„Og þá stækkaði hjartað enn meira, þegar ég varð á einni nóttu forrík þriggja barna móðir, skrifar Elísabet Gunnars tískudrottning í einlægri færslu á Trendnet.

Það má með sanni segja að litla vogin mín hafi viljað hoppa með hraði í heiminn en ég rétt náði á spítalann áður en daman skaust í heiminn, í orðsins fyllstu. Ég á tvær fæðingasögur á undan þessari sem báðar voru langar, erfiðar og átakanlegar,“ upplýsir Elísabet um fæðingu dóttur sinnar á dögunum sem var afar frábrugðin hinum tveimur.

Konur eru magnaðar

„Ég er mjög þakklát kona og ber svo mikla virðingu fyrir öðrum konum sem ganga í gegnum þessa athöfn, VÁ hvað við erum geggjaðar – sterkar og stórkostlegar, það þarf sko ekkert að spara hrósin fyrir mæður,“ skrifar Elísabet og segist ekki hafa getað gert þetta án ljósmæðranna í öllum þremur fæðingunum.

Þá tekur hún fram að makinn ekki síður mikilvægur í ferlinu.

„Ég gæti ekki heldur gert þetta án makans mér við hlið, þó þeir geri “ekkert” eins og margir vilja meina, þá gerir Gunni allt í minni upplifun, þó það sé bara að halda í höndina á mér.“ Skrifar Elísabet um eiginmann sinn, Gunnar Stein Jónsson.