. Vinkona mín benti mér á síðuna og sagði mér að sýna fólki á Íslandi hvað ég væri að gera. Fólk er misheillað auðvitað enda eru menn með ólíkan smekk. Það er þó alltaf gaman að fá jákvæð viðbrögð við því sem maður er að gera og það heldur mér við efnið. Svo eru auðvitað alltaf einhverjar gagnrýnisraddir sem segja að það megi alls ekki mála yfir viðinn. Við þeim segi ég nú bara að þetta er það sem ég geri. Ég mála húsgögn. Svona hefur þetta alltaf verið hjá mér. Ef eitthvað húsgagn fær að standa nógu lengi hjá mér þá mun ég mála það. Stundum grínast ég við krakkana mína að ef þau sitja of lengi í sófanum þá muni þau standa upp aftur með eina umferð af málningu á sér,“ segir Auður og hlær.

Auður Elísabet V. Williams hefur málað og selt húsgögn í ellefu ár en segist tilbúin að leita á ný mið. Hún mun þó líklega aldrei hætta að mála fyrir sjálfa sig.
Mynd/Aðsend.

Ekki til í orðaforðanum

Auður segist alla sína ævi hafa verið dugleg að breyta til heima hjá sér. Á Íslandi leigði hún, keypti og flutti á víxl og bjó sjaldan lengi á sama stað. Þá málaði hún ógrynnin öll af veggjum í hinum ýmsu litum til að tóna við litríkan persónuleika.

„Svo þegar ég var orðin ánægð, þá var kominn tími til að flytja,“ segir Auður kankvís.

Auður byrjaði fyrst að þreifa fyrir sér í húsgagnamálun á Íslandi, keypti akrýlmálningu og málaði innréttingar og annað.

„Mamma hafði alltaf gert mikið sjálf svo ætli ég hafi þetta ekki frá henni. Þó svo ég vissi ekkert hvað ég var að gera, þá var setningin „Ég get þetta ekki“ einfaldlega ekki til í orðaforðanum. Ég óð í verkið og lærði af mistökunum. Ég hef tekið eftir að fólk virðist hrætt við að taka upp pensilinn og mála. Þá segi ég „þetta er bara málning“. Ef þetta er vatnsmálning en ekki olíulakk eða önnur meira varanleg efni þá er besta ráðið að ganga bara í verkið. Sjálf nota ég sjaldan olíulakk. Stundum nota ég viðarvörn eða gel-bæs með olíu en oftast nota ég efni með engum eiturefnum. Maður lærir á að gera. Þetta tekur vissulega tíma og vinnu og kannski gerir þú mistök, og þá lærirðu af þeim og það er alltaf hægt að laga. Ef útkoman er góð þá er þetta þess virði. Ég elska að sjá eitthvað ljótt verða að einhverju fallegu.“

Þó svo ég vissi ekkert hvað ég var að gera, þá var setningin „Ég get þetta ekki“ einfaldlega ekki til í orðaforðanum. Ég óð í verkið og lærði af mistökunum.

Hér má sjá húsgagn fyrir meðferð hjá Auði.
Mynd/Aðsend.
Hér má sjá skenkinn eftir að Auður málaði umferð og notaði sérstakan „bone-inlay“ stensil til þess að líkja eftir ígreyptu beinamynstri.
Mynd/Aðsend.
Mynd/Aðsend.

Flökkukind

Auður segist vera mikil flökkukind og hefur búið erlendis í að verða sextán ár.

„Fyrst flutti ég til Noregs í sex mánuði og kom aftur til Íslands. Svo fór ég til Bretlands ‘96 og var þar í þrjú ár. Næst fór ég rúmlega fertug í innanhússhönnunarnám í IADT í Kanada 2005 og var með þeim eldri í náminu. Ég gleymi aldrei þeim tíma enda var þetta æðislegur tími og ég kynntist mikið af góðu fólki. Námið var strembið en þetta var ævintýri út af fyrir sig. Eftir fjögur til fimm ár flutti ég aftur til Bretlands og svo til Spánar í þrjú ár áður en ég settist að hér í Norður-Karólínu í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni Raleigh.“

Hér má sjá tvö falleg náttborð sem Auður gerði upp og seldi nær samstundis.
Mynd/Aðsend.

Paradís fyrir antík húsgögn

Auður byrjaði fyrir alvöru að mála og selja húsgögn á eBay þegar hún flutti fyrst til Englands fyrir ellefu árum síðan og kynntist kalkmálningunni frá Annie Sloan.

„Þegar ég flutti út hafði ég ekki efni á að kaupa mér ný húsgögn svo ég þræddi flóamarkaðina. England er alger paradís fyrir antík og gömul húsgögn og það er gott fyrir umhverfið að endurnýta gamla hluti. Þegar upp er staðið eru eldri húsgögn líka miklu betur gerð en margt sem fæst í dag. Eins og þegar skúffur og framstykki í kommóðum eru geirnegld en ekki negld saman eða skrúfuð. Þú sérð þetta bara í nýjum húsgögnum sem eru rándýr. Ef eitthvað er vel gert í dag, kostar það formúu. Ég horfði á mörg leiðbeiningarmyndbönd á netinu og leitaði í innblástur þaðan. Svo byrjaði ég að kaupa og mála og selja aftur á eBay til að bjarga mér. Þetta var mikil vinna en vel þess virði og ég lærði mikið af nýrri tækni á þessum tíma. Sköpunarferlið er skemmtilegt og krefjandi. Stundum stend ég fyrir framan húsgagn og veit ekkert hvað ég á að gera. Svo fæ ég innblástur einhvers staðar frá og sé fyrir mér lokaútkomuna. Síðan rennur þetta allt saman þegar ég byrja og í lokin er þetta orðið að einhverju allt öðru. Ég hætti aldrei fyrr en ég er orðin ánægð.“

Þegar upp er staðið eru eldri húsgögn líka miklu betur gerð en margt sem fæst í dag. Ef eitthvað er vel gert í dag, kostar það formúu.

Þessi skenkur fékk rómantíska yfirhalningu í höndum Auðar.
Mynd/Aðsend.

Fólkið þekkir handbragðið

Auður flutti nær tómhent til Bandaríkjanna fyrir sex og hálfu ári síðan.

„Þetta er hálfgert met, enda hef ég hvergi búið jafnlengi í einu húsnæði eins og núna. Ég byrjaði fyrst að vinna í húsgagnaverslun. Þá var ég í hinu og þessu og hélt áfram að gera upp gömul húsgögn og selja. Það fór svo að ég leigði mér pláss til að selja húsgögnin. Því miður var ekki mikil umferð í búðina og leigan var dýr svo nú sel ég húsgögnin á tveimur stöðum hér í Bandaríkjunum. Einum hér í heimabænum og öðrum við ströndina í Wilmington.“

Auður segir marga í Bandaríkjunum gera upp gömul húsgögn og selja, en viðskiptavinir þekkja handbragð hennar enda leggur hún meiri metnað í sínar mublur en margir aðrir.

„Enda get ég líka selt mín húsgögn dýrara en flestir aðrir í þessum bransa. Ég mála til dæmis alltaf á skúffuhliðarnar og þegar þú opnar skúffurnar birtist mynstur eða mynd. Til dæmis má nefna Flamingo-kommóðuna sem ég málaði í björtum ferskjubleikum lit og blandaði með ljósari lit til að fá meiri dýpt. Svo setti ég rendur á hliðina og með transferaðferð lét ég lauf og pálmablöð hrynja niður kommóðuna. Svo málaði ég hana að innan í túrkís og setti flamingófugl á milli pálmatrjánna á hliðarnar á skúffunum. Þessi var mikið uppáhald hjá mér og seldist eftir sex daga.“

Hér er flamingó kommóðan fræga sem seldist eftir aðeins sex daga.
Mynd/Aðsend.
Eins og sjá má stendur ekkert yfirborð eftir óskreytt eftir meðhöndlun Auðar. Útkoman er ævintýraleg.
Mynd/Aðsend.

„Annað uppáhald var kommóða sem ég kalla Lady Chest, en sú er með mynd framan á af 18. aldar konu í gulum kjól með fugl. Ég byrjaði á því að pússa alveg niður í viðinn og málaði svo með málningu þar sem viðurinn sést í gegn. Svo pantaði ég myndina af konunni á Etsy og lét senda mér í vissum gæðum og stærð til að hún passaði fullkomlega á kommóðuna. Svo klippti ég hana niður og setti á framhliðarnar á skúffunum, pússaði aftur niður og lakkaði. Það tók langan tíma að selja þessa og ég skildi ekki af hverju enda þótti mér vænt um hana. Svo einn daginn dúkkaði upp maður sem féll fyrir kommóðunni og keypti hana á staðnum.“

Lafðin í gula kjólnum heillaði kaupandann upp úr skónum.
Mynd/Aðsend.

Setur penslana á hilluna en hættir seint að mála

Að sögn þykir Auði þetta rosalega skemmtilegt en það er eins og með allt; þegar verkefnin hanga yfir manni hætta þau að vera skemmtileg.

„Það er gaman að vinna að einu til tveimur stykkjum í frístundum, en þegar maður er kominn með mörg stykki í vinnslu til að standa undir leigukostnaði fer gamanið að grána. Fólk er heldur ekki að kaupa húsgögn á hverjum einasta degi.

Nú finnst mér kominn tími til að setja penslana á hilluna og hætta að mála húsgögn. Gallinn við að vera að vinna hjá sjálfum sér er að það er svo auðvelt að falla í þá gildru að gefa sér ekki nægan frítíma. Þannig líður mér núna. Ég hef varla farið í ræktina eftir að ég byrjaði að selja húsgögn hér í Ameríku. Þetta á að vera skemmtilegt en ekki kvöð. Þetta er líka gríðarleg vinna og efniskostnaður fyrir ekkert rosalega mikinn hagnað. Ég hef aldrei verið hrædd við vinnu, en ef ég væri að fá aðeins meira upp úr þessu þá myndi ég halda þessu áfram. Nú langar mig til þess að losa mig við allt sem ég á í skúrnum og leita á ný mið. Ég er búin að ákveða að ég ætla að taka meiraprófið í maí og keyra trukk Ameríkuna endilanga. Þetta er vel borgað og ég fæ í rauninni frítt ferðalag í kaupbæti. Öll börnin mín eru flutt út og flökkukindin er farin að láta heyra í sér. Það er beðið eftir bílstjórum og þú getur verið búinn að fá vinnu áður en þú klárar prófið.

Sumir hafa sagt mér að ég eigi að gera youTube-myndbönd eða halda námskeið á Íslandi. Það getur vel verið að ég geri það einhvern tímann en nú langar mig að huga að sjálfri mér. Ég hætti samt örugglega aldrei að mála húsgögn og þegar ég fæ mér nýtt húsnæði þá fer ég að sjálfsögðu að mála fyrir sjálfa mig.“

Gallinn við að vera að vinna hjá sjálfum sér er að það er svo auðvelt að falla í þá gildru að gefa sér ekki nægan frítíma. Þannig líður mér núna.

Mynd/Aðsend.
Mynd/Aðsend.
Mynd/Aðsend.
Mynd/Aðsend.
Auður hefur einnig tekið heilu borðstofusettin í gegn.
Mynd/Aðsend.