Fjöl­miðla­konan og list­málarinn Ellý Ár­manns­dóttir var úr­skurðuð gjald­þrota í dag. Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Ellý hafa verið að bíða eftir gjald­þrotinu. Fjár­hags­vand­ræði hennar eiga rætur sínar að rekja til skilnaðar árið 2017.

„Ég missti allt. Ég var í skilnaði og það var allt skrifað á mig. Síðan þá er ég búin að vera bíða eftir að þetta fari í gegn. Ég reyndi að mála upp í skuldina, ég reyndi að klóra mig upp á bakkann en það var ekki hægt. Ég náði því ekki,“ segir Ellý og bætir við að þetta sé eigin­lega á­stæðan fyrir því að hún hafi byrjað að mála á sínum tíma.

Fjár­hags­vand­ræðin tóku mikið á Ellý á sínum tíma og reikaði hugur hennar á dimma staði eftir að hún og fyrrverandi eigin­maður hennar misstu húsið.

„Mig langaði að hengja mig á sínum tíma. Þetta er satt. Ég er alveg hrein­skilin með það en það er það sem fólk fer í gegnum. En ég veit í dag að þetta var ekki mér að kenna,“ segir Ellý sem horfir nú hins vegar fram á veginn. „En svo hugsaði ég „nei ég ætla ekki að láta þetta buga mig.“

Ellý segist hafa talið sig getað samið við bankann. „En þeir voru ekki fyrir það og ég reyndi og reyndi og lagði mig virki­lega fram við það en núna er þetta loksins farið í gegn.“

„Það tekur enginn andar­dráttinn minn frá mér“

Ellý er nú trú­lofuð Hlyni Jakobs­syni en segist ekki ætla að gifta sig fyrr en þessu ferli er lokið.

„Ég bý inn á honum. Ég missti auð­vitað allt en ég er bara núna að mála og halda á­fram og í rauninni er svo­lítið kald­hæðnis­legt að ég gleymi vanda­málunum þegar ég mála. Það eru margir í mínum sporum sem hafa haft sam­band,“ segir hún og bætir við að það sé mikil­vægt að tala um svona hluti því hún vill alls ekki vera í skömminni.

„Þetta var húsið, við misstum bæði vinnuna, við skildum, þetta var hel­víti. En ég horfi fram á við. Ég bara sé ljósið og horfi fram á við. En það er alltaf stutt í það að maður brotnar þegar maður er einn.“

Ellý segir hins vegar brött að lokum að það sé ekki hægt að taka allt af henni. „Bankinn tók húsið, reikningunum mínum lokað og ég má ekki eiga neitt í tvö ár en það tekur enginn andar­dráttinn minn frá mér,“ segir Ellý Ármanns..