Fyrirtækið Listval var stofnað fyrr á þessu ári af Elísabetu Ölmu Svendsen en það sérhæfir sig í miðlun myndlistar til almennings. Listval veitir einstaklingum og fyrirtækjum persónulega ráðgjöf varðandi val á myndlist og býður svo einnig upp á ráðgjöf við uppsetningu listaverka. Elísabet hefur góðan bakgrunn í hönnun enda hefur hún lengi starfað sem búningahönnuður og stílisti.

„Mig langaði alltaf að mennta mig meira í þeim geira en námið sem mig langaði mest í var ekki í boði hérlendis. Á þeim tíma var ég 21 árs og ólétt að eldri syni mínum svo það hentaði ekki alveg að fara erlendis í nám. Eftir fæðingarorlof skráði ég mig í listfræði og á þeirri vegferð sameinaðist áhugi minn á hinu sjónræna, hönnun og myndlist,“ segir Elísabet og bætir við að það sjónræna hafi í raun alltaf heillað hana og verið stór partur af henni. „Ég hef alla tíð laðast að fallegum munum og listaverkum og verið algjör safnari í mér.“

Elísabet Alma hengir upp verk eftir listamanninn Loja Höskuldsson
Mynd/Aðsend

Þörfin greinilega mikil

Eftir útskrift fór Elísabet að vinna í myndlistartengdum verkefnum og starfaði í galleríi en hún fann að hana langaði að skapa eitthvað nýtt.

„Ég hafði haft hugmyndina um Listval lengi í hausnum áður en ég loks ákvað að fara af stað með ráðgjöfina árið 2019. Ég vissi að þessa þjónustu vantaði á markaðinn hérlendis og fólk í kringum mig var mjög reglulega að hafa samband og biðja mig að mæla með einhverjum listamönnum og aðstoða sig við að staðsetja listaverk á heimilinu. Svo þörfin var greinilega mikil. Ég vissi að þetta væri nýnæmi á markaðnum og að þetta væri kostur sem bæði einstaklingar og fyrirtæki myndu nýta sér,“ segir hún.

Hvað þarf góður listrænn ráðgjafi að hafa til brunns að bera?

„Þekkingu á myndlist og gott auga.“

Verk eftir Lilý Erlu í Norr11.
Mynd/Aðsend

Áhrif listar vanmetin

Elísabet segir fólk vissulega vera með ólíkan smekk þegar kemur að myndlist, alveg eins og fólk er með ólíkan smekk á hvernig fatnaði það gengur í.

„Mitt starf snýr að því að kynnast stíl og smekk fólks og vinna svo út frá því. Auðvitað getur maður haft mikil áhrif en ég passa alltaf að hlusta á það sem kúnninn vill og hvað hentar stíl heimilisins.

Svo eru hins vegar sumir sem hafa ekki myndað sér skoðun á því hvernig myndlist þeir hafa smekk fyrir. Það er líka mjög gaman þegar maður getur aðstoðað fólk alveg frá þeim byrjunarreit.“

Upplifir þú að við mögulega vanmetum áhrif sem list hefur á líf okkar?

„Já, mjög margir veita hinu sjónræna og mikilvægi þess því miður of litla athygli og kannski vanmeta áhrifamátt þess. Góð myndlist getur haft mun meiri áhrif á okkur en okkur grunar. Þess vegna vil ég leggja mitt af mörkum til að fólk hafi góða myndlist í kringum sig daglega.“

Sýningin Lilýjar stendur út vikuna.
Mynd/Aðsend

Spennandi samstarf

Forsvarsmenn húsgagna- og lífsstílsverslunarinnar Norr11 höfðu samband við Elísabetu og fengu hana til að sjá um að velja inn listafólk og setja upp myndlistarsýningar í verslun þeirra á Hverfisgötu 18.

„Það hentaði mér mjög vel þar sem Listval er ekki með neina yfirbyggingu enn þá. Ég sé því um sýningar í rýminu á sex vikna fresti. Ég er mjög þakklát fyrir þetta samstarf og ég tel að það hjálpi bæði listinni sem þar er sýnd og jafnframt hönnuninni sem er í versluninni, þetta talar allt mjög vel saman,“ segir Elísabet. „Listamennirnir sem eru fram undan eru mjög ólíkir. Mér finnst mikilvægt að sýna breiðan þverskurð af senunni,“ bætir hún við.

Nú stendur yfir sýning á verkum Lilýjar Erlu Adamsdóttur í rúminu.

„Síðan verður opnuð sýning í Norr11 þann 12. desember með verkum eftir Áslaugu Írisi Friðjónsdóttur.“

Undanfarið hefur Elísabet fengið íslenskt listafólk til að taka yfir Instagram-aðgang Listvals.

„Ég hafði verið að fara reglulega í heimsóknir á vinnustofur listamanna til að taka upp efni fyrir Instagram-reikning Listvals. Þegar COVID-faraldurinn byrjaði í vor þá datt mér í hug að fá listamenn til að taka yfir aðganginn og sýna svipmyndir frá vinnudegi í lífi listamannsins. Þetta efni sló í gegn og er ég enn þá að birta þessar yfirtökur. Núna um helgina er það Elín Hansdóttir sem sýnir frá vinnuferli og verkum í vinnslu. Það er svo ótrúlega gaman að skyggnast inn í heim listamannanna og kynnast verkum þeirra betur.“

Hægt er fræðast nánar um Listval á listval.is og á Instagram-aðgangi undir sama nafni.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Farvegir – sýning Lilýjar Erlu Adamsdóttur

Lilý vinnur á mörkum myndlistar og hönnunar. Hún notar tufttækni þar sem hún skýtur þráðum í gegnum striga og skapar þannig lífrænar endurtekningar. Verkin einkennast af litum og formum sem hreyfast eins vatn eða gróður eftir myndfletinum og skapa annaðhvort kyrrð eða spennu. Yfirborð og áferð efniviðarins eru henni hugleikin en óræð formin eru merki um lífið sjálft og tákna samruna tveggja sjónarhorna.