Hjúkrunar­fræðingurinn Elísa­bet Her­dísar Brynjars­dóttir rak upp stór augu þegar hún fékk sendar upp­lýsingar um ný­nema­vikuna í há­skólanum sem hún er að fara að hefja nám í.

Hún er á leiðinni í meistara­nám í Health Lea­ders­hip and Poli­cy við Uni­versity of British Columbia í Vancou­ver, Kanada. Það er greini­legt að Kanada­menn eru að­eins stífari í kröfum sínum um klæða­burð því Elísa­bet fékk sendar hvorki meira né minna en fimm blað­síðna hefti með leið­beiningum um dress­kóða! Elísa­bet greindi frá þessu á Face­book síðu sinni.

„Ég rak þó augun í að í fyrstu viku janúar, sem verður til­einkuð því að taka á móti ný­nemum eins og mér, hefur skýrt verið tekið fram í feit­letrun og stærri stöfum RECOMM­ENDED DRESS CODE. Bæði er beðið um business ca­su­al og business formal og með því fylgir 5 blað­síðna hefti með leið­beiningum um hvernig ég á að líta út. Ekki djók,“ skrifar hún.

Hér má sjá dæmi um þær kröfur um klæðaburð sem Uni­versity of British Columbia setur á nemendur sína.
Mynd/Facebook

Oftast í hettu­peysu og striga­skóm

Að sögn Elísa­betar saman­stendur fata­skápur hennar mest­megnis af þægi­legum flíkum á borð við hettu­peysur, striga­skó og gjarnan í fjöl­breyttum litum en sam­kvæmt heftinu frá skólanum eru slík föt flokkuð sem „NOT RECOMM­ENDED“.

Elísa­bet viður­kennir þó að kannski hafi hún komist að­eins of lengi upp með þessa mót­þróa­þrjósku­röskun sína hvað fata­val varðar.

„Nú stend ég því á dramatískum kross­götum í per­sónu­lega lífinu - á ég að láta undan og klæðast eftir hand­ritinu eða halda í mót­þróa­þrjósku­röskunina og vera NOT RECOMM­ENDED. Krísan er stór en eitt er víst - ég kann ekkert á svona og þarf örugg­lega hjálp næstu daga frá þeim sem kunna!“ skrifar Elísa­bet.

Að lokum biðlar hún til kunningja sinna sem eiga ein­hver föt sem falla undir kröfur skólans og liggja ó­hreyfð í skápum og skúffum að hafa endi­lega sam­band við sig.

Á­hugi á heil­brigðis­þjónustu jaðar­settra

Elísa­bet starfaði áður sem verk­efna­stjóri Frú Ragn­heiðar, skaða­minnkandi þjónustu Rauða Krossins, og segist hún ætla að nýta sér námið í Kanada til að læra meira um heil­brigðis­þjónustu fyrir jaðar­setta hópa.

„Ég er að fara í nám sem heitir Master of Health Lea­ders­hip and Poli­cy, og á­huga­svið mitt er heil­brigðis­þjónusta fyrir jaðar­setta hópa. Það eru margir færir hjúkrunar­fræðingar við há­skólann þarna úti sem hafa rann­sakað að­gengis­mál að heil­brigðis­þjónustu fyrir jaðar­setta hópa og hugsunin mín var að fá að læra af þeim bestu!“ segir hún.