Bandaríska sjónvarpskonan Elizabeth Chambers er í áfalli yfir fregnum af meintu mannáti fyrrverandi eiginmanns síns, Armie Hammer.

Chambers og Hammer voru gift í 10 ár og eiga saman tvö börn. Ef marka má færslur sem hafa birst um fyrrverandi eiginmann hennar hélt hann framhjá henni ítrekað eftir að þau gengu í það heilaga. Þau skildu í september í fyrra.

Leikarinn Armie Hammer hefur látið lítið á sér bera eftir að Instagram notandinn House of Effie birti skjáskot af skilaboðum frá leikaranum um að hann væri mannæta þar sem hann lýsti því að hann vildi drekka blóð kvenna og beita þær ofbeldi. Nafnið hans fór á flug um samfélagsmiðla og var það númer eitt á lista yfir vinsælasta viðfangsefnið á Twitter í nokkra daga. Komu sumir honum til varnar og sökuðu netverjar um að blætiskömmun.

Í til­kynningu sagðist Hammer ekki ætla að tjá sig um skila­boðin, um sé að ræða algjört bull. „Ég mun ekki svara þessum fá­rán­legu stað­hæfingum en í ljósi þessara ill­gjörnu net­á­rása gegn mér, get ég ekki með góðri sam­visku yfir­gefið börnin mín í fjóra mánuði til að taka upp kvik­mynd í Dóminíska lýð­veldinu,“ segir leikarinn.

Chambers er þó ekki á sama máli og dregur ekki í efa staðhæfingarnar sem hafa komið fram um fyrrverandi eiginmann sinn.

„Ég er í áfalli, í ástarsorg og algjörlega eyðilögð. Þrátt fyrir sorgina þá er ég að hlusta og ég ætla að halda áfram að hlusta og fræða sjálfa mig um þessi vandasömu mál. Ég áttaði mig ekki á því hvað ég vissi lítið. Ég styð þolendur ofbeldis og misnotkunar og biðla til þeirra sem hafa upplifað þennan sársauka til að leita sér stuðnings,“ skrifar Chambers. Hægt er að sjá færslu hennar í heild sinni hér fyrir neðan.