„Ég hef orðið mjög auð­mjúk og hrærð yfir því hve margt fólk hefur komið út á götur til að fagna þessum á­fanga með mér,“ segir Elísa­bet II Bret­lands­drottning í yfir­lýsingu til bresku þjóðarinnar, nú þegar fjögurra daga há­tíðar­höld vegna valda­af­mæli hennar er að ljúka.

„Þegar kemur að því hvernig á að fagna 70 ára valda­af­mæli, þá er engin hand­bók til. Þetta er það fyrsta,“ segir drottningin sem er 96 ára gömul og hefur ekki getað sótt alla við­burðina, vegna slapp­leika.

Drottningin kom út svalir í dag með sínu nánasta fólki, þeirra á meðal þremur erfðaprinsum.
Fréttablaðið/Getty

Oft fjarverandi en „er með í anda“

„Þótt ég hafi ekki mætt á alla við­burðina í eigin per­sónu, hef ég verið með ykkur í anda og verð á­fram stað­ráðin í að þjóna ykkur eftir minni allra bestu getu og með stuðningi fjöl­skyldunnar,“ segir drottningin og bætir við:

„Kær­leikurinn, gleðin og vin­áttan sem ég hef fundið þessa daga hefur orðið mér inn­blástur og ég vona að þessi endur­nýjaða sam­heldni muni fylgja okkur langt inn í fram­tíðina.„

Og drottningin lýkur orðum sínum á þakk­læti:

„Ég þakka ykkur ein­læg­lega fyrir góðar óskir og fyrir þann þátt sem þið hafið átt í þessum gleði­legu há­tíðar­höldum.“

Birtist óvænt á svölunum í dag

Drottningin kom öllum á óvart fyrr í dag þegar hún steig ó­vænt út á svalir Bucking­ham­hallar, á síðasta degi há­tíðar­haldanna.

Það hafði alls ekki verið aug­lýst að drottningin myndi sýna sig á svölum hallarinnar í dag og að­dá­endur hennar þustu því að höllinni til að berja hana augum og heiðra hana, þegar hún lét ó­vænt sjá sig.

Drottningin hefur verið slöpp að undanförnu en hún er 96 ára gömul, því var gleðin jafnvel enn meiri hjá þegnum hennar, sem virðast alls ekki ætla að fá nóg af drottningunni, en hún er líklega vinsælasti meðlimur konungsfjölskyldunnar frá upphafi.

Af mynd­bandi hér fyrir neðan ber ekki á öðru en drottningin hafi orðið mjög hræð að sjá og heyra landa sína syngja God Save the Qu­een, henni til heilla og heiðurs.

Drottningin klæddist sínum upp­á­halds­lit, grænum og studdist við staf en bar sig vel og veifaði til nær­staddra.

Karl Bretaprins og Camilla stigu á svalirnar með drottningunni.
Fréttablaðið/Getty

Með henni á svölunum voru Karl krón­prins með eigin­konu sinni Camillu, her­toga­hjónin Vil­hjálmur og Katrín á­samt börnum þeirra, prinsunum Georg og Louis og prinsessunni Kar­lottu.

At­hygli vakti hve sér­stak­lega hlýtt virðist á milli drottningarinnar og lang­ömmu­barnsins Georgs sem mun að ó­breyttu erfa krúnuna.

Sérstaklega hlýtt er á milli drottnginarinnar og Georg, elsta syni hertogahjónanna Vilhjálms og Katrínar.
Fréttablaðið/Getty
Georg er augljóslega hlýtt til langömmu sinnar.
Fréttablaðið/Getty