Elon Musk opin­beraði það að hann sé með Asper­ger heil­kenni í grín­þættinum Satur­day Night Live eða SNL. Suður-Afríski auð­jöfurinn og at­hafna­maðurinn var gesta­stjórnandi í nýjasta þætti SNL sem sýndur var í gær. Þetta er talið vera í fyrsta sinn sem Musk segir frá þessu á opin­berum vett­vangi.

„Ég er að brjóta blað í sögunni í kvöld sem fyrsta manneskjan með Asper­ger sem er gesta­stjórnandi SNL. Eða alla­vega sú fyrsta til að viður­kenna það,“ sagði Musk í upp­hafs­ræðu þáttarins og hlaut dynjandi lófa­tak á­horf­enda fyrir.

Musk, sem er stofnandi tækni­fyrir­tækjanna Tesla og SpaceX, lék auk þess í ýmsum grín­at­riðum í þættinum, þar á meðal einu sem fjallaði um Ís­land.

„Ég tala ekki alltaf með miklu hljóm­falli eða ó­líkum á­herslum og mér hefur verið sagt að það skapi mjög gott grín,“ sagði Musk í upp­hafs­ræðunni.

Nafn sonarins eins og „köttur að hlaupa yfir lykla­borð“

Sumir hafa þó lýst efa­semdum sínum um um­mæli Musk á sam­fé­lags­miðlum og bent á að grín­istinn Dan A­kroyd, sem er bæði með Tourette og Asper­ger, hafi áður verið gesta­stjórnandi SNL.

Elon Musk er með yfir 53 milljónir fylgj­enda á Twitter og hefur í­trekað komist í hann krappan og jafn­vel verið hótað mál­sóknum vegna notkunar sinnar á sam­fé­lags­miðlinum. Hann grínaðist með Twitter notkun sína í SNL þættinum.

„Ég veit að ég segi stundum og pósta skrýtnum hlutum, en það er bara þannig sem heilinn minn virkar. Ég vil bara segja við alla þá sem ég hef móðgað, ég endur­hannaði raf­bíla og ég er að fara að senda fólk til Mars í geim­skipi. Hélduð þið virki­lega að ég væri bara venju­legur og slakur ná­ungi?“ sagði Musk.

Hann grínaðist líka með nafn sonar síns og popp­stjörnunnar Gri­mes sem fæddist í fyrra og heitir því sér­kenni­lega nafni X Æ A-12.

„Það er borið fram eins og köttur að hlaupa yfir lykla­borð,“ sagði Musk.