Ingibjörg Þórðardóttir, ritstjóri á CNN er í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins á morgun og ræðir um baráttuna gegn fölskum fréttum og ábyrgð fjölmiðla. AT&T varð móðurfélag CNN í sumar. Eðlilegir bólfélagar, segir Ingibjörg, sem er þó uggandi yfir því að fjölmiðlar séu að færast á hendur fárra.


„Þessi þróun er keyrð áfram af þörf markaðarins til að viðhalda vexti og þó að ég vinni fyrir kapítalískan risa þá get ég sagt að fjölbreytileiki í fjölmiðlum er afar mikil­vægur og sérstaklega í fréttum. Ég hef ekkert á móti hægri miðlinum Breitbart sem tekur oft mjög stífan pól í hæðina. Eða dagblaðinu Sun sem hefur einnig mjög ákveðna stefnu sem götublað. Þessir miðlar fara ekki leynt með stefnu sína og hugmyndafræði og eru opnir um sína afstöðu þannig að lesendur vita hverju þeir geta átt von á. Fólk verður að skilja hvernig eigendur geta haft áhrif á stefnu fjölmiðils. Það er hætta á því í dag að fjölmiðlar verði á of fáum höndum og það er mikil krísa í fjármögnun fjölmiðla í heiminum. Það er ekkert skrýtið því samkeppnin við afþreyingu harðnar í sífellu. Ef fréttir CNN ná betur til almennings í kjölfar samrunans þá er það gott. Símafyrirtæki og fjölmiðill eru eðlilegir bólfélagar í dag,“ segir Ingibjörg og bendir á nýlega sameiningu Vodafone við Stöð 2, Vísi og Bylgjuna.

Meira í helgarblaði Fréttablaðsins 15.september.