„Ég hef orðið mjög auðmjúk og hrærð yfir því hve margt fólk hefur komið út á götur til að fagna þessum áfanga með mér,“ segir Elísabet II Bretlandsdrottning í yfirlýsingu til bresku þjóðarinnar, nú þegar fjögurra daga hátíðarhöld vegna valdaafmæli hennar er að ljúka.
„Þegar kemur að því hvernig á að fagna 70 ára valdaafmæli, þá er engin handbók til. Þetta er það fyrsta,“ segir drottningin sem er 96 ára gömul og hefur ekki getað sótt alla viðburðina, vegna slappleika.

Oft fjarverandi en „er með í anda“
„Þótt ég hafi ekki mætt á alla viðburðina í eigin persónu, hef ég verið með ykkur í anda og verð áfram staðráðin í að þjóna ykkur eftir minni allra bestu getu og með stuðningi fjölskyldunnar,“ segir drottningin og bætir við:
„Kærleikurinn, gleðin og vináttan sem ég hef fundið þessa daga hefur orðið mér innblástur og ég vona að þessi endurnýjaða samheldni muni fylgja okkur langt inn í framtíðina.„
Og drottningin lýkur orðum sínum á þakklæti:
„Ég þakka ykkur einlæglega fyrir góðar óskir og fyrir þann þátt sem þið hafið átt í þessum gleðilegu hátíðarhöldum.“
“I have been humbled and deeply touched that so many people have taken to the streets to celebrate my Platinum Jubilee.”
— The Royal Family (@RoyalFamily) June 5, 2022
As the #PlatinumJubilee weekend draws to a close, Her Majesty has sent a thank you message to all those who have marked her 70 years as Queen. pic.twitter.com/eoZTcrTr6C
Birtist óvænt á svölunum í dag
Drottningin kom öllum á óvart fyrr í dag þegar hún steig óvænt út á svalir Buckinghamhallar, á síðasta degi hátíðarhaldanna.
Það hafði alls ekki verið auglýst að drottningin myndi sýna sig á svölum hallarinnar í dag og aðdáendur hennar þustu því að höllinni til að berja hana augum og heiðra hana, þegar hún lét óvænt sjá sig.
Drottningin hefur verið slöpp að undanförnu en hún er 96 ára gömul, því var gleðin jafnvel enn meiri hjá þegnum hennar, sem virðast alls ekki ætla að fá nóg af drottningunni, en hún er líklega vinsælasti meðlimur konungsfjölskyldunnar frá upphafi.
Af myndbandi hér fyrir neðan ber ekki á öðru en drottningin hafi orðið mjög hræð að sjá og heyra landa sína syngja God Save the Queen, henni til heilla og heiðurs.
Drottningin klæddist sínum uppáhaldslit, grænum og studdist við staf en bar sig vel og veifaði til nærstaddra.

Með henni á svölunum voru Karl krónprins með eiginkonu sinni Camillu, hertogahjónin Vilhjálmur og Katrín ásamt börnum þeirra, prinsunum Georg og Louis og prinsessunni Karlottu.
Athygli vakti hve sérstaklega hlýtt virðist á milli drottningarinnar og langömmubarnsins Georgs sem mun að óbreyttu erfa krúnuna.

