Elísabet II Bretlandsdrotting á afmæli í dag og fagnar 96 árum. Hún mun halda upp á afmælið sitt ásamt fjölskyldum og vinum í sveitasetri fjölskyldunnar í Sandringham í Norfolk, Englandi.
Á Facebook-síðu konungsfjölskyldunnar var birt mynd af drottningunni ásamt tveimur hvítum hestum, tekin mánuði fyrr við Windsor kastala. Hestarnir heita Bybeck Katie og Bybeck Nightingale, samkvæmt færslunni.
Elísabet Alexandra Mary Windsor fæddist 21. apríl árið 1926. Hún er eldra barn Alberts prins og Elísabetar konu hans, sem síðar eignuðust dótturina Margréti.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu hyggst Elísabet dvelja í Wood Farm, bústað á sveitasetrinu sem hún og Filippus sóttu reglulega áður en hann lést fyrir aðeins meira en ári síðan.
Bretlandsdrottningin hefur þurft að draga úr opinberum skyldum undanfarið, eftir að hún þurfti að leggast inn á spítala í október. Hún hefur lítið sést opinberlega síðan þá.
Fyrr á árinu hélt Elísabet upp á sjötíu ár sem Bretlandsdrottning en enginn annar konungur eða drottning hefur setið jafn lengi við völd þar í landi.
Í tilefni af þeim merka áfanga á að gefa út Barbídúkku sem mun líta út eins og drottningin.
