Það er alltaf ánægjulegt þegar hingað rata sýningar á verkum framsækinna og spennandi myndlistarmanna. Í kvöld kl. 20 verður opnuð í aðalsal Listasafns Íslands sýning á verkum finnska ljósmyndarans Elinu Brotherus undir heitinu Leikreglur. Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir og hún segir að sýnd verði valin ljósmynda- og myndbandsverk frá árunum 2016 og 2017. „Þetta eru verk sem hafa aðeins verið sýnd í þremur listasöfnum áður, þar á meðal í Centre Pompidou í París, Það er því talsverður fengur fyrir okkur á safninu sem og auðvitað íslenska myndlistarunnendur að sjá ný verk þessarar merku listakonu á hátindi ferils hennar.“

Alltaf til staðar

Elina er fædd árið 1972 og þetta er í þriðja sinn sem verk hennar eru sýnd á Íslandi. Árið 2000 var einkasýning á verkum hennar í i8 Gallery en árið 2006 mátti sjá verk hennar á samsýningu í Gerðarsafni. Birta segir að Elina sé á meðal allra þekktustu listamanna á Norðurlöndum í hvaða miðlum sem er. „En í ljósmyndinni er hún ótvírætt á meðal þeirra allra helstu og hefur haft mikil áhrif og hefur enn enda ung kona.”

Eitt af því sem gerir verk hennar svo forvitnileg er að hún kemur fram í þeim öllum og hún hefur nær alltaf haft þann háttinn á. Hún notar sjálfa sig sem viðfangsefni en í seinni tíð hefur hún kosið að vinna með öðrum líka, þannig að hún er ekki alltaf ein á myndunum. Ferill hennar hófst strax um 1997 þegar hún útskrifaðist úr ljósmynda- og listnámi í Helsinki. Þá var hún farin að taka sjálfsmyndir og hún hefur bent á að hún hafi í raun ekki hugsað það þannig að hún væri að fjalla um sjálfa sig heldur hafi þetta komið til í fyrstu af praktískum ástæðum. Hún vildi einfaldlega getað unnið þegar hana langaði til þess og þá var líkami hennar sá sem var eðlilega alltaf til staðar til þess að vinna með.

Með tímanum fór hún í gegnum verk sín að ígrunda hvað það þýðir að ljósmynda sjálfa sig og hvaða merkingu það hefur fengið í hennar eigin lífi að endurspegla sig svona í sífellu á þennan hátt, hvað hún hefur lært af því að skoða líf sitt í gegnum verkin og í framhaldinu hefur orðið til mjög forvitnileg þróun. Hún hefur komist að því að myndavélin er tímavél, sem hefur þann eiginleika að fanga jafnt fortíð, nútíð og framtíð, og gerir okkur kleift að upplifa einhvers konar tímaleysi og jafnvel kafa í undirmeðvitund okkar. Elina hefur þannig vakið hvað mesta hylli fyrir það að maður skynjar hana og þessa ígrundun í gegnum verkin.“

Reglur leiksins

Eins og Birta nefndi þá hafa verk Elinu verið sýnd áður hér á landi en verkin á sýningunni í Listasafni Íslands eru hins vegar öll ný. „Við höfðum áhuga á að sýna nýjustu verkin hennar sem bjóða jafnframt þeim gestum sem sáu verkin hennar í i8 eða Gerðarsafni að sjá hvernig verk hennar hafa þróast. Þeir sem þekkja fyrri verkin munu vissulega kannast við ákveðna fagurfræði og auðvitað andlit hennar og líkama sem bregður fyrir í verkunum en hún er komin á allt annan stað sem listamaður. Í nýjustu verkunum er kominn meiri leikur í verkin en Elina átti með fyrri verkum sínum þátt í að skapa þá ímynd melankólíu sem við höfum gjarnan af finnskri list.“

Birta segir að þessi hugsun sé líka skyld titli sýningarinnar en hún kallast Leikreglur. „Upprunalegi titillinn er Règle du jeu upp á frönsku en Elina býr í Frakklandi og Finnlandi. Titillinn vísar til þess að hún er að vinna með leikreglur fyrirmælaverka sem eiga rætur sínar að rekja til Fluxus-listamanna sjöunda áratugarins og Dada-ista í byrjun 20. aldar. Mörg verka hennar vísa beinlínis í ákveðin verk frá þessum tíma og þá jafnvel eftir þekkta listamenn sem sköpuðu sér og unnu eftir eigin leikreglum.“

Staða ljósmyndarinnar

Elina Brotherus hefur alla tíð unnið með ljósmyndina sem sinn aðalmiðil en aðspurð um hlut og stöðu ljósmyndarinnar innan samtímalistar segir Birta að ljósmyndin hafi einmitt komið af miklum krafti inn í samtímalistina um það leyti sem Elina Brotherus var að koma fram á sjónarsviðið. „Ljósmyndin kom þá fram sem miðill sem er að verða alltaf minna og minna umdeildur sem tæknilegur miðill. Maður sér að þeir sem vinna með ljósmyndina á einn eða annan hátt finna sjálfir skýrari línur á milli þess hverjir eru ljósmyndarar út frá tæknilegum forsendum og hverjir listamenn út frá fagurfræði eða forsendum samtímalistar.

Með þessum breytingum fór líka í auknum mæli að myndast víða vettvangur fyrir listamenn sem vinna með ljósmyndina sem slíka. Það hefur reyndar verið dálítið erfið fæðing á Íslandi en samt eigum við marga frábæra listamenn sem vinna með ljósmyndina. Listamenn sem fara víða og njóta virðingar á alþjóðavettvangi þannig að þetta er allt í áttina. Ég veit ekki hvort það er hægt að segja að það sé vakning í gangi en það er þó tvímælalaust vöxtur.“

Birta bendir á að sýningin Leikreglur sé hluti af Ljósmyndahátíð Íslands sem er nú haldin í fjórða sinn. „Stórsýningin á verkum Elinu Brotherus er síðasta opnunin á hátíðinni í ár. Elina mun fjalla um verk sín í Listasafni Íslands þann 2. júní.“