Matarbloggið Elisabets food corner fór í loftið á Instagram í sumar. Það er Elísabet Ósk Sigurðardóttir sem stendur á bak við það en hún hefur búið í Danmörku síðan 1996 og er síðan því á dönsku.

„Ég hef lengi haft áhuga á matargerð og breyti til dæmis öllum uppskriftum sem ég nota. Áhugi minn á matargerð jókst enn frekar þegar ég hóf að elda fyrir móður mína og stjúpföður daglega í tvö ár. Á þeim tíma glímdi móður mín oft við mikla ógleði vegna lyfjameðferðar. Það hjálpaði henni stundum að koma smá mat niður ef ég gerði matinn litríkari og girnilegri á diskinum.“

Elisabets food corner er tileinkuð móður hennar sem féll frá 2019.

„Hún hefði svo sannarlega elskað að fylgjast með mér halda áfram að þróa mig í matargerð og þróa síðuna mína enn frekar á Insta­gram.“

Á þessum tíma hóf hún líka meiri tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

„Þær tilraunir enduðu oft með öðruvísi hugmyndum, eins og að búa til rasp úr kartöflu- og gulrótarskræli ásamt brauði. Raspið notaði ég svo til að elda hrísgrjónakúlur úr afgöngum af hrísgrjónum sem ég átti, en þá uppskrift má finna á síðunni.“

Spínatvaffla með reyktum laxi og kavíar-dressingu hljómar spennandi.

Alltaf vinsæl í eldhúsinu

Hún segist enga menntun hafa eða starfsreynslu þegar kemur að matargerð.

„En maturinn minn hefur alltaf verið vinsæll hjá öllum sem hafa borðað hjá mér, bæði ættingjum og vinum. Undanfarin ár hafa ættingjar, vinir og jafnvel fólk sem ég þekki ekki, en hefur séð matinn minn á matarsíðum á Facebook, verið að þrýsta á mig að setja upp einhvers konar matarsíðu á Instagram.“

Einn daginn nennti sonur hennar ekki að bíða lengur eftir frumkvæði frá henni. Hann fékk símann lánaðan hjá henni, bjó til síðuna og þannig byrjaði þetta allt saman.

„Þau sem þekkja mig vita að ég elska þegar ég get gefið öðrum innblástur og hugmyndir í sambandi við mat og sparnað. Instagram og Facebook eru fullkominn vettvangur til að dreifa því meira en bara á meðal minna nánustu.“

Elísabet segist aldrei hafa átt von á miklum vinsældum síðunnar en í dag hefur hún rúmlega fimm þúsund fylgjendur eftir að hafa verið í loftinu í nokkra mánuði.

Gulrótarsúpa er frábær og ódýr kostur þegar taka þarf til í grænmetisskúffunni.

Stuttur eldunartími

Inn á Elisabets food corner reynir hún að birta uppskriftir sem sameina það að vera ódýrar, hollar og auðveldar.

„Stundum lauma ég inn uppskriftum sem eru aðeins í dýrari kantinum. Ég nota mikið grænmeti, bæði til að drýgja kjötið og gera uppskriftirnar hollari. Margar þessara uppskrifta þarfnast lítils undirbúnings og eldunartíminn er stuttur, jafnvel bara fimmtán mínútur, sem hentar til dæmis barnafjölskyldum vel og tímabundnu fólki. Einnig birti ég talsvert af uppskriftum þar sem ég nota Airfryer sem er mjög vinsælt núna.“

Mjög hagsýn í matargerð

Utan Elisabets food corner heldur Elísabet líka úti Facebook-síðunni Ódýrar mataruppskriftir og sparnaðarráð.

„Ég hef alltaf verið þekkt fyrir að vera ótrúlega hagsýn þegar kemur að matargerð og öllu öðru. Í mörg ár hef ég tekið út ákveðna upphæð vikulega sem þarf að duga fyrir mat og öðrum innkaupum þá vikuna, sem endar oft í keppni hjá mér að spara meira en vikuna á undan. Á þessari Facebook-síðu deili ég sparnaðarhugmyndum mínum og ódýrum uppskriftum.“

Matarverð hefur farið hækkandi víða í heiminum undanfarin ár og er Danmörk engin undantekning.

„Á þessum tímum, með hækkandi verði á flestöllu, mun ég fókusa enn meira á sparnað og hagsýni í matargerð og um leið í hversdagslífinu. Á næstu mánuðum stefni ég á að setja inn fleiri baksturs-, haust- og vetraruppskriftir. Súpur eru til dæmis frábær möguleiki þegar taka þarf til í grænmetisskúffunni og elda mat sem er bæði hollur og ódýr og auk þess með fáum hráefnum.“

Hægt er skoða ódýrar og hollar uppskriftir á Instagram (elisabetsfoodcorner) en þar er hægt að þýða uppskriftir úr dönsku yfir á ensku. Inn á Facebook (Ódýrar mataruppskriftir og sparnaðarráð) má jafnframt finna gagnleg sparnaðarráð.