Shashika er gift Lakmal sem er einnig frá Sri Lanka og eiga þau einn son sem er tveggja og hálfs árs. Hjónin fluttu til Ástralíu eftir að þau giftu sig en sneru aftur til Íslands árið 2018. Shashika hefur unnið á Lemon í Hafnarfirði í tæp 5 ár. Að hennar sögn er Lemon eins og annað heimili hennar, stjórnendur fyrirtækisins hafa reynst henni vel og henni finnst skemmtilegt að taka á móti viðskiptavinum Lemon í Hafnarfirði. Hún er farin að þekkja marga hverja því fastagestirnir eru margir.

Shashika vinnur á Lemon

„Mér finnst frábært að vera hluti af fyrirtækinu og sjá það vaxa og dafna,“ segir Shashika. Hún á stóran þátt í uppbyggingu fyrirtækisins. Með sinni einstöku nærveru og góðri þjónustu hefur hún skapað einstakt andrúmsloft á staðnum.

Gaman að leika í snjónum með syninum

Shashika elskar að búa á Íslandi en hugsar samt oft til heimalandsins. „Ég elska allt við Ísland, fallega landslagið og stórbrotna náttúran veitir mér svo mikla hamingju. Hér er gott að búa og mikið öryggi. Mér finnst gaman að leika mér í snjónum með syni mínum og finna fyrir kalda loftinu en auðvitað sakna ég stundum Sri Lanka. Ég á ættinga og vini þar sem ég sakna og því höfum við fjölskyldan reynt að fara í heimsókn að minnsta kosti annað hvert ár. Ástandið í Sri Lanka er mjög slæmt núna, en landið er gjaldþrota og efnahagur landsins er í molum," segir hún.

Fjölskylda Shashiku hefur reynt eftir fremsta megni að veita þá aðstoð sem þau geta. Í síðustu heimsókn sinni til landsins, í apríl sl., þá útbjuggu þau matarpoka sem þau dreifðu til fólksins í gamla hverfinu sínu. Eftir að þau komu heim til Íslands þá hafa þau sent mánaðarlega út fjárstuðning til kaupa á nauðsynjavörum og látið dreifa á þá staði í Sri Lanka sem mest þurfa á því að halda.

Fjölskyldan -22-07-18-34377-Resize.jpg

Stundar garðyrkju og elskar að elda

Shashika elskar að elda mat og er uppáhaldið hennar karrí réttur frá Sri Lanka með hrísgrjónum sem hún eldar mjög oft fyrir fjölskylduna sína í bland við hefðbundin vestrænan mat. „Fjölskyldan mín er mjög samheldin og við reynum að hittast sem oftast, borðum saman og eigum góðar stundir. Við höfum ferðast mikið um Ísland, fórum sem dæmi í dagsferð til Vestmannaeyja í byrjun júlí. Við vorum dolfallin yfir fegurð eyjunnar og munum klárlega heimsækja Vestmannaeyjar aftur,“ segir Shashika. Í frítíma sínum stundar hún garðyrkju og henni finnst skemmtilegt að skoða og pæla í innanhúss hönnun enda er með eindæmum smart heima hjá henni.

„Ég er stolt af því að vera í Lemon fjölskyldunni og hlakka til að vera þátttakandi í stækkun fyrirtækisins á næstu misserum“, segir Shashika að lokum.