„Mér finnst skemmtilegast að hlaupa í Heiðmörk en ég elska líka að hlaupa berfættur á grasvöllunum í Fagralundi og fyrir aftan Fífuna. Það er algjör fílingur og besta æfing fyrir kálfa, iljar og ökkla sem fyrirfinnst,“ segir Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum.

Arnar er fæddur og uppalinn í Kópavogi en á líka ættir að rekja til Borgarfjarðar eystri.

„Þar eigum við Snotrunes á einum fegursta stað landsins og þaðan hef ég frá barnæsku hlaupið Neshlaupið, sem er ættarhlaup, sirka þriggja kílómetra leið að Bakkagerði þangað sem Jón afi minn og systkini hans hlupu í skólann. Snotrunes er fyrsti bærinn þegar komið er inn úr skriðunum og útbæingar höfðu orð á sér fyrir að vera miklir hlauparar. Það minnir á sögur frá Afríku þar sem bestu hlaupararnir voru þeir sem hlupu lengstu vegalengdina til og frá skóla,“ segir Arnar.

Sjálfur fór Arnar að hlaupa til verðlauna þegar mamma hans dró hann með sér í hlaup.

„Ég æfði bæði körfubolta og fótbolta og var í öllum yngri landsliðunum í körfubolta og Íslandsmeistari í fótbolta. Ég gat því aldrei séð fyrir mér að hlaupa nema eltandi bolta, en þegar ég fór að mæta á hlaupaæfingar og fræðast meira um sportið opnaðist fjölbreyttari heimur en mig grunaði. Í Hlaupabókinni, sem ég gaf út 2019, er einmitt fyrsta setningin: „Hlaup er einfaldasta íþrótt í heimi,“ en svo fylgja 416 blaðsíður af alls kyns fróðleik um hlaup. Hlaup eru því miklu meira en maður heldur.“

Byltingarkennd uppgötvun

Arnar er með fjórar háskólagráður á sviði hagfræði og viðskiptafræði, þar af þrjár meistaragráður. Í dag er hann einn eigenda nýsköpunarfyrirtækisins Driftline sem gert hefur tímamótauppgötvun á mælingu þols með íslenska hlaupaappinu Runmaker.

„Líffræðingurinn Agnar Steinarsson fékk mig til liðs við sig en hann hefur rannsakað þol í yfir tuttugu ár og uppgötvað fyrstu líffræðilegu og vísindalegu mælieininguna á þoli á skalanum 0-100 prósent, sem hingað til hefur ekki verið mælanleg með einföldum hætti,“ útskýrir Arnar.

Driftline hefur nú þegar fengið jákvæða afgreiðslu frá Evrópsku einkaleyfastofunni um alþjóðlegt einkaleyfi á uppfinningunni.

„Þetta er byltingarkennd uppgötvun sem gefur mun ítarlegri upplýsingar en ef framkvæmd væru flókin, krefjandi og óhagkvæm þolpróf á rannsóknarstofu, og það með aðeins einfaldan púlsmæli eða hlaupaúr að vopni. Við getum nú greint hjartsláttarmælingar og reiknað út æfingaþröskulda, hámarkspúls og hámarkshraða hlaupara út frá einu rólegu hlaupi eða göngu,“ upplýsir Arnar.

Driftline hefur verið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík til að sannreyna þolmælingarnar.

„Verkefninu er ekki alveg lokið en fyrstu niðurstöður benda til þess að við getum gert sömu mælingar og rannsóknarstofa gerir með þessum einfalda hætti. Í fyrstu fannst mér það hljóma of gott til að vera satt, en ég er heppinn að Agnar og teymið í Driftline hafði áhuga á að vinna með mér og nota mína þekkingu, og með sameiginlegri þekkingu getum við skapað heiminum eitthvað til góðs. Það er virkilega gaman að vinna við það sem maður elskar og verður spennandi að fara með það lengra því möguleikarnir eru miklir og geta sagt til um hjartaheilsu, sem skiptir miklu fyrir lífsgæði fólks, nýtist líka fyrir endurhæfingu og að gera eins góð hlaupa- og hjólaprógrömm og unnt er.“

Arnar ráðleggur öllum sem vilja ná árangri í hlaupum að fá hlaupaþjálfun. Það skili hraðari framförum á léttari hátt. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Hlaupin hafa gefið það besta í lífinu

Arnar segir hlaup gefa sér mikla lífsfyllingu.

„Á hlaupum upplifi ég mikinn léttleika og frelsistilfinningu þegar mér finnst ég geta hlaupið endalaust í fagurri náttúru. Hlaupin hafa gefið mér allt það besta sem ég hef upplifað í lífinu; hreyfing skapar vellíðan og hagfræðilega séð spara hlaup tíma því í góðum hlaupatúr getur maður skipulagt daginn og farið hagkvæmar í gegnum hann. Hlaup hafa líka gefið mér tækifæri til að gefa af mér. Þegar ég byrjaði að þjálfa bjóst ég ekki við hversu gefandi það yrði að sjá árangur annarra og hef ég margoft komið fyrstur í mark en samt upplifað miklu meiri gleði við að sjá þá sem ég hef þjálfað bæta sig og ná tíma sem þeir trúðu ekki að þeir næðu í upphafi. Ég held að það sé vegna þess að ég tengi svo vel við framfarir þeirra og gleðina sem fylgir, ég þekki svo vel tilfinninguna og að upplifa hana í gegnum þau er ótrúlega gaman.“

Sem einn vinsælasti hlaupaþjálfari landsins segist Arnar alltaf mæla með hlaupaþjálfun, ætli fólk sér að ná árangri og eiga létt með að hlaupa.

„Það geta auðvitað allir reimað á sig strigaskó, farið út að hlaupa og náð framförum, en þá er tímaspursmál hvenær þeir rekast á vegg og hætta að taka framförum. Því skiptir miklu að taka réttar hlaupaæfingar á réttum hlaupahraða og í Driftline getum við séð þol hlauparans og gefið honum réttar hlaupaæfingar sem gefa framfarir á auðveldasta mátann. Með réttri nálgun verður það merkilega auðvelt og mun árangursríkara en fyrir þann sem pínir sig á hverri einustu æfingu. Ef árangri skal náð er um að gera vera óragur og viljugur að biðja um hjálp. Það gerði ég sjálfur þegar ég byrjaði að hlaupa.“

Arnar æfir nú tvisvar á dag flesta daga og hleypur 110 til 160 kílómetra á viku auk þess að taka nauðsynlegar styrktaræfingar. Fram undan er meðal annars Íslandsmót í frjálsum íþróttum, Evrópubikarkeppni landsliða og maraþon þegar haustar.

„Á endanum geta allir hlaupið en til að byrja með, fyrstu fjórar til sex vikurnar, skiptir mestu að fara nógu hægt af stað og í flestum tilvikum þýðir það labb til að koma hreyfingu inn í rútínuna. Það er sjaldnast tilfellið að fólk standi upp úr sófanum og rjúki beint út að hlaupa. Sjálfur labba ég upp allar brekkur eftir þriggja vikna hreyfingarleysi eftir æfingatímabil, því það er rétt að gera. Formið kemur ekki strax en það kemur á réttan máta án þess að þvinga það fram. Annars verða hlaupin erfið og leiðinleg, og því nennir enginn til lengdar.“ n

Fylgist með Arnari á arnarpeturs.com og á Instagram @arnarpeturs