Jonathan eða Jono eins og hann er kallaður talar gjarnan um sjálfan sig sem eina samkynhneigða ástralska uppistandarann á Íslandi. Hann frumsýndi á miðvikudagskvöldið uppistandssýninguna I‘m Tired, eða Ég er þreyttur. Sýningin er hluti af Reykjavík Fringe hátíðinni sem lýkur núna um helgina. Sýningin er auglýst sem mögulega síðasta uppistandssýning Jono.

En hvernig stendur á því að uppistandari frá Ástralíu flytur til Íslands af öllum stöðum?

„Mér var sagt upp eftir næstum tíu ára samband. Ég var ekki viss hvað ég ætti að gera, ég vissi bara að ég vildi komast í burtu frá Ástralíu og skoða heiminn aðeins. Þannig að ég ferðaðist um Evrópu og síðasta stoppið mitt var hér á Íslandi,“ útskýrir Jono.

Hann gisti hjá vini sínum og hugsaði með sér að stoppa í svona mánuð. Síðan eru liðin fimm ár. Jono segir að það hafi alls ekki verið erfitt að aðlagast lífinu í svona köldu landi.

„Það elska ekki allir frá heitum löndum hitann. Mér finnst hlýir dagar góðir eins og öllum öðrum, en ég kem frá stað þar sem er yfir 40 stiga hiti sex mánuði ársins. Ég upplifði það í 30 ár svo ég held ég hafi fengið nóg. Mér líkar kuldinn. Mér finnst ég meira skapandi á veturna en á sumrin og mér finnst snjórinn alltaf töfrandi.“

Hélt ég væri bestur í öllu

Á síðasta ári mætti segja að Jono hafi lifað draum allra uppistandara. Hann ferðaðist um Evrópu ásamt Hugleiki Dagsyni með uppistandssýningu og var stöðugt bókaður á Íslandi. Þetta var eitthvað sem hann hafði dreymt um frá því hann var rúmlega tvítugur en Jono verður 35 ára á árinu. En í lýsingunni á uppistandssýningunni I‘m Tired, sem er sýnd í Tjarnarbíó um helgina, segir að hann hafi áttað sig á því að þetta væri kannski ekki draumurinn lengur.

„Síðasta ár var æðislegt! En svo í lok ársins þá byrjaði ég að skrifa nýja sýningu og var alveg hugmyndalaus. Það var þá sem ég byrjaði að efast um að ég vildi halda þessu áfram. Á síðustu fimm árum hef ég samið klukkutíma af nýju efni árlega. Það eru fimm ólíkar uppistandssýningar og allt í einu var ég orðin uppgefinn og leiður á sjálfum mér. Ég var orðin þreyttur á að þurfa alltaf að vera að auglýsa mig og fullvissa fólk um að ég væri hér ennþá. Ég íhugaði þess vegna að taka mér hlé. Svo kom Covid og ég missti allar bókanirnar mínar út árið svo ég hugsaði að kannski væri það tákn um að ég ætti að hætta,“ segir Jono.

Eini samkynhneigði ástralski uppistandarinn á Íslandi er mögulega að hætta. Eða taka sér hlé. En fyrst kveður hann með einlægu uppistandi.

Hann segir þó að hann sé ekki viss um hvað hann myndi gera ef hann væri ekki uppistandari því það hefur verið draumurinn svo lengi. Hann kom fyrst fram með uppstand í Ástralíu 19 ára gamall. Þá var hann að læra leiklist og var sannfærður um að hann vissi allt um heiminn.

„Ég hefði átt að vera stressaður en ég var það ekki því ég var viss um að ég væri bestur í öllu. Ég var samt virkilega lélegur. Það tók langan tíma að verða góður. Núna verð ég stressaður fyrir sýningar. en það er ekki sviðsskrekkur. Mér er bara mjög annt um það sem ég er að gera og ég vil að áhorfendurnir skemmti sér. Þetta er svipað og að halda óvænta veislu fyrir einhvern sem þér þykir vænt um. Þú ert spenntur en líka hræddur um að eitthvað fari úrskeiðis.“

Vildi verða alvörugefinn leikari í kvikmyndum

Frá því Jono var krakki hefur hann haft unun af því að fá fólk til að hlæja.

„Ég var feitur krakki sem gekk vel í skóla og augljóslega samkynhneigður, þó ég hafi ekki vitað það þá, brandarar voru því góð vörn. Fólk var alltaf að segja mér að ég væri fyndinn. En ég vildi leika aðalhlutverkið í kvikmyndum. Ég vildi vera alvörugefinn leikari. Ég áttaði mig svo á því að þó ég gæti gert bæði, leikið gamanhlutverk og alvarleg hlutverk þá var meiri vinnu að fá í gamanleik þannig að ég færðist meira í þá átt. Ég væri samt ennþá til í að gera bæði.“

Á sýningum sínum gerir Jono gjarnan grín að sjálfum sér og hvernig hlutirnir koma honum fyrir sjónir.

„Ég byrja alltaf að horfa á sjálfan mig því ég held það hjálpi áhorfendunum að sjá að ég er ekki ónæmur. Ég held ég hafi alltaf gert þetta af því ég ólst upp með systur með þroskahömlun. Börn eru grimmustu mannverurnar á jörðinni og ég man að ég reyndi að fá þau til að horfa á hlutina frá hennar sjónarhorni til að fá þau til að hætta að vera vond. Það hjálpaði alltaf ef ég gat fengið þau til að hlæja í leiðinni,“ útskýrir Jono.

Nýjasta uppistandið hans Jono fjallar um að hann sé þreyttur.

„Ef ég ætla að kvarta undan einhverju þá vil ég að áhorfendur viti að ég gagnrýni sjálfan mig á sama hátt. Á sýningunum mínum hef ég talað um hluti eins og að vera útlendingur á Íslandi, að vera samkynhneigður, að eiga ekki börn og vera sáttur við það, fjölskylduna mína, stefnumót, hitt og þetta. Ef ég ætti að skilgreina grínið mitt þá get ég sagt að stundum tek ég fyrir hluti sem áhorfendurnir vita kannski ekki mikið um og fræði þá í gegnum grín. Það vita til dæmis ekki allir hvernig það er að fara á stefnumót sem samkynhneigður maður á fertugsaldri, ég gerði heila sýningu um það, þannig að ég geri grín að því og kannski læra áhorfendurnir eitthvað í leiðinni.“

Íslendingar kunna að hlæja að sjálfum sér

Jono er kannski þekktastur á Íslandi fyrir grín sitt um það hvernig hann sér Íslendinga með augum útlendings. Brandarinn hans um hvernig íslenska orðið hilla hljómar eins og ónefndur sögufrægur maður sem var foringi Þýskalands í seinni heimstyrjöldinni er til dæmis löngu orðinn frægur.

„Þessi brandari bókstaflega borgaði leiguna mína í tvö ár. Svo það mætti segja að Íslendingar kunni að hlæja að sjálfum sér. Ég mundi segja að Íslendingar séu mjög hrifnir af því þegar útlendingar gefa sér tíma til að kynnast sérkennum þeirra og gera grín að þeim. Þessir brandarar hafa bara móðgað eina manneskju af þeim þúsundum sem hafa heyrt þá. Ég vona að hún lesi þetta og sjái að það var hún sem var húmorslaus og öllum öðrum fannst þetta drepfyndið.“

Jono segir að sýningarnar hans hafi þróast mikið undanfarið ár. „Þær eru ekki bara klukkutíma langur brandari. Ég er orðin berskjaldaðri í sýningunum og er það í nýju sýningunni líka. En í grunninn er þetta samt grín,“ segir hann.

Jono segir fyrstu sýninguna af I‘m tired hafa gengið mjög vel og hann áttaði sig á því að hann hefur ennþá gaman af að skemmta fólki en það er samt óvíst hvort hægt verði að sjá hann sýna uppistand á Íslandi aftur.

„Ég er ennþá þreyttur og ég verð að leggja mig. Þannig að ef þið hafið elskað það sem ég hef gert áður, eða hafið misst af því, þá verðið þið að kaupa miða núna strax!“