Heiðdís Rós er 32 ára gömul, fædd og uppalin í Garðabænum en hefur verið búsett erlendis um árabil.

„Ég er förðunarfræðingur, áhrifavaldur og Snapchatter. Ég er búin að búa í Bandaríkjunum í ellefu ár, átti heima í Los Angeles en flutti til Miami, Flórída, fyrir ári síðan,“ segir Heiðdís.

„Ég elska allt sem snýr að tísku, innanhússarkitektúr, lúxuslífsstíl og list.“

Ólíkir litir og mynstur

Heiðdís hefur haft mikinn áhuga á tísku frá því að hún var unglingur en segir fatastíl sinn hafa breyst töluvert í gegnum tíðina. „Ég er mjög mikið að blanda saman ólíkum litum og mynstrum og finnst mjög gaman að vera öðruvísi en aðrir,“ segir hún.

„Ég held ég hafi byrjað að spá meira í tískuna eftir að ég flutti til Bandaríkjanna. Ég skoða mikið tískutímarit og aðra áhrifavalda en ég myndi lýsa stílnum mínum sem „classy“, kynþokkafullum og fáguðum. Ég elska til dæmis að klæðast fallegum litríkum kjólum eða pilsi og „crop top“ með fallegum áberandi jakka.“

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Ég á margar flíkur sem ég held upp á en ég held að Balmain-jakkinn minn sé einn af mínum uppáhalds því hann er svo sérstakur en ég á líka marga fallega kjóla sem eru í uppáhaldi.“

Heiðdís klæðist gjarnan pilsi og jakka í stíl sem fer henni ákaflega vel. MYND/AÐSEND

Elskar að kaupa einstök föt

Blaðakona spyr Heiðdísi hvaðan hún fái helst innblástur. „Ég fæ nú bara innblásturinn frá sjálfri mér en ég elska líka tískuna í Gossip Girl þáttunum hérna í gamla daga, sérstaklega hjá söguhetjunni Blair Waldorf. En ég elska líka stílinn hennar Kylie Jenner,“ svarar hún.

„Ég kaupi voða mikið fötin mín á netinu og svo á ég líka nokkrar boutique búðir í Miami og NYC þar sem ég hef fengið mín fallegustu föt sem enginn annar á. Ég elska að kaupa föt sem eru einstök því ég er ekki mikið fyrir að ganga í sömu fötum og aðrir. Ég er rosa hrifin af öllu frá Chanel og Balmain.“

Eyðirðu miklu í föt?

„Já, ég eyði mikið í föt en þau eru ekki alltaf dýr, ég kaupi frekar í magni því ég er ein af þeim sem eru kannski í flíkinni einu sinni eða tvisvar.“

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku og útliti?

„Ég er mjög sjálfsörugg þannig að ég myndi ekki segja að ég sé með veikleika. Mér finnst gaman að vera vel til höfð með hár, sólbrúnku, neglur og tísku á hreinu.“

Heiðdís geislar af sjálfsöryggi. MYND/AÐSEND

Notarðu fylgihluti og skart?

„Ég var meira að nota fylgihluti í gamla daga en fötin mín eru oftast mjög áberandi og svo er ég bara með látlausa fylgihluti, kannski stundum belti.“

Hvernig hugsarðu um húðina og hárið?

„Ég er ein af þeim heppnu sem eru með mjög góða húð. Ég reyni að nota andlitsmaska tvisvar í viku og nota gott rakakrem. Ég þríf á mér hárið einu sinni, stundum tvisvar í viku og svo nota ég þurr­sjampó á milli.“

Allir í Miami í augnablikinu

Það er nóg um að vera hjá Heiðdísi. „Á þessu ári stefni ég að alls konar verkefnum en ég er núna að vinna sem VIP-gestgjafi þar sem ég leigi út snekkjur, „exotic“ húsnæði, „exotic“ bíla og borð á flottustu stöðunum í Miami.“

Ljóst er að Heiðdís er á réttri hillu í lífinu. „Það er virkilega gaman og ég hitti mjög mikið af fólki. Það er rosalega mikið að gera og ég þéna vel því það eru allir í Miami í augnablikinu. Ég hef líka verið að vinna að ýmsum skemmtilegum verkefnum sem ég er svaka spennt fyrir og ekki síst að deila með fylgjendum mínum.“

Hún saknar þó heimalandsins og þá sérstaklega ákveðinna hluta. „Ég sakna Íslands, aðallega foreldra minna og vina. Síðan sakna ég líka Bæjarins bestu og langlokuristar.“

Áhugasamir geta fylgst með lífi og ævintýrum Heiðdísar á Instagram undir: hrosmakeup og á Snapchat